Fara í efni

MINNINGARBROT INN Í HRYÐJUVERKAUMRÆÐU

Reagan og Gorbasjof
Reagan og Gorbasjof

Ég minnist þess þegar þeir komu hingað til leiðtogafundarins, Reagan Bandaríkjaforseti og Gorbachev, Sovétleiðtogi, haustið 1986. Ég var fréttamaður Sjónvarps og sagði fréttir af fundinum. Fylgdi þessum höfuðkempum hvert fótmál frá því þeir lentu á Keflavíkurflugvelli.

Það kom mér á óvart að sovésku öryggisverðirnir voru slakari en bandarískir starfsbræður þeirra. Þeir síðarnefndu voru á taugum eins og sagt er. Gekk á með stöðugri leit, heilu húsin og bílar rifin í sundur ef þar skyldi vera að finna árásarvopn. Allir grunaðir um græsku.

Eftirfarandi tilgáta var sett fram: „Reynt var að ráða Reagan af dögum á götu í Washington og það tókst næstum því. Í Bandaríkjunum ganga margir hættulegir menn lausir, þar á meðal ofstækisfullir pólitiskir andstæðingar valdhafanna. Í Sovétríkjunum er búið að finna þá flesta og loka inni. Leiðtogar í Sovétríkjunum eru óhultari en bandarískir leiðtogar og sovéskir öryggisverðir fyrir bragðið rólegri. En það hefur kostað fórnir. Sovétríkin eru lögregluríki!"

Viljum við færa ótakmarkaðar fórnir fyrir aukið öryggi? Ekki vil ég það. Þar fyrir utan veita lögreglumenn sem stöðugt munda skotvopn okkur ekki aukið öryggi. Þvert á móti.