Fara í efni

MÓTSAGNAKENNDUR MOGGI

Morgunblaðið stærir sig af því að greina á milli frétta annars vegar og ritstjórnarpistla hins vegar. Ég skal viðurkenna að stundum tekst blaðinu þetta bærilega. Það þýðir hins vegar að mótsagnirnar í Mogga verða oft tröllvaxnar. Það gerist þegar skoðanir blaðsins eru mjög á skjön við veruleikann. Fréttir af nýlegum fundi við sendiráð Bandaríkjanna í Reykjavík voru myndarlegar og réttar – meira aðsegja settar á forsíðu – reyndar eins og tilefni var til. Ég tók líka eftir því að Morgunblaðið gerði mjög vel grein fyrir bréfi þingflokks VG til forseta ísraelska þingsins nýlega, þar sem þið mótmæltuð stríðsglæpum Ísraela. Morgunblaðið skyldi vel að það var verulega fréttnæmt að íslenskur þingflokkur gripi til þessa ráðs.
Auðvitað mættu fréttir Morgunblaðisins af stríðsrekstri Ísraela vera gleggri en þar er blaðið á sama báti og flestir vestrænir fjölmiðlar, sem óneitanlega eru mjög hallir undir Ísraela.
Þegar kemur að skoðunum blaðsins í leiðurum og Staksteinaskrifum blasir við miklu einleitari mynd.  Skoðunum blaðsins verður varla lýst öðru vísi en sem ofstækisfullum. Allri skuld er skellt á Palestínumenn og Ísraelar hvítþvegnir.  Í Staksteinum í gær, miðvikudag, er þessi lína keyrð af offorsi. Þar segir m.a. um tildrögn að núverandi hamförum sem hafa leit til fjöldamorða og gífurlegrar eyðileggingar af hálfu ísraelska hersins: “Palestínumenn og skæruliðar í suðurhluta Líbanons ræna ísraelskum hermönnum og vita að Ísraelsmenn bregðast við af slíkri hörku að þeir verða fordæmdir en ekki hinir, sem komu þessari umferð átaka af stað. Af hverju þetta mannrán? Ef þetta er rétt hvað getur þá valdið því, að einhver öfl meðal Palestínumanna, skæruliðanna og bakhjarla þeirra í Sýrlandi og Íran sjái sér hag í að koma þessum ósköpum af stað?”
Þetta er semsagt svona einfalt. Ég tók eftir því Ögmundur í grein sem þú skrifaðir um daginn og má finna hér á síðunni, að 40% palestínskra karlmanna hefðu setið í ísraelsku fangelsi af pólitískum ástæðum. Ég vil líka taka undir með Sævari Sigurbjarnarsyni í bréfi til Morgunblasins í gær undir fyrirsögninni, Ein lítil spurning til íslenskra fréttamanna og nokkrar afleiddar. Í bréfi sínu segir Sævar: “Um miðjan júlí var það forgangs fréttaefni að segja frá árásum Ísraelsmanna á landið Líbanon og aðgerðum vestrænna þjóða við að bjarga þegnum sínum sem þar voru staddir.
Ég hef verið að bíða eftir að heyra einhvern ykkar leita svara við þessari spurningu: Hversu margir líbanskir fangar eru í haldi í Ísrael og samkvæmt hvaða þjóðarrétti er þeir geymdir þar? Eða var það ekki tilraun til þess að frelsa einhverja þeirra í skiptum fyrir Ísraelana sem teknir voru til fanga, sem hleypti þessari árásarhrinu í gang? Því spyr ég: Væri það ekki eðlileg þjónusta við okkur fréttaneytendur að reyna að bregða einhverja ljósi á tildrög þessa blóðbaðs? ...Þó ætla mætti af fréttum, að þarna séu náttúruhamfarir í gangi en ekki áföll af mannavöldum er ég ekki viss um að allir sætti sig við þá skýringu, né hina, að ,,hizbollahr" hljóti bara að vera vondir menn sem ekki eigi betra skilið, enda þótt ítrekað sé oft á dag að auðvitað hafi Ísraelsmenn rétt til að verja sig! Mætti kannski umorða þetta viðlag við fréttir dagsins og segja: Auðvitað verður aldrei friður þarna fyrr en Ísraelsmenn eru búnir að útrýma þeim sem þeir hafa flæmt af landi sínu ýmist með eða án samþykkis hins ,,siðmenntaða heims."? Til skýringar þeim sem yngri eru, skal tekið fram, að Sameinuðu þjóðirnar úthlutuðu gyðingum landi til ríkisstofnunar 1947, en þeir hafa síðan aukið mikið við yfirráðasvæði sitt í margs konar herhlaupum og hafa oft hunsað fyrirmæli SÞ um að skila nokkru aftur af þeim löndum eða að leyfa flóttamönnum að snúa heim. Með fyrir fram þökk fyrir væntanleg svör.”
Þetta segir Sævar. Því miður held ég að eitthvað muni standa á svörum af hálfu Morgunblaðsins við þessum eðlilegu spurningum Sævars Sigurbjarnarsonar.
Haffi