Fara í efni

MIKILVÆG SKÝRSLA UM HEILBRIGÐISMÁL

Ingimar Einarsson
Ingimar Einarsson
Fram kemur í skýrslu sem Ingimar Einarsson, sérfræðingur á sviði heilbriðgðismála hefur unnið fyrir Krabbameinsfélagið að tuttugu prósent - fimmtungur - af heildarkostnaði við rekstur heilbrigðiskerfisins á síðasta ári hafi komið úr vasa sjúklinga. Hlutfallið hafi hækkað jafnt og þétt um nokkuð langt skeið. Ingimar segir að ljóst sé að efnahagur sjúklinga muni að óbreyttu ráða æ meiru um sjúkdómsmeðferð ef ekki verði snúið af þessari óheillabraut.  

Fram kemur í fréttum RÚV, sem í kvöld gerði skýrslu Ingimars að umfjöllunarefni, að heildarútgjöld til heilbrigðismála á síðasta ári hafi numið um 153 milljörðum króna. Hlutur heimilanna í heilbrigðisútgjöldum hafi verið um 30 milljarðar, sem geri fyrrnefndan fimmtung útgjalda. Greiðsluþátttaka sjúklinga sé mun meiri hér á landi en í nágrannalöndunum og hafi  tvöfaldast á síðustu 30 árum.

Þessar upplýsingar ættu að verða okkur öllum tilefni til þess að staldra við. Þetta viljum við hygg ég fæst að gerist hér á landi, að fjárráð okkar ráði aðgengi að heilbrigðisþjónustunni. Langt er síðan hver teikn voru uppi hvert stefndi og hafa ýmsir orðið til þess að vara við. Á þau varnaðarorð hefur ekki verið hlustað nægilega vel.

Hugleiðum þessi orð úr fréttum RÚV: „ Ingimar segir íslenska heilbrigðiskerfið að hruni komið: „Heilt kerfi sem hrynur. Og það er dýrt að byggja upp frá grunni aftur. Eins og við sjáum núna þá eru átök og stríð á milli aðila og allur trúverðugleiki virðist vera horfinn. Það er lífsspursmál fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu að endurheimta sinn trúverðugleika"."

Spyrja má hvort ábyrgðin hvíli ekki fyrst og fremst á stjórnmálunum að endurheimta trúverðugleika. Þar er talsvert verk að vinna.

http://ruv.is/frett/kostnadur-sjuklinga-eykst