Mismunun vegna aldurs og ábyrgð atvinnurekenda.
Birtist í Mbl
FYRIR fáeinum dögum ritaði ég grein í Morgunblaðið til þess að vekja athygli á nauðsyn þess að atvinnurekendur misbeittu ekki valdi sínu gegn fólki sem komið er á miðjan aldur og þar yfir. Á Alþingi er til umfjöllunar þingmál þar sem lagt er til að kanna hvort unnt er með lagasetningu að styrkja stöðu þessa fólks. Þetta mætti hugsanlega gera með því að forgangsraða í þágu þeirra sem hafa lengstan starfsaldur þegar kemur til uppsagna vegna erfiðs fjárhags fyrirtækja eða stofnana; með lengingu á uppsagnarfresti í þágu þeirra sem hafa langan starfsaldur; með löngum biðlaunarétti, svo dæmi séu tekin. Ég skal fúslega játa þótt ég sé flutningsmaður þingmálsins að ég geri mér grein fyrir því að það kann að vera erfiðleikum háð að tryggja réttlæti í þessum efnum með lögum þótt ég vilji láta kanna með opnum og jákvæðum huga hvort það sé unnt.
Hugarfarið mikilvægt.
Í umsögn frá Samtökum atvinnulífsins um þetta þingmál er vísað í að löggjöf til að styrkja stöðu eldra fólks á vinnumarkaði myndi að öllum líkindum verða á kostnað „snerpu og viðbragðsflýtis.“ Ég ætla að leyfa mér að ætla að ummæli af þessu tagi séu sett fram í fljótræði og ekki að mjög yfirveguðu máli og hef ég óskað eftir því að SA skýri sinn málstað á opinberum vettvangi. Eitt er víst að mikilvægt er að tryggja rétt hugarfar hjá atvinnurekendum og þar tel ég að tvennt þurfi að vera upp á teningnum.
Í fyrsta lagi þurfa menn að meta reynslu og þekkingu að verðleikum. Það er einfaldlega rangt að ungt fólk sé betri starfsmenn aldurs síns vegna. Reynsla og þekking skiptir máli. Sú æskudýrkun sem hefur verið við lýði í atvinnulífinu hefur að mínum dómi heldur komið okkur í koll, ekki síst þegar litið er til fjármálageirans þar sem ungt ákafafólk hefur alltof oft farið offari vegna reynsluleysis og ungæðisháttar.
Siðferðilegar skyldur atvinnurekenda.
Í öðru lagi þá hafa atvinnurekendur siðferðilegar skyldur gagnvart fólki sem starfað hefur um langan tíma hjá fyrirtæki eða stofnun. Fólk sem allan sinn starfsaldur hefur starfað af trúmennsku og áhuga hjá fyrirtæki eða stofnun á það ekki skilið að vera varpað á dyr á fullorðinsaldri. Hjá stórum fyrirtækjum eða stöndugum stofnunum hafa forstjórar og ráðamenn ekki leyfi til þess að ganga á þennan hátt á rétt starfsmanna. Þetta er réttur þótt hann sé ekki skráður í lög og hann ber að virða.
Uppsagnir.
Nú kreppir að í sumum greinum atvinnulífsins. Uppsagnir eru því miður orðnar alltof tíðar. Það er ástæða til þess að hvetja atvinnurekendur til þess að sýna sanngirni og ábyrgð gagnvart öllum starfsmönnum, ekki síst þeim sem eru gamalgrónir í starfi. Það fyrirtæki og sú stofnun sem ekki rís undir þessari ábyrgð mun ekki uppskera velvild fólks sem við hana skiptir. Fólk ætlast til þess að farið sé fram af sanngirni.
Réttlæti.
Flestir gera sér grein fyrir því að reynslumikið starfsfólk er verðmætt. Hitt snýr svo að réttlætinu: Starfsmenn sem hafa starfað hjá tiltekinni stofnun eða fyrirtæki, nánast allt sitt starfslíf, eiga það ekki skilið að vera vísað á dyr þegar hillir undir starfslok - eða atvinnuleysi.