Mikilvæg umræða um spilafíkn
Birtist í Morgunblaðinu 31.03.04
Sunnudaginn 22. febrúar var fjallað í ítarlegu máli um spilafíkn í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins. Þótt nokkuð sé um liðið frá því þessi úttekt eða hugleiðing Morgunblaðsins birtist, langar mig til að þakka blaðinu fyrir að vekja athygli á þeim vanda sem spilafíknin er mörgu fólki á eins áhrifaríkan hátt og þarna var gert. Tilefnið voru nýstofnuð samtök Áhugamanna um spilafíkn og viðtöl við formann samtakanna, Júlíus Þór Júlíusson. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Morgunblaðið bryddar upp á umræðu um þetta málefni og fyrir það á blaðið lof skilið. Með þessu sýnir Morgunblaðið ábyrgð gagnvart mjög alvarlegu þjóðfélagsböli.
Við sem höfum látið okkur spilafíknina og afleiðingar hennar varða, þekkjum af reynslunni að þeir sem njóta afrakstursins af spilakössum taka alla gagnrýni mjög óstinnt upp og finnst að sínum samtökum vegið, jafnvel sér persónulega..
Rauði krossinn réttlætir spilakassa
Tveir aðilar hafa nú kvatt sér hljóðs í þessari umræðu, annars vegar framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands, Sigrún Árnadóttir og hins vegar formaður Rauða krossins, Úlfar Hauksson. Í báðum þessum greinum (sjá Mbl. 24. feb. og 25.mars) er reynt að réttlæta rekstur Íslandsspila, sem Rauði krossinn rekur í samvinnu við önnur virðuleg samtök landinu. Í þessum greinum er rakið allt það mannúðarstarf sem Rauði krossinn kemur að og hvílík vá væri fyrir dyrum ef hróflað yrði við þessari tekjulind.. "Verði rekstur söfnunarkassa bannaður án þess að nokkuð komi í staðinn", segir í grein Sigrúnar Árnadóttur, "þá kemst mannúðarstarf sem nær til þúsunda manna innanlands og utan í uppnám".
Sú spurning vaknar í mínum huga hvort engu máli skipti hverjir það eru, sem fjármagna mannúðina? Ef það er nú svo, sem ég tel vera, að upphæðirnar komi að stærstum hluta frá fólki sem ekki er sjálfrátt gerða sinna, er m.ö.o.haldið spilafíkn, hefur lagt eigið líf og fjölskyldu sinnar í rúst og er jafnvel í sjálfsvígshugleðingum fyrir vikið – þá hlýtur það breyta viðhorfi okkar til þessarar leiðar til fjáröflunar.
Talsmenn Rauða krossins eiga svar við þessu. Gefum framkvæmdastjóranum aftur orðið: "Við höfum líka ráðfært okkur við sérfræðinga í spilaáráttu. Þeir segja okkur að fólk sem haldið er spilaáráttu fái útrás fyrir hana á einhvern hátt – stundum í spilakössum, stundum annars staðar. Verði söfnunarkassar Íslandsspila teknir úr umferð munu þeir sem í þeim spiluðu leita fyrir sér annars staðar...Í þessu tilviki eins og öðrum er auðvelt að bregðast við vandanum með því að banna eina birtingarmynd hans. Í þessu tilviki eins og öðrum leyiir það ekki vandann".
Áreitið skiptir máli
Þetta gengur í berhögg við reynslu þeirra sem þekkja vandann af eigin raun. Þeir segja að áreitið í umhverfinu skipti þá öllu máli. Ef það er ekki fyrir hendi er þeim gert auðveldara að hafa hemil á sjálfum sér, og hið gagnstæða á að sjálfsögðu einnig við. Ekki má gleyma að við erum að tala um sjúklegt athæfi. Hversu margir þeir eru sem haldnir eru sjúklegri spilafíkn er hins vegar mjög umdeilt. Stórar rannsóknir sem gerðar hafa verið í Bandaríkjunum benda til þess að á meðal ungs fólks á aldrinum 16 – 21 sé allt að fimmtungur haldinn sjúklgri spilahegðun og 5,8% hreinir spilafíklar. Þegar fólk er komið yfir 21 árs aldur eru þessar tölur talsvert lægri eða 4% og liðlega 1% hreinir spilafíklar (sjá úttekt í Mbl.12.des.1999). Ef hlutföllin frá Bandaríkjunum (þ.e. samkvæmt þessum tilteknu könnunum) eru yfirfærð á Íslendinga mætti ætla að um 12 þúsund landsmanna eigi við sjúklega spilafíkn að stríða, þar af 4-5 þúsund ungmenni á aldrinum 16 til 20 ára. Með sama hætti mætti áætla að hreinir spilafíklar væru 3 – 4 þúsund, þar af 1000 – 1500 á aldrinum 16 til 20 ára.
Ert þú spilafíkill?
Ekki hef ég nokkrar forsendur til að meta þessar tölur en minnist þess að þegar þær birtust í fjölmiðlum, var þeim harðlega andmælt af forsvarmönnum spilakassanna hér á landi. Þeir létu ekki sitja við orðin tóm heldur fengu Gallup til að kortleggja spilafíkn þjóðarinnar en í þá könnun vísar framkvæmdastjóri Rauða krossins einmitt í fyrrnefndri grein sinni. Tölurnar frá Gallup voru miklu lægri en framangreindar tölur. Reyndar verð ég að viðurkenna að ég hef mjög takmarkaða trú á könnunum af því tagi sem hér um ræðir. Ef hringt er í spilafíkil og hann spurður út í hegðan sína, má allt eins ætla að hann sé líklegur til að segja rangt til.
En deilum ekki um tölurnar. Staðnæmumst við allra lægstu tölur sem ég hef séð haldið fram, tölur sem ég hygg að enginn véfengi að séu of háar, þ.e., að 0.6% þjóðarinnar sé haldin mjög alvarlegri spilafíkn. Það væru hvorki meira né minna en 1700 einstaklingar og ef við bætum fjölskyldum þeirra við, er kominn hópur sem talinn er í þúsundum.
Ég fullyrði að þetta er fólkið sem að uppistöðu til stendur straum af mannúðarstarfi Rauða krossins, þessara "fjölmennustu mannúðarsamtaka heims, hreyfingar sem stendur með afgerandi hætti vörð um líf, heilsu og virðingu fólks, og starfað hefur samfellt í 80 ár á Íslandi", svo vitnað sé í formann samtakanna, Úlfar Hauksson
Um starf Rauða krossinn er margt gott að segja. En það get ég fullyrt að því fólki sem orðið hefur spilafíkninni að bráð eða horft upp á sína nánustu missa allt frá sér, jafnvel líf sitt, þykir Rauði krossinn ekki standa vörð um sitt "líf, heilsu og virðingu" með rekstri spilakassa, eða spilavítisvéla sem mér finnst nær lagi að kalla þá.