Fara í efni

MINNISVARÐI UM HIROSHIMA VIÐ HÖFÐA?

Höfði 2
Höfði 2

Eflaust er það af mjög góðum hug að bandaríska Stríðsminjanefndin (Battle Monuments Commission) vill reisa minnisvarða við Höfða í Reykjavík.

Samkvæmt frétt í Morgunblaðinu 18. ágúst er umsókn um leyfi fyrir minnismerkinu, sem á að verða tveir til þrír metrar á hæð, til umfjöllunar hjá yfirvöldum í Reykjavík: „Hugmyndin um minnisvarðann er ekki fullmótuð en vonir standa til að höggvinn verði einfaldur minningarsteinn úr graníti, um tveggja til þriggja metra hár. Í steininn verði grafinn stuttur texti sem lýsi framlagi Bandaríkjanna og Íslands í því augnamiði að stuðla að friði og frelsi í seinni heimsstyrjöldinni og allt fram til loka kalda stríðsins. Einnig til mininngar um mannfallið í stríðinu."

Það kann vissulega að vera áhugi á að reisa minnisvarða um fólk sem lét lífið í heimsstyrjöldinni síðari, ekki síst þau sem létu lífið í baráttu gegn frelsisskerðandi öflum.

Framlag Bandaríkjanna í þágu frelsis og friðar á síðari hluta 20. aldar er svo aftur ekki óumdeilt. Nægir að nefna Hiroshima, Nagasaki og Víetnam, en þar er um að ræða stríðsglæpi sem bandarísk yfirvöld neita að gangast við fram á þennan dag. Kjarnorkusprengjan er sjálfur grunnur bandarískrar hermálastefnu og þar með hótun um að beita henni á nýjan leik!   

Er ekki ágætt að Bandaríkin reisi sín minnismerki heima hjá sér en við höldum Höfða fyrir minnismerki um það sem íslenskt er eða snýr að mannkyni öllu - frelsisbaráttu óháð þjóðerni; svona í ætt við ljósgeislann i Viðey sem lýsir upp í himininn til að minna á friðarákall Johns Lennon?

Svo er alþjóða tengingin við Höfða byggð á samræðum austurs og vesturs yfir Járntjaldið. Minnismerki við Höfða eiga að minna á þær samræður - eins og við reyndar erum prýðilega minnt á þegar við heimsækjum Höfða.