Fara í efni

MIKILVÆGUR FYRIRVARI BORGARSTJÓRA

Undirrituð hefur verið viljayfirlýsing borgarstjórans í Reykjavík, bæjarstjórans á Akureyri, fjármálaráherra og iðnaðarráðherra "um að íslenska ríkið leysi til sín eignarhluta Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun."

Þetta er nokkuð sem hefur verið á dagskrá hjá Reykjavíkurborg í langan tíma, eða í rúman áratug eftir því sem ég kemst næst, og hefur þessi vilji verið áréttaður með reglulegu millibili. Því fer fjarri að um þetta hafi ríkt einhugur, hvorki í Reykjavík né í þjóðfélaginu almennt. Þannig má minna á að þegar Reykjavíkurborg fór að krefjast arðgreiðslna út úr Landsvirkjun upp úr miðjum tíunda áratugnum þótti mörgum það stríða gegn réttlætisviðhorfum. Á það var bent að þótt eignarhlutur Reykvíkinga væri mikill frá fyrri tíð, hefði Landsvirkjun vaxið og dafnað í tímans rás, án fjárfestinga frá borginni, vegna nýtingar á landsins gæðum og viðskipta við landsmenn alla. Þrátt fyrir eignaskiptinguna og óháð henni ættu allir landsmenn því að njóta góðs af þessari starfsemi með lágu orkuverði í landinu öllu. Arðgreiðslur til eigenda þóttu stríða gegn þessari hugsun. Sjálfur var ég og er í þeim hópi sem hugsa á þennan veg.

Í samræmi við þessa hugsun er mikilvægt að tryggja samfélagslegt eignarhald á orkugeiranum. Í Vinstrihreyfingunni grænu framboði er þetta algert úrslitaatriði og gildir einu hver afstaða manna er til sölunnar á eignarhlut borgarinnar í Landsvirkjun.

Ljóst er að við stöndum nú á tímamótum hvað skipulag orkugeirans varðar. Geysileg gerjun er á þessu sviði. Þannig má nefna að orkuveitur og upplýsingaveitur eru að renna saman í eitt og margvíslegar skipulagsbreytingar standa fyrir dyrum. Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur kallað eftir þverpólitískri aðkomu að ákvarðanatöku um framtíð orkugeirans og leggjum við höfuðáherslu á samfélagslega hagsmuni.

Enn sem komið er hefur ríkisstjórnin vísað öllum slíkum óskum á bug og voru yfirlýsingar iðnaðarráðherrans við undirskrift fyrrnefndrar viljayfirlýsingar ekki uppörvandi. Samfélagslegur rekstur væri ekki heppilegt form, sagði Valgerður Sverrisdóttir ráðherra og lýsti yfir þeim ásetningi að einkavæða raforkugeirann og gilti þá einu hvort fjárfestarnir væru innlendir eða erlendir enda ekki í samræmi við markaðslögmálin að gera sér rellu út af slíku.. Ráðherrann hafði nýlega gefið slíkar yfirlýsingar á Alþingi. Enda þótt R-listinn hafi til margra ára staðið að þeirri stefnumótun að selja beri hlut borgarinnar í Landsvirkjun eru óneitanlega komnar upp aðrar pólitískar aðstæður með þessum ásetningi stjórnvalda að einkavæða þennan geira. Í ljósi þessa hefði verið hyggilegra af hálfu borgarinnar að fresta því að skrifa undir viljayfirlýsinguna og fá áður viðræður um þau grundvallaratriði sem VG hefur auglýst eftir. Að öðrum kosti gæti stefnt í það að R-listinn í Reykjavík gengi sundraður til þessara verka.

Við undirskrifitina  lýsti Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri því yfir að hér væri um að ræða yfirlýsingu um að ganga til viðræðna um sölu á eignarhlut borgarinnar í Landsvirkjun. Niðurstaða væri ekki fengin. Borgarstjóri lagði ríka áherslu á þennan fyrirvara sinn. Það var hyggilegt af hennar hálfu.