Minnst spilling á Íslandi í öllum heiminum?
Ríkisútvarpið hefur tekið upp þá nýbreytni að heyra skoðanir stjórnmálamanna í yngri kantinum í Speglinum að loknum fréttum tiltekna daga vikunnar. Að sumu leyti var ég sammála Bjarna Benediktssyni, Sjálfstæðisflokki sl. þriðjudag þegar hann sagði, að þeim stjórnmálaflokkum sem lofuðu opnu bókhaldi bæri skylda til að standa við fyrirheit sín. Þegar hins vegar kom að nánari útleggingum og vangaveltum um spillingu skildu með okkur leiðir.
Bjarni segir í pistli sínum: “Ef flokkunum væri gert skylt að opinbera það hverjir styðji starfsemi þeirra væri gengið á þann sjálfsagða rétt að geta lagt stjórnmálasamtökum lið með fjárframlögum án þess að stjórnmálaskoðanir viðkomandi þyrftu að vera opinberar.” Vissulega er þetta rétt hjá Bjarna, en er hægt að setja undir sama hatt fjársterka aðila í viðskiptalífinu annars vegar og smágreiðandann hins vegar? Hættan er sú í lokuðu kerfi að fjársterkir aðilar vilji kaupa sér pólitíska velvild og þá ekki síður hitt, að þeir vilji borga fyrir veittan greiða.
Bjarni Benediktsson segir af og frá að rétt sé að setja löggjöf um þetta efni og tínir hann m.a. til þessi rök: “ Nú hér má einnig nefna að í þeim löndum þar sem er að finna löggjöf sem skylda flokka að gera styrki frá fyrirtækjum og einstaklingum opinbera ríkir almennt meiri spilling en við nokkurn tímann þekkjum á Íslandi. Reynslan sýnir því að að löggjöf um stjórnmálaflokka er alls engin trygging gegn spillingu. Hins vegar er Ísland í flokki þeirra ríkja þar sem að minnst spilling finnst í öllum heiminum.”
Það er rétt hjá Bjarna Benediktssyni að löggjöf er engin trygging gegn spillingu. Ég er hins vegar ósammála því að samasemmerki sé á milli löggjafar og spillingar og mætti spyrja hvort hann teldi að löggjöf væri jafnvel líkleg til að örva spillingu. Staðhæfing hans um að leitun sé á löndum þar sem minni spilling er við lýði en einmitt hér á landi hlýtur að gera margan manninn hugsi. Bjarni segir okkur í flokki ríkja þar sem minnst spilling ríkir. Ég ætla þá að leyfa mér að spyrja, í ljósi þeirra mála sem hér hafa komið upp, nánast endalausum fréttum af spillingarmálum og pólitískri ráðstöfun á þjóðareignum, sannanlega oft á mjög vafasömum forsendum, hvort þingmaðurinn þurfi ekki að endurskoða þessa afstöðu sína? Gæti ekki verið rétt að íhuga hvort landið kunni að hafa færst á milli deilda í siðferðisflokkuninni? Ef við erum hins vegar raunverulega í fyrstu deild hvað siðferðið snertir, sem ég þó stórefast um, er rétt að íhuga hvort við eigum ekki bara að nota eigin dómgreind og eigið mat og spyrja hvar við viljum sjálf draga hinar siðferðilegu línur, óháð því hvort annars staðar í heiminum finnist enn meira sukk?