MINNINGAR, RAUNSÆI OG HUGARÁSTAND Í ÍSLENSKRI SAMTÍMA-LJÓSMYNDUN
Ég rakst á eftirfarandi fréttatilkynningu frá Þjóðminjasafni Íslands sem væntanlega á erindi við þig Ögmundur, sem og heilbrigðisráðherra, Guðlaug Þór Þórðarson. Skiptar skoðanir ykkar á ljósmyndum og myndbirtingum, sem Morgunblaðið greinir frá í dag, gætu einmitt falist í þeirri greiningu sem boðað er að fram komi í fyrirlestri Sigrúnar Sigurðardóttur menningarfræðings í Þjóðminjasafninu í dag.
Ég hef fylgst nokkuð með heimasíðu þinni og er persónulega ekki frá því að þú sért enn á módernískum - og jafnvel í bland póstmódernískum nótum - í þinni ljósmyndun en það kemur vonandi í ljós síðar.
En hér kemur hluti af fréttatilkynningunni um fyrirlesturinn í hádeginu í dag:
„Þriðjudaginn 9. september næstkomandi (innskot, kl. 12:00 í dag) flytur Sigrún Sigurðardóttir menningarfræðingur fyrirlestur um minningar, raunsæi og hugarástand í íslenskri samtímaljósmyndun. Í fyrirlestrinum mun Sigrún setja fram þá kenningu að það sem einkenni og sameini verk íslenskra samtímaljósmyndara sé glíman við veruleikann og þráin til að segja satt á persónulegan hátt. Þessi nálgun einkennist af því sem kallað hefur verið ný-raunsæi eða huglægt tilfinningaraunsæi og er á margan hátt andsvar við póstmódernískri nálgun í ljósmyndun.
Í fyrirlestri sínum mun Sigrún fjalla sérstaklega um verk ljósmyndara sem starfa innan hins nýstofnaða Félags íslenskra samtímaljósmyndara og sýningu þeirra Endurkast sem nú stendur yfir í Þjóðminjasafninu. Sigrún mun jafnframt ræða um önnur verk íslenskra ljósmyndara sem sköpuð eru á fagurfræðilegum forsendum og fjalla um þau út frá hugmyndum um skörun tímans, minningar og raunsæi í ljósmyndun. ...Fyrirlesturinn er öllum opinn og aðgangur er ókeypis."
ÞLÞ