MISSKILNINGUR AÐ AÐGREINA VIÐSKIPTABANKA OG FJÁRFESTINGARSJÓÐI?
Í viðtali í Kastljósi Sjónvarpsins í gær sagði Björn Ingi Hrafnsson að „sá misskilningur hefði verið uppi" hér á landi að aðskilja bæri viðskiptabankana og fjárfestingarbankana. Ég lagði við hlustir því ef þessi misskilningur hefur verið uppi þá er ég sekur um að vera haldinn honum því frá árinu 2003 hef ég verið flutningsmaður - nú síðast á haustþingi ásamt Jóni Bjarnasyni - að frumvarpi sem gengur nákvæmlega út á þetta. Við Jón Bjarnason hyggjumst leggja frumvarpið fram að nýju á fyrstu dögum þingsins.
Haltir sigurgöngumenn
Ég hef sannfæringu fyrir því að þegar fjármálakerfið var einkavættt á tíunda áratugnum hafi verið gerð grundvallarmistök sem voru fólgin í því að greina ekki að viðskiptahluta bankanna og fjárfestingahlutann. Fram að einkavæðingu höfðu íslensku bankarnir verið reknir í fullkomnu jafnvægi fyrst og fremst sem viðskiptabankar. Sigurganga „útrásarvíkinganna „ , þotuliðsins sem það einnig var stundum nefnt, fólst ekki síst í því að kaupa upp fyrirtæki með lánum. Þeir gátu haldið sigurgöngunni áfram svo lengi sem lán buðust. Um leið og þrengja tók að aðgengi þeirra á lánamarkaði tók að syrta í álinn og þar með viðskiptahluta bankanna. Nú er svo komið að heimili og fyrirtæki bera ugg í brjósti um framtíðina. Sigurgöngumennirnir eru ekki alveg eins borubrattir og þeir hafa verið - aðeins farnir að haltra.
Varnaðarorðin
Við sem gagnrýndum einkavæðinguna bentum á að íslenska hagkerfið væri smátt í sniðum, óheppilegt væri ef sömu aðilar og ættu atvinnureksturinn í landinu kæmust einnig yfir eignarhald bankanna. Alvarlegast væri þó ef farið yrði að nota bankana sem fjárfestingarsjóði (í brask innanlands og utan) án þess að greint yrði á milli þessara hlutverka. Bentum við á að lög um slíka aðgreiningu hefðu verið við lýði í Bandaríkjunum fyrr á árum, áður en þau hins vegar illu heilli voru afnumin á öldufaldi peningafrjálshyggjunar.
Í viðtalinu í gær þar sem Björn Ingi Hrafnsson vísaði í meintan misskilning okkar Jóns Bjarnasonar - þótt ekki værum við nafngreindir - sagði hann eftirfarandi:
Gamaldags viðskipti aftur í tísku?
"Þetta er algjörlega ósambærilegt vegna þessa að bandarísk stjórnvöld hafa sagt að þau muni tryggja viðskiptabankana. Íslensku bankarnir eru viðskiptabankar, þeir njóta þeirrar tryggingar, og það er þess vegna sem staða þeirra er sterk því að þeir hafa innlán og svo framvegis. Það eru aðallega fjárfestingarbankarnir sem eru í vandræðum. Ég vek athygli á því að hér hefur stundum á Íslandi verið sá misskilningur uppi að það sé mikilvægt að skilja að hefðbundna viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingabankastarfsemi af því það eigi ekki saman. Nú eru menn akkúrat að gera öfugt í Bandaríkjunum, Bank of America er að taka yfir Merrill Lynch vegna þess að menn telja að þetta sé sterkara saman. Fjárfestingarmódelið, það er mjög athyglisvert, það eru mjög merkar greinar eftir Krugman og fleiri í New York Times í dag, þar sem menn segja að hinn hefðbundni fjárfestingabanki sé jafnvel að líða undir lok. Það verði að vera innlán og hefðbundin bankastarfsemi sem mörgum fannst vera dálítið gamaldags hér fyrir stuttu síðan sem er aftur komin í forgrunn, sem er gott."
Að komast yfir gamaldags tryggingu?
Hverjir skyldu vera þessir „mörgu" sem fannst „innlán og hefðbundin bankastarfsemi ... svolítið gamaldags"? Ég reyndar minnist þess að heimsækja bankastjórnendur fyrir fáeinum árum og spurði hvort ekki mætti vænta samkeppni í vöxtum og þjónustugjöldum í einkavæddri starfsemi? Hann hló oní maga yfir fáfræði minni og sagði að ekkert væri upp úr slíku að hafa!
Nú kemur hins vegar á daginn hvar styrkur bankanna liggur. Þeir „njóta tryggingar" eins og Björn Ingi segir, fyrst og fremst í krafti þess að hafa almenn viðskipti innandyra. Það sem spyrja þarf um, er hið gagnstæða við það sem Björn Ingi gerir en hann nálgast málin, þykir mér, út frá sjónarhóli fjárfestingarbankanna: Hvernig verða almennir viðskiptavinir bankanna, þeir sem háðir eru „hefðbundinni bankastarfsemi" , tryggðir í samkrulli við fjárfestingarbraskið? Hvers vegna skyldu bankarnir hafa viljað komast yfir íbúðalánin? Það er vegna þess að íbúðir fólks eru tryggustu veð sem til eru. Þú lætur allt yfir þig ganga áður en þú lætur taka af þér heimili þitt. Gamaldags?
Aðgerða þörf - þegar í stað
Björn Jónasson sendi síðunni afar athyglisvert bréf í gær (birt í dag), þar sem hann sagir m.a. : „Aðgreiningu trygginga, heildsölubanka og almennra viðskiptalána verður að koma á þegar í stað, annars munu ekki aðeins bankarnir tapa heldur einnig vel stæð fyrirtæki og einstaklingar."
Í bréfinu sem ég hvet lesendur til að kynna sér koma fram upplýsingar sem Björn Ingi Hrafnsson og skoðanasystkin hans gætu haft gott af að hugleiða áður en hann skilgreinir frekar "misskilninginn" sem uppi kunni að vera í umræðunni um framtíðarskipan bankastarfsemi í landinu.
Umrætt bréf Björns Jónassonar er hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/thegar-thekkingin-tapar-fyrir-hugmynda-fraedinni