Fara í efni

MORGUNLAÐIÐ RIFJAR UPP EIGIN SÖGUSKOÐUN

Í heilsíðugrein sl. fimmtudag (21. mars) kemst Morgunblaðið að þeirri niðurstöðu að nýgerðir kjarasamningar marki söguleg tímamót sem megi líkja við svokallaða “Þjóðarsáttarsamninga” frá árinu 1990. Í greininni segir á meðal annars: “Á dögunum var skrifað undir kjarasamninga milli fjölmennustu verkalýðsfélaga landsins og Samtaka atvinnulífsins. Við samningagerðina var gjarnan vitnað til hins svokallaða þjóðarsáttarsamnings sem undirritaður var 2. febrúar 1990.”
Hér er því við að bæta, sem reyndar getur ekki talist vera smátt mál eða aukaatriði, að allur opinberi geirinn á enn ósamið. Með þessari framsetningu er þeim skilaboðum hins vegar komið á framfæri við hann að nú skuli staðar numið, það sé komin þjóðarsátt.

Vissulega margt áþekkt þá og nú

Það er vissulega rétt hjá Morgublaðinu að sumt er áþekkt nú og við kjarasamningsgerðina í byrjun ársins 1990. Í báðum tilvikum var lögð áhersla á að ná niður vöxtum og verðbólgu og það skyldi gert með litlum breytingum á kauptöxum – miðað við óbreytt ástand yrði jafnvel rýrnun á kaupmætti taxtans, með öðrum orðum, samið um launalækkun að öðru óbreyttu – nema að von væri til þess að ekki yrði allt óbreytt, lægra verðlag kæmi til með að vega þungt í kaupmættinum, að ógleymdri vaxtalækkun. Einnig mætti bæta tilteknum lágtekjuhópum upp tekjurýrnun með millifærlsum þannig að þar yrði jafnvel aukning kaupmáttar.

Í samanburðarfræðum sínum rifjar Morgunblaðið upp eigin skrif frá 3. febrúar árið 1990, daginn eftir að “Þjóðarsáttarsamningarnir” voru undirritaðir: “ … Að baki þeim kjarasamningum, sem nú hafa verið gerðir, liggja margra mánaða persónuleg samtöl á milli þessara þremenninga (þ.e. Ásmundar Stefánssonar, forseta ASÍ, Einars Odds Kristjánssonar, formanns VSÍ/nú SA og Guðmundar J. Guðmundssonar, formanns Dagsbrúnar), sem hafa talað saman, kynnzt lífsviðhorfum og sjónarmiðum hver annars, myndað trúnaðarsamband sín í milli og unnið í einlægni að því að brjóta nýjar brautir í samskiptum verkalýðshreyfingar og vinnuveitenda.“

Lífseig söguskoðun en deilt um höfundarrétt – og reyndar fleira

Það er látið fylgja sögunni að það hafi verið Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, sem skrifaði þennan texta frá því í febrúar árið 1990; texta sem orðinn er að lífseigri söguskýringu.
Þessa söguskýringu hafa ýmsir engu að síður orðið til að véfengja, nú síðast Þröstur Ólafsson í að mörgu leyti athyglisverðri bók sinni, Horfinn heimur, minningaglefsur, sem kom út fyrir síðustu jól. Þar setur hann sjálfan sig óbeint í höfundarhlutverk Þjóðarsáttar sem hann lýsir sem stöðugleikasamningi um lífskjör. Það hafi einmitt verið nafngift sem hann hafi gefið hugmyndum sínum frá haustinu 1985 sem urðu síðan undirstaðan í kjarasamningi Dagsbrúnar í ársbyrjn 1986. Þröstur var á þessum tíma hagfræðingur verkamannafélagsins Dagsbrúnar og jafnframt aðstoðarmaður Guðmundar J. Guðmundssoar, formanns þess félags.
Hugmyndalegur grunnur Lífskjarasamningsins sem Þröstur Ólafsson vísar til frá árinu 1986 hafi fyrst og fremst gengið út á að koma böndum á verðbólgu og stuðla að stöðugleika í þjóðfélagi plagað af óðaverðbólgu og óstöðugleika. Við slíkar aðstæður væri erfið sóknin til bættra lífskjara. Á þessu hafi hann viljað ráða bót.

Verðugt markmið – en svo er það smalamennskan

Þetta var og er vissulega verðugt markmið. “Lífskjarasamningar”, gamlir og nýir, svo og gamlar og nýjar “þjóðarsáttir” eiga það hins vegar sameiginlegt að vilja jafnframt smala öllu launafólki inn í eina rétt þar sem allir skuli lúta miðstjórnarvaldi.
Nafngiftirnar auðvelda áróðurinn: “varla ertu á móti þjóðarsátt?”, “villt þú ekki lífskjarasamning?”
Þarna nálgumst við skyldleikann við svokallað SALEK model sem byggir a þeirri trú að aldrei takist betur til en þegar viti bornir menn nái saman og stýri okkur öllum inn í viti borna veröld. Í lífskjarasamningi Þrastar Ólafssonar tókst að vísu ekki að smala öllum í eina rétt sem tókst svo aftur á móti að verulegu leyti að gera í “þjóðsrsáttinni” árið 1990. Það var og hið sögulega við þann samning samkvæmt söguskýringu Morgunblaðsins, að allflestir hafi endað undir straujárninu.

Lýðræðið verði ekki látið trufla

En varðandi hina vitibornu og hina vit-minni, gekk Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, harla langt á þessum árum. Hinn 15. nóvember 1992 segir hann á meðal annars í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins þar sem fjallað er um umdeilda framlengingu á Þjóðarsáttarsamningunum:
"Ásmundur Stefánsson, forseti ASÍ, er í sérstakri stöðu nú af tveimur ástæðum. Annars vegar hefur hann meiri reynslu og yfirsýn en flestir aðrir sem að þessari samningsgerð koma og hins vegar hefur hann lýst því yfir að hann gefi ekki kost á sér til endurkjörs á þingi Alþýðusambandsins sem kemur saman seinna í þessum mánuði í fyrsta sinn í fjögur ár. Sú staðreynd að fráfarandi forseti ASÍ þarf ekki að leita stuðnings við endurkjör gerir það að verkum að hann getur starfað að málinu eingöngu á grundvelli málefnalegrar sannfæringar og er frjáls af öðrum sjónarmiðum. Í þessu felst mikill styrkur við erfiðar aðstæður..."

Með öðrum orðum: Styrkurinn er í því fólginn að þurfa ekki að hlusta á fólkið.

Til að sanngirni sé gætt þá átti Styrmir eftir að kúvenda fullkomlega að þessi leyti. Haustið 2009 kom úr bók hans Umsátrið þar sem hann fjallaði um efnahagshrunið sem gekk yfir þau misserin. Um þetta fjallaði ég í grein í Þjóðmálum sem ég nefndi Frjáls er óttalaus maður, skömmu eftir að bókin kom út og vitna ég þar í endurskoðaðan Styrmi:

"Hvernig getum við ráðið bót á þeirri meinsemd, sem sundrungin og návígið er? Svarið er meira lýðræði - beint lýðræði - krafa fólksins á götunni í kjölfar hrunsins. Í því er fólgin lausn á grundvallarvanda í þjóðfélagsmálum okkar Íslendinga. Við búum við lýðræði, fulltrúalýðræði.Við eigum að þróa fulltrúalýðræði okkar áfram til beins lýðræðis...Þar tekur fólkið sjálft ákvarðanir um flest stór mál í beinni atkvæðagreiðslu. Hér verða færð rök að því, að svarið við þeirri djúpu meinsemd, sem fámennið og návígið er á Íslandi og hefur alltaf verið, sé beint lýðræði. Að landsmenn taki sjálfir ákvarðanir um flest stór mál og íbúar sveitarfélaga sömuleiðis á sínum vettvangi." (Umsátrið bls, 256).
ahttps://www.ogmundur.is/is/greinar/frjals-madur-er-ottalaus

Sjálfsvirðing, barátta og kjör

Sjálfskipaðir merkisberar skynsemishyggju, - talsmenn lífskjarasamninga og þjóðarsátta og í seinni tíð SALEK líkansins svokallaða sem byggir á því að allt sé útreiknanlegt ef við aðeins tryggjum stöðugleika í nákvæmlega útreiknuðu verkfræðilíkani, - hafa alla tíð séð sína helstu ógn stafa frá baráttufólki sem dirfðist að rugga bát stöðugleikans.
“Ég fór að átta mig á því”, skrifar Þröstur Ólafsson um þetta fólk, “að baráttan sem slík, hversu óraunhæf sem hún annars var, skipti meira máli en kjaraleg niðurstaða.”
(Þröstur Ólafsson, Horfinn heimur, minningabrot, Mál og menning 2023, bls.261).

Í minningarræðu sem ég flutti um Sigríði Stefánsdóttur, frænku mína fyrr á þessu ári vísaði ég í bók Þrastar um þetta atriði:
“Þröstur Ólafsson, hagfræðingur segir í nýútgefinni bók að það hafi runnið upp fyrir sér í verkfallsátökum á níunda áratug síðustu aldar, að harðdrægustu öfl innan verkalýðshreyfingarinnar hefðu ekki síður lagt upp úr átökum og verkfallsbaráttu sem slíkri en þeim ávinningi sem um var barist í krónum talið. Þetta held ég að sé rétt mat. Nema að Þröstur gleymir því að barátta skilar sér sjaldnast að bragði hún breytir hins vegar valdahlutföllum bæði inni á vinnustaðnum og í þjóðfélaginu almennt auk þess að skila krónunum einnig um síðir. Stefán Ögmundsson var spurður eftir langvinnt verkfall prentara árið 1984 hvað honum þætti um þá staðreynd að ekki hefði tekist að ná framsettum kröfum um aukinn kaupmátt. Það kann að vera rétt að gengisfelling hafi rýrt ávinninginn að þessu leyti, sagði hann, en sjálfsvirðinguna höfðu þeir ekki af okkur.”
https://www.ogmundur.is/is/greinar/sigridar-stefansdottur-minnst

Verkalýðsbarátta og verkalýðsverkfræði

Staðreyndin er sú að BSRB verkafallið árið 1984 sem Þröstur Ólafsson og skoðanabræður hans hafa ákaft talað niður, gerði árangursríka aðkomu verkalýðsverkfræðinganna, á borð við hann sjálfan, mögulega. Án þessarar baráttu hefði lítið hnikast í húsnæðis- og vaxtamálum sem tóku að setja svip á kjaraumræðu þegar leið á níunda áratuginn. Allan þann áratug voru að verki aðgerðasinnaðir félagar í verkalýðshreyfingunni, sjálfsprottin húsnæðishreyfing, Sigtúnshópurinn svokallaði, samtök leigjenda og nývöknuð kvennahreyfing sem hver á sinn hátt hömruðu á nauðsyn úrbóta á fundum, fámennum og fjölmennum, í blaðaskrifum og auglýsingum og með margvíslegum öðrum hætti.
Tillögum og kröfum frá þessum hópum rigndi bókstaflega yfir valdastofnanir samfélagsins þannig að oft lék þjóðfélagið á reiðiskjálfi. Fyrir bragðið varð öllum ljóst að breytinga var þörf, og ekki aðeins að þeirra væri þörf, þær yrðu hreinlega ekki umflúnar! Án baráttu þessa fólks hefði aldrei neitt hreyfst af hálfu manna sem hrifust hver af öðrum í vinsamlegu spjalli og töldu allt leysanlegt ef menn bara kynnu á reiknistokk.

Engin þjóðarsátt án BSRB

BSRB átti aðild að “þjóðarsáttarsamningunum “1990. Þar á bæ vildum við niður með verðbólguna og framar öllu öðru vildum við vextina niður, á sama hátt og nú hefur verið ofarlega á blaði. Fyrir bragðið myndaðist árið 1989, í aðadraganda “Þjóðarsáttarsamningnna”, grundvöllur víðtækara samkomulags á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar en verið hafði um langt skeið því fram að þessu hafði opinberi geirinn lagt ríkasta áherslu á tvennt, kauptaxtann og lífeyrisréttindi. Þetta tvennt hélst í hendur því lífeyrisþegar með sitt eftirlaunakerfi (þar sem lífeyrisréttur tók mið af kauptaxta eftirmanns í starfi) voru háðir því að kauptaxtinn fylgdi launaskriði markaðarains sem þessi árin var á fullri ferð. Áherslan á kauptaxta var því skiljanleg hjá opinberum starfsmönnum. En nú var BSRB tilbúið að gera atlögu að verðbólgunni en með væntingum sem engan veginn gengu eftir.
Óhætt er að fullyrða að “Þjóðarsáttarsamningarnir” 1990 hefðu aldrei orðið að veruleika án aðkomu BSRB og aldrei hefði áherslan á vaxtamálin orðið það sem hún varð án baráttu húsnæðishreyfingar þessara ára.
Fórnarlambið í “þjóðarsáttinni” var BHMR (eins og BHM hét þá), samtök háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, sem vildu berjast og gerðu það í alvöru en fyrir markmiðum sem gengu þvert á stefnu BSRB og hefðu orðið á kostnað lágtekju- og millitekjufólks í opinbera geiranum ef þeir hefðu að öllu leyti náð fram að ganga. Kröfurnar gengu nefnilega út á grundvallar kerfisbreytingu, að komið yrði á markaðslaunakerfi, sem tæki til allra opinberra starfsmanna. Þess vegna gátum við ekki átt samleið. Frá þessu greini ég nokkuð ítarlega í bók minni Rauði þráðurinn (Bókaútgáfan Sæmundur, 2022) en þar fjalla ég á meðal annars um kjarasamninga og verkfallsátök á níunda áratugnum.
Fljótlega átti eftir að koma í ljós að fyrir ríkisvaldinu og atvinnurekendum vakti annað og meira en að ná niður verðbólgu og vöxtum sem vissulega byggði þó á einlægum vilja að sínu leyti. En það breytti því ekki að viljinn stóð líka til þess að umbylta þjóðfélaginu í anda markaðshyggju og skjólið sem “þjóðarsáttin” veitti átti að nota til þess.

Skjól til að umbylta þjóðfélaginu

Þegar þetta varð ljóst vildi BSRB segja “sáttinni” upp og reyndi forysta samtakanna að kalla til verkfalls á fyrri hluta árs 1993 en tókst ekki (frá þessu greinir í Rauða þræðinum).
En aftur þarna - hvað varðar félagslega umbyltingu, aðför að velferðarþjóðfélaginu - er ákveðin samlíking með “þjóðarsáttartímanum” í byrjun tíunda áratugarins og nú þegar markaðsvæðing er á fullri ferð á nánast öllum sviðum efnahgs- og þjóðlífs.
Munurinn er þó sá að markaðsvæðingin er nú miklu hraðskreiðari og djúptækari en hún var í byrjun tíunda áratugarins.
Með tilkomu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks árið 1991, sáum við hins vegar hvað koma skyldi og hófum markvissa baráttu gegn markaðsvæðingunni. Án þeirrar baráttu værum við fyrir löngu komin í mun verri aðstæður en við erum þó í nú. Allan tíunda áratuginn og vel fram yfir aldamótin háði BSRB öfluga baráttu, bæði hér heima og á vettvangi evrópskrar verkalýðshreyfingar og verkalýðshreyfingar starfandi á heimsvísu, gegn ásælni auðvaldsins. BSRB átti á þessum tíma afgerandi rödd á alþjóðavettvangi í baráttunni við peningafrjálshyggjuna. Fjöldi BSRB félaga tók þátt í þessari baráttu heima og heiman. Og í boði samtakanna komu fyrirlesarar hver á fætur öðrum sem kveiktu í okkur og héldu baráttuglóðinni lifandi.

Betur má ef duga skal

Ég hef oft furðað mig á langlundargeði verkalýðshreyfingarinnar á undanförnum árum, hve þögul hún hefur verið til dæmis um markaðsvæðingu orkunnar, sem að mínu mati er tilræði við verlferðarsamfélagið, markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustunnar sem einnig gerist átakalaust á sinn þögla hátt, að ógleymdu kvótakerfinu sem byggir á stórfelldu ráni.
Hvar sem litið er taka peningaöflin völdin jafnt og þétt, farið er að rukka við náttúruperlur Íslands, auðmenn sem hrakist hafa frá sínum heimalöndum fá firði og flóa til fiskeldis á kjörum sem þeir gátu ekki látið sig dreyma um heima fyrir, og áfram mætti telja. Rukkað er fyrir læknisþjónustu og þótti það mikill sigur (mikilvægt var það vissulega) þegar hætt var að rukka aldraða við komu í heilsgæsluna, sem þó var ókeypis fyrir alla fyrir daga “þjóðarsátta”!

Þegar betur er að gáð er ekki með öllu sanngjarnt að tala um langlundargeð verkalýðshreyfingarinnar, miklu nær væri að tala um ósvífin stjórnvöld sem haft hafa að engu lýðræðislegan vilja fólks í þeim málum sem ég hef nefnt og mörgum fleirum sem varða almannahag. Þetta varð niðurstaða mín eftir að ég fór að fletta upp og lesa mig til.

Þannig var innleiðingu orkustefnu Evrópusambandsins andæft af hálfu verkalýðshreyfingarinnar með Drífu Snædal, þáverandi forseta ASÍ, í fararbroddi. Þegar á fyrstu stigum umræðunnar um svokallaðan Orkupakka3 sem var mikilvægur áfangi í þessari innleiðingu lét Drífa þá frá sér heyra gegn markaðsvæðingu orkunnar á skýran og afdráttarlausan hátt. Ragnar Þór hjá VR, Vilhjálmur Birgisson, þáverandi varaforseti ASÍ, Stefán Ólafsson hjá Eflingu og fleiri tóku undir, samtök og einstaklingar sbr. þessa umfjöllun í Bændablaðinu sem ávallt var vakandi í þessari sem annarri umræðu um grundvallarmál af þessu tagi:  https://www.bbl.is/frettir/samband-gardyrkjubaenda-asi-fraedimenn-og-9-fyrrum-radherrar-vara-vid-orkupakka-3
 
Ég nefni öfluga einstaklinga og vísa í samþykktir samtaka á borð við samtök Garðyrkjubænda til að minna á að jafnvel á þessar raddir var ekki hlustað í Stjórnarráði Íslands. Þar var það línan frá Brüssel sem réði, ekki islenskur þjóðarvilji og enn heyrum við fulltrúa Íslands skála fyrir því hve EES samningurinn hafi reynst vera hnökralaus og til góðs- og bara til góðs, nú síðast forsætisráðherra í þrjátíu ára afmælisveislu EES samkomulagsins.

Betur má því ef duga skal í varðstöðu verkalýðshreyfingar og almannasamtaka sem vilja gæta auðlinda þjóðarinnar og verja almannahag. Verkalýðshreyfing og önnur almannasamtök þurfa greinlega að verða miklu háværari.

Eins er það með einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar. Þar hefur heyrst gagnrýni frá BSRB eins og stundum áður og nú upp á síðkastið hefur núverandi forseti ASÍ byrst sig annað veifið um einkavæðingu öldrunarþjónustunnar.
En aftur hér þarf meira ef duga skal og mun reyna á það hvort fjögurra ára kjaraskjól verði áfram notað til að hola þjóðfélagið að innan eins og gert hefur verið á undanförnum árum án afláts.

Á Alþingi ríkir mikil værð - alltof mikil værð - og er það mitt mat, með hliðsjón af stöðu stjórnmálanna, að það velti á baráttu verkalýðshreyfingarinnar hvort takast muni að hrinda aðförinni að innviðum velferðarþjóstunnar. Kröftug umræða á Samstöðinni til varnar velferðinni hefur skipt máli svo og sprettir ýmissa fjölmiðlamanna. Þannig hefur vikublaðið Heimildin tekið kvótakerfið og einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar föstum tökum. En aftur hér þarf meiri og gagnrýnni umfjöllun um þetta hljóðláta rán í þjóðfélaginu. Þá hefur Útvarp saga verið opin þeim sem gagnrýnt hafa einkavæðingu orkunnar og er það þakkarvert. Bylgjan hefur einnig verið opin og leitandi en Ríkisútvarpið yfirleitt haft öðru að sinna en aðförinni að velferðarkerfinu.

(Úr leiðara Morgunblaðsins 13. mars, 2023)
En aftur að nýgerðum kjarasamningum og virði baráttunnar. Samkvæmt fréttum fengust mestu kjarabæturnar nú fyrir fólk í ræstingastörfum. Hvers vegna skyldi það hafa verið?

Vegna þess að atvinnurekendum hafi verið sýnt fram á með útreikningum að annað væri ekki boðlegt en að bæta kjör þessa fólks? Mig grunar að skýringin sé allt önnur þótt atvinnurekendahliðin hljóti vissulega að hafa leitt hugann að því að aðfluttir launaþrælar þyrftu þó að geta skrimt. En ég tel nokkuð víst að skýringuna sé að finna í verkfallsbaráttu sem Eflingarfélagar undir foystu Sólveigar Önnu Jónsdóttur háðu snemma á síðasta ári við hótelvaldið sem vildi halda þessu fólki á þrælakjörum. Barátta ræstingafólksins hafi einfaldlega verið að skila sér að einhverju leyti í samningunum nú.
Svo geta menn kallað þetta hvaða nöfnum sem menn vilja, þess vegna baráttu baráttunnar vegna. Það sýndi sig hins vegar enn eina ferðina að barátta baráttunnar vegna skilar sér í vasann auk þess sem baráttufólki reynist öðrum fremur auðveldara að ganga upprétt.

(https://www.ogmundur.is/is/greinar/til-eflingar ...

https://www.ogmundur.is/is/greinar/eg-hlakka-lika-til)

En hvert vilja stjórnöld, og samtök atvinnurekenda auk verkalýðsverkfræðinganna í verkalýðshreyfingunni stefna með margumtöluðu SALEK samkomulagi?

Samkomulag um SALEK (samstarf um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga) var innsiglað í október árið 2015 og byggir það á fjórum meginstoðum sem hér má sjá á skjáskoti af vef Samtaka atvinnulífsins:

Þótt samkomulag hefi verið gert um SALEK hefur það tekið sinn tíma að öðlast viðurkenningu – og á enn lamgt í land – vonandi sem allra lengst. Segja má að SALEK hafi verið að reyna að fæðast mörg síðustu ár eða allar götur frá “lífskjarasamningi” Þrastar Ólafssonar á níunda áratug síðustu aldar.

Þannig hefur hver tilraunin á fætur annarri verið gerð til að berja í þá bresti sem hafa verið til staðar í SALEK líkaninu, til dæmis með því að færa ríkissáttasemjara auknar valdheimildir. Þetta hefur hins vegar mætt andstöðu en einnig hafa verið uppi efasemdir um réttmæti þess að draga tennur úr baráttuviljugum hópum en það er nokkuð sem verður að gera eigi SALEK að ná fram að ganga. Þetta er sjálfur kjarninn í deilunum um SALEK.

Mér þótti það góðs viti þegar formaður VR greiddi atkvæði með 150 manna láglaunahópnum i Leifsstöð, sem áður er vikið að, tilbúinn að verða undir í félagi sínu sem vildi ljúka samningum á SALEK forsendum. Ég hvet fólk til að hlusta á mjög vel framsettar röksemdir Höllu Gunnarsdóttur í Silfri Sjónvarpsins þar sem hún andæfir miðstýrðu ofríki gegn fólki sem er búið að fá sig fullsatt á ranglátu vaktafyrirkomulagi og óskamfeilinni framkomu í þess garð af hálfu stjórnenda flugfélaga, húsráðenda í Leifsstöð.
Hin nýtilkomna “þjóðarsátt” vildi ekki leyfa láglaunafólki, margþreyttu á yfirgangi forsvarsmanna flugfélaganna að taka sinn slag en það gaf sig ekki og átti þegar upp var staðið talsmenn sem komu baráttuvilja þess á framfæri og spái ég því að þetta tvennt, óttalaus baráttuvilji og góðir talsmenn eigi eftir að skila árangri sem verkalýðsverkfræðingar hefðu aldrei náð fram.

https://www.ruv.is/frettir/innlent/2024-03-19-skrifad-undir-kjarasamninga-i-skugga-hotunar-um-verkbann-407829

Ég spái því að komið verði til móts við þennan aðþrengda vaktavinnuhóp í Leifsstöð en verði það gert væri það einvörðungu vegna þess að fólkið var tilbúið að berjast og naut þess að búa við forystu sem vildi virða þann vilja.

Það er nefnlega alveg rétt að barátta baráttunar vegna breytir þjóðfélagi. Verkfræðimódelið drepur hins vegar allt í dróma, deyðir allt líf á endanum.

SALEK kemur mörgum fyrir sjónir sem skynsemin uppmáluð. En þannig er ásýndin aðeins í súrefnilausum vistarverum og verður líflaus til langframa.

Og það er greinilega það sem Mogginn vill þegar hann segir á forsíðu 8. mars sl. um nýafstaðna SALEK samninga, að vonandi sé þetta vísbending um það sem koma skal. "Nýjar venjur" eru að sjálfsögðu þvingurnar sem setja þurfi á sjálfsprottna og lítt beislaða baráttu. 

 

Allt þetta ræddi ég við ágætan upprennandi stjórnmálafræðing, Ágúst Valves Jóhannesson sem nýlega gerði könnun á afstöðu innan verkalýðshreyfingarinnar á því hvert bæri að stefna í samningamálum.

Spjallað við Ágúst Valves

Í samræðu okkar dvöldum við talsvert við ábyrgð stjórnvalda. Ábyrgð sína beri stjórnvöldum að sjálfsögðu að axla óháð kjarasamningum en tilhneigingin hafi verið sú að fresta því sem gera þurfi til þess að geta notað það sem keyri á verkalýðshreyfinguna: þið fáið stuðning í húsnæðismálum ef þið lofið að heimta ekki betri réttindi og kjör að öðru leyti og ef þið lofið að þegja í fjögur ár. Þetta hefur verið viðkvæðið og skýrir hrifningu atvinnurekenda- fjármálavalds á þjóðarsáttarlíkaninu, það sé eftirsóknarverð spennitreyja.
Það breytir því hins vegar að sjálfsögðu ekki að stjórnvöldum ber að sýna félagslega ábyrgð, og geri þau það, búi vel að húsnæðiskerfi, heilbrigðiskerfi og og öðrum þáttum velferðarþjónustunnar og láti auk þess vera að veita fjárfestum aðgang að launaumslögum almennings með öllum milliliðunum eins og við sjáum nú gerast í orkunni, þá segir það sig sjálft að slíkt vinnur í þágu stöðugleika á vinnumarkaði. En þannig gerðist það á eðlilegri hátt, ekki sem krafa á hendur almenningi um uppgjöf.

Sjá hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/i-vidtali-hja-agusti-valves-johannessyni

Barátta baráttunnar vegna!

Ef verkalýðsbaráttan á að lifa fram eftir öldinni þá þarf að næra hana og lyfta undir hana – lyfta undir baráttu baráttunnar vegna – heyrirðu það Þröstur? – annars eru samfélagsverkfræðingarnir fullkomlega gagnslausir. Og verra en það, til mikillar óþurftar.Það er mín skoðun að áður en hreyfingin tekur kúrsinn til framtíðar þurfi hún að endurskoða margt og láta vítin sem víða er að finna verða sér til varnaðar.

Á hinn bóginn má lika sjá dæmi um hverju barátta fólks getur skilað og hefur skilað. Það er nokkuð sem gefur okkur von; von um að betri tíð sé í vændum ef við aðeins viljum.
En við verðum að vilja! Við verðum að vilja berjast fyrir betri tíð.
Ekkert gerist af sjálfu sér.

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.