Fara í efni

MORGUNBLAÐIÐ BREGST LESENDUM SÍNUM

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra bar sig aumlega í Morgunblaðinu í gær vegna myndar af sér og Gadaffi Líbíuleiðtoga sem birtist á þessari síðu, en Gadaffi er eins og kunnugt er sérlegur einkavinur Bandaríkjastjórnar sem ríkisstjórn Íslands er í bandalagi við í stríðinu í Írak. Hefur Guðlaugur Þór uppi stór orð um Gadaffi og þig, Ögmundur,  í viðtali við Morgunblaðið. Ekki ætla ég að tjá skoðanir mínar á ummælum hans en ég vil gera athugasemd við fréttaflutninginn af þessu máli.
Morgunblaðið ræðir við ykkur tvo af þessu tilefni, þig og Guðlaug Þór, en ekkert er talað við þriðja aðila málsins, Gadaffi. Hann er ekki spurður hvaða álit hann hafi á myndbirtingu þinni; hvaða skoðanir hann hafi á því að þú hafir, ef rétt reynist, falsað myndina eins og ýjað er að í Morgunblaðinu og sett hann í samhengi við Guðlaug Þór Þórðarson. Er eitthvað víst að honum sé nokkuð gefið um þennan félagsskap frekar en Guðlaugi? Svo lítur út fyrir að ekkert sé skeytt um tilfinningar Líbíuleiðtogans - rétt eins og blaðinu sé nokk sama. Þarna eru að mínum dómi grundvallarskyldur góðrar blaðamennsku að engu hafðar en kannski hefur Morgunblaðið það sér til afbötunar að hafa ekki náð í Gadaffi í tæka tíð.
Úr  þessu bætir blaðið vonandi fljótlega. Enn fremur bregst Morgunblaðið þjónustu við lesendur með staðhæfingum þess efnis að Guðlaugur hafi verið settur inn á mynd með Gadaffi. Getur ekki allt eins verið að það sé omvent; sé myndin á annað borð fölsuð? Spyr sá sem ekki veit og þekkir ekki þau brögð sem beitt er við þær „myndskeytingar" sem Morgunblaðið nefnir svo en leikmenn eins og ég þekkja ekki. Ég sá ekkert einkennilegt við myndina af þeim félögum nema þá kannski eitt. Það kom mér nefnilega á óvart að Guðlaugur Þór væri ekki hærri í loftinu en Líbíuleiðtoginn.
Þjóðólfur