Morgunblaðið glennir upp munninn – á okkur
Merkileg þykir mér forsíða Morgunblaðsins í dag. Ekki þó sérstaklega vegna þess að að þar er að finna teikningu sem óvenjulegt er að rati inn á forsíður dagblaða en hún er af tanngörðum, sem sýna þá stökkbreytingu sem orðið hefur á tannheilsu þjóðarinnar frá sjöunda áratug síðustu aldar til þess tíunda. Munurinn er vissulega ótrúlegur. Það eru stórtíðindi fréttarinnar. Þessu má m.a. þakka öflugu forvarnarstarfi. Reynir Jónsson, yfirtannlæknir Tryggingastofnunar, segir að forvarnir megi þó stunda á hagkvæmari og ódýrari hátt en nú er gert. Þannig séu forvarnir hér fjórum sinnum dýrari en í Svíþjóð en tannheilsa barna þar engu að síður svipuð og hér. Reynir Jónsson segir að bætt tannheilsa gefi okkur stóraukið svigrúm og hvetur til þess að áherslum verði breytt. Hann vill að almannatryggingarnar hætti að mismuna fólki eftir aldri og sjúkdómum. Í viðtali við Morgunblaðið segir Reynir: "Gildandi almannatryggingalög heimila að mínu mati ekki að elli- og örorkilífeyrisþegum sé veitt boðleg þjónusta...Þessu þarf að breyta. Næstu skref ættu svo að vera að hækka endurgreiðslualdurinn sem fyrst í 20 ár til samræmis við önnur Norðurlönd. Minn draumur er að verkið verði svo fullkomnað í fyrirsjáanlegri framtíð og munnholinu verði aftur leyft að teljast fullgildur hluti mannslíkamans og njóta sömu réttinda gagnvart sjúkratryggingum og aðrir líkamspartar hafa. Þá fyrst hafa öll skrefrin verið stigin til fulls."
Undir þetta skal tekið með yfirtannlækni Tryggingastofnunar. Reynir Jónsson yfirtannlænir hefur verið óþreytandi baráttumaður fyrir úrbótum á sviði tannlækniga, stundum gegn talsverðu andstreymi og á lof skilið fyrir staðfestu sína. Þingmenn VG, og vísa ég þar bæði í eigin mál og Þuríðar Backman, hafa með skiplegum hætti flutt þingmál um alllangt árabil, sem ganga í þá átt, sem Reynir Jónsson bendir til og er það fagnaðarefni að hann skuli nú telja að forsendur hafi skapast til aðgerða. Það sem mér finnst merkilegast umhugsunarefni við þessar fréttir er það að þeir sem haldnir eru þeirri bölsýni að eina ráðið sé að skera niður í heilbrigðiskerfinu því ekki sé með nokkru móti hægt að koma í veg fyrir stöðugt vaxandi útgjaldaaukningu ríkissjóðs til heilbrigðismála, ættu nú að geta tekið gleði sína á ný. Með útsjónarsemi og skynsemi við forvarnir og góðri skipulagnigu við lækningar er hægt að ná árangri sem í senn felur í sér framfarir í lækningum og minni kostnað.