MÓTMÆLUM OFBELDINU Í PALESTÍNU
Birtist í Fréttablaðinu 07.07.06.
Það er ekki nóg með að vestræn ríki og þá einkum Bandaríkin og Evrópusambandið horfi aðgerðarlaus upp á skefjalaust ofbeldi ísraelska hernámsliðisins í Palestínu, þau eru beinir þátttakendur í ofbeldinu.
Um langt árabil hafa Ísraelar deilt og drottnað í Palestínu. Jafnan þegar palestínska þjóðin virðist hafa verið að ná sér á strik reyna Ísraelar að efna til sundrungar og er jafnan fundin til þess tylliástæða. Fyrst var það Yasser Arafat, sem átti að vera uppspretta alls ills og ómögulegt að semja við stjórn hans nema hann réði áður niðurlögum allra þeirra innan Palestínu sem ógnað gætu öryggi Ísraels. Þetta þýddi að Arafat hefði orðið að ganga milli bols og höfuðs á samtökum á borð við Hamas áður en hann yrði virtur viðlits af hálfu Ísraela. Vitað var að slíkt var Arafat og þáverandi yfirvöldum í Palestínu ógerlegt, enda ávísun á borgarastyrjöld og bræðravíg á meðal Palestínumanna.
Hóprefsing á saklausu fólki
Síðan gerist það í upphafi þessa árs að Hamas sigrar í lýðræðislegum þingkosningum í Palestínu þar sem kosningaþátttaka var 77%. Nú varð viðkvæðið af hálfu Ísraela að ómögulegt væri að hafa nokkur samskipti við Hamas því þau samtök viðurkenndu ekki Ísrael.
Ekki var látið við það eitt sitja að hafna samskiptum, hvað þá samstarfi. Ísraelska hernámsliðið í Palestínu hefur þann hátt á til að tryggja yfirráð sín þar að innheimta tolla og skatta. Þessu fé ber að skila til palestínskra yfirvalda. Nú hefur enn verið brugðið á það ráð að halda þessum peningum eftir og þrengja þannig að Palestínumönnum til að þrýsta á að þeir losi sig við hin illu stjórnvöld. Og viti menn, ekki leið á löngu þar til Palestína rambaði á barmi borgarastyrjaldar. Með hóprefsingum á íbúum herteknu svæðanna tókst Ísraelsstjórn að skapa slíkan glundroða að átök brutust út á milli fylkinga. Þennan ljóta leik studdi bæði Bandaríkjastjórn og Evrópusambandið beint og óbeint.
Og enn þótti ekki nóg að gert. Ísraelski herinn heldur uppi stöðugum árásum á herteknu svæðin, einkum á
Reynt að spilla friðnum
Nú er það vissulega rétt að Hamas-samtökin hafa ekki viljað viðurkenna Ísraelsríki. Að þessu leyti er líkt komið á með Hamas og stjórnvöldum í Ísrael því hin síðarnefndu hafa ekki viljað viðurkenna tilvist Palestínu, hvorki sjálfstæði landsins né sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar. En þótt Hamas hafi aldrei beinlínis viljað samþykkja hernámið 1948-49 og þá tveggja ríkja lausn sem Sameinuðu þjóðirnar hafa gert ráð fyrir, þá hafa samtökin á undanförnum misserum greinilega látið á sér skilja að þau myndu viðurkenna þennan veruleika og þar með þá stefnu sem Sameinuðu þjóðirnar byggja yfirlýsingar sínar á. Við þetta er að bæta að eftir síðustu þingkosningar í Palestínu var gerð skoðanakönnun á meðal fylgismanna Hamas og kom þá í ljós að þrír af hverjum fjórum vildu frið við Ísrael. Í stað þess að styrkja þennan friðarvilja í sessi lögðu Ísraelar með dyggri aðstoð Bandaríkjanna allt kapp á að sundra friðnum!
Núverandi stjórn í Ísrael ætlar Palestínumönnum innan við 10% af sundurtættri Palestínu. Þegar réttkjörin palestínsk stjórnvöld hafna þessu og hafna því að kynþáttamúrar séu reistir í landi þeirra, er viðkvæðið í vestrænum stjórnarráðum og flestum fjölmiðlum að nokkuð skorti á samningsvilja Palestínumanna!
Á okkur öllum hvílir skylda
Til sanns vegar má færa að í mannlegu tilliti skiptir ekki máli hver það er sem verður fyrir ofbeldi. Það hefur hins vegar táknræna þýðingu þegar það nú gerist að ráðherrar og þingmenn Palestínumanna eru numdir nauðugir á brott af ísraelska hernámsliðinu og haldið föngnum. Slíkt er táknrænn máti að svívirða lýðræðið. Skyldi vera nokkur von til þess að ríkisstjórn Íslands hafi sig upp af hnjánum og sýni þann manndóm að mótmæla þessum mannréttindabrotum í Palestínu, glæpsamlegri hóprefsingu á saklausu fólki? Þeir sem styðja ofbeldið eru samsekir. Spurning er hvort það eigi ekki einnig við um hina sem þegja. Okkur ber öllum siðferðileg skylda til að mótmæla mannréttindabrotunum í Palestínu.