Morgunblaðið ver Blair
Leiðari Morgunblaðsins í dag er kostulegur. Hann ber fyrirsögnina: BLAIR, BBC og GEREYÐINGARVOPNIN. Í leiðaranum segir orðrétt: "Nefnd breska þingsins telur sannað að þær fullyrðingar sem BBC setti fram eigi ekki við rök að styðjast. Hugsanlega hafði heimildarmaður BBC ekki aðgang að öllum upplýsingum. Það má heldur ekki útiloka að hann hafi hreinlega viljað koma ákveðnu sjónarmiði á framfæri í pólitískum tilgangi eða sem lið í valdabaráttu eða togstreytu innan einhvers anga leyniþjónustunnar."
Leiðarahöfundur Morgunblaðsins virðist ekki hafa hugleitt eðli þessarar nefndar sem kemur í ljós þegar samsetning hennar er gaumgæfð. Í nefndinni voru ellefu einstaklingar. Þar af voru sjö þingmenn Verkamannaflokksins en aðeins fjórir frá stjórnarandstöðu. Nefndin klofnaði varðandi helsta ágreiningsefnið, meinta fölsun Alastairs Campbells á gögnum leyniþjónustunnar. Skiptingin í atkvæðagreiðslu var annars vegar stjórn og hins vegar stjórnarandstaða að undanskyldum einum þingmanni Verkamannaflokksins, Andrew Mackinley, sem hafi upp harða gagnrýni á ríkisstjórnina.
Í leiðara Morgunblaðsins er reynt að hvítþvo bresku ríkisstjórnina. Í huga leiðarahöfundar virðist deilan ekki snúast um trúverðugleika Tonys Blairs heldur sýni hún "hversu mikilvægt er að fara varlega með meðferð og túlkun á leynilegum upplýsingum." Það er vissulega rétt að fyrir leyniþjónustumönnum kunna að hafa vakað annarleg sjónarmið og að uppljóstarar innan hennar hafi "viljað koma ákveðnu sjónarmiði á framfæri í pólitískum tilgangi."
Þetta er langsótt. Miklu nærtækara er að einmitt þetta hafi vakað fyrir pólitíkusunum, Tony Blair forsætisráðherra og hjálparkokki hans, Alastair Campbell. Það hefur ekki farið svo lítið fyrir ákafa þeirra í að sannfæra heiminn um réttmæti þess að fara með hernaði gegn Írökum. Þegar fyrrnefnd skýrsla (sem þó er pólitískt lituð einsog hér hefur verið rakið) er skoðuð hefur breska ríkisstjórnin ekki verið hvítþveginn í þessu máli nema síður sé. Þannig stendur t.d. enn eftir að í svonefndri febrúarskýrslu hafi stolnir bútar úr tólf ára gamalli ritgerð verið notaðir til að styrkja málstað haukanna. Þá hafi öðrum atriðum verið gert of hátt undir höfði svo sem fullyrðingu um að Írakar gætu gripið til gereyðingarvopna með 45 mínútna fyrirvara.
Þá telur þessi póltíska þingnefnd að enn þurfi Tony Blair og ríkisstjórn hans að gera grein fyrir ýmsum óútskýrðum fullyrðingum. Mín tilfinning er sú að það þurfi leiðarahöfundur Morgunblaðsins í dag einnig að gera.