Fara í efni

MORGUNBLAÐIÐ Í ANDSTÖÐU VIÐ STJÓRNARANDSTÖÐU


Athyglisvert er hve mjög leiðarahöfundur Morgunblaðsins er upptekinn við að grafa undan stjórnarandstöðunni og þá einkum Steingrími J. Sigfússyni, formanni Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Í leiðara eftir leiðara er fjargviðrast út í forystu VG og þess nánast krafist að hún hypji sig. Þetta er ósmekklegt en skiljanlegt þegar málið er skoðað í víðara pólitísku samhengi. Við völd í landinu er nú ríkisstjórn sem hefur uppi ýmsa hægri sinnaða frjálshyggjutilburði. Þeir tilburðir njóta velvildar á ritstjórnarskrifstofum Morgunblaðsins. Þar er nú ákaft talað fyrir víðtækri sátt í samfélaginu og að sú sátt muni án efa myndast ef ekki væri fyrir vinstri áherslur VG. Og í framhaldi krefst Morgunblaðið þess að sá flokkur verði grænn og bara grænn umhverfisverndarflokkur og gleymi öllu því sem horfir til vinstri áttar.

Þetta gerist á sama tíma og ríkisstjórnin – á sínum fyrstu dögum  - tekur opnum örmum fulltrúum einkaframtaksins sem nú búa sig undir að ryðjast inn eftir spítalagöngum landsins. Sjóvá ríður á vaðið og heimtar Grensásdeild Landspítalans. Önnur fyrirtæki eru í startholunum.
Morgunblaðið vill ekki láta sitt eftir liggja. Verkefni dagsins er að veikja Vinstrihreyfinguna grænt framboð, eina stjórnmálaaflið í landinu sem setur almannahag ofar sérhagsmunum fjármagnsins. Morgunblaðinu mun ekki takast þetta ætlunarverk sitt.