Morgunblaðið og Martin
Stundum hef ég verið við það að trúa því að Morgublaðið ætli sér í alvöru að hasla sér völl sem frjálslynt stórblað. Vissulega á blaðið stundum góða spretti. Enginn fjölmiðill tekur eins vel upp hanskann fyrir geðfatlaða og Morgunblaðið. Enginn fjölmiðill er eins reiðubúinn að opna síður sínar fyrir hópum á borð við spilafíkla og tekur á þjóðfélagsmeinum af eins mikilli alvöru og alúð og Morgunblaðið gerir oft á tíðum. Sama á við þegar kastljósi er beint að ýmsum álitamálum í efnahagslífi þjóðarinnar.
En síðan koma stóru skellirnir þegar við erum óþyrmilega minnt á að Morgunblaðið er þegar allt kemur til alls ennþá fast í gamla farinu og stillir sér upp til varnar afturhaldssömum stjórnvöldum hér á landi og skipar sér í hóp fjölmiðla sem virðast nánast undantekningalaust taka afstöðu með Bandaríkjastjórn – og verður ekki betur séð að það geri Morgunblaðið hver sem málstaður hennar er. Ekki er það beinlínis traustvekjandi.
Og nú standa Frakkar í vegi þess að Bandaríkjastjórn hafi sitt fram í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Morgunblaðið segir af því tilefni í leiðara 18. febrúar: "Það er slæmt að ekki náðist málamiðlun í öryggisráðinu og augljóst að Frakkar bera þar mikla ábyrgð. Ekki er hægt að sjá, að sú afstaða þeirra að beita neitunarvaldi hvað sem á gengur byggist á málefnalegum rökum."
Í ljósi þeirrar umræðu og deilna sem fram hafa farið um lögmæti aðgerða, vopnaeftirlitið, aðra valkosti í stöðunni, siðferðilegan rétt Bandaríkjastjórnar, orðalag ályktana Öryggisráðsins um Írak, ógnarinnar sem sögð er stafa af Saddam Hussein, svo eitthvað sé talið, þá er vandséð að Frakkar byggi ekki afstöðu sína á málefnalegum rökum. Nema að Morgunblaðið telji að olíuhagsmunir Frakka ráði för en á þessari heimsasíðu hefur verið vísað til þess að stjórnmálaskýrendur telji að bandarískir og franskir olíuhagsmunir stangist á. Sjálfum finnst mér þó rangt að láta Frakka ekki njóta vafans og að ekki megi útiloka að siðferði og sannfæring stýri gerðum þeirra.
En áfram má spyrja. Finnst Morgunblaðinu ef til vill rangt að neitunarvaldi sé yfirhöfuð beitt í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna? Þá væri illt í efni því vinir Morgunblaðsins í Washington hafa beitt neitunarvaldi sínu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna 73 sinnum í sögu samtakanna. Aðeins gömlu Sovétríkin tóku þeim fram að þessu leyti því þau beittu neitunarvaldi 117 sinnum. Síðan 1990 hefur ekkert ríki jafn oft beitt neitunarvaldi í Öryggisráðinu og Bandaríkjastjórn, nú síðast fyrir fáeinum mánuðum, til að koma í veg fyrir ályktun gegn hernaðarofbeldi Ísraelsmanna á herteknu svæðunum. Staðreyndin er náttúrlega sú að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna er meingölluð stofnun, arfur frá nýlendutímanum og oftar en ekki í hróplegri andstöðu við meirihluta aðildarþjóða Sameinuðu Þjóðanna. Þannig hafa ríkin í Samtökum ríkja utan hernaðarbandalaga, 116 að tölu, fordæmt áform Bandaríkjastjórnar. Þessi ríki eiga öll aðild að Sameinuðu þjóðunum. Telur Morgunblaðið ef til vill að þau byggi ekki á málefnalegum rökum fremur en Frakkar?
Martin Jónas B. Swift sem skrifar á heimasíðu UVG (Ungra vinstri grænna) hefur að mínum dómi meira til síns máls en Morgunblaðið að þessu sinni. Martin telur að Frakkar vísi veginn inn í framtíðina og gefi okkur von um að með lýðræðislegri vinnubrögðum á vettvangi SÞ megi finna forsendur friðar. Um gagnrýni á hendur Frökkum segir Martin Jónas B. Swift: " Menn stíga nú á stokk og halda því fram að alþjóðasamfélagið standi nú veikara eftir vegna þess að ekki var samþykkt að veita bandaríska hernum blessun Öryggisráðsins. Þessu er ég ósammála. Frakkar gerðu, að mínu mati, alþjóðasamfélaginu mikinn greiða. Of lengi hefur verið breitt yfir veikleika Sameinuðu þjóðanna gagnvart heimsveldi Bandaríkjanna. Slík viðurkenning á ástandinu er forsenda breytinga. Forsenda fyrir vakningu á nauðsyn þess að efla lýðræðislegri aðferðir við lausn alþjóðlegra deilumála -- og þar með forsenda fyrir friði."
Þessu er ég innilega sammála. Alla grein Martins Jónasar B. má lesa á slóðinni: http://www.uvg.vg/