Fara í efni

MUN MORGUNBLAÐIÐ SJÁ LJÓSIÐ?

Hinn 4. október birtist athyglisverður leiðari í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni Forsetinn og fjölmiðlarnir.
Ekki ætla ég að fjalla sérstaklega um útleggingar Morgunblaðsins á orðum Ólafs Ragnars Grímssonar við þingsetningu, sem þó voru tilefni leiðarans, heldur um inntakið í afstöðu Morgunblaðsins. Morgunblaðinu þótti ÓRG fyrr á tíð hafa verið raunsærri á hættur sem samfélaginu stafaði af hringamyndun í heimi fjölmiðlanna en hann væri nú. Síðan segir Moggi:
" Hins vegar gleymir forsetinn að ræða það, sem auðvitað blasir við þegar fjölmiðlaumhverfið á Íslandi er skoðað. Sama fyrirtækjasamsteypan, sem jafnframt er umsvifamikil á mörgum öðrum mörkuðum, ræður yfir tveimur dagblöðum, netmiðli og fjölda sjónvarps- og útvarpsstöðva.
Þegar forseti Íslands segir að forræði valdsmanna á fréttum og umræðuefnum sé nánast horfið, er það rétt hvað stjórnmálamenn varðar. En hann nefnir ekki hina nýju valdsmenn í íslenzku samfélagi; menn sem hafa eða geta haft gífurleg áhrif og völd í krafti peninga og fyrirtækjaeignar. Það hefur komið skýrt í ljós á undanförnum vikum hvernig hægt er að beita fjölmiðlasamsteypu í þágu hagsmuna eigenda hennar.
Alþingi sjálft hefur að sumu leyti skapað hinar nýju aðstæður á fjölmiðlamarkaðnum; með því að samþykkja margvíslega löggjöf, sem dregur úr völdum og áhrifum stjórnmálamanna en færir fjármálamönnum meiri áhrif og völd. En ekki má gleyma því að Alþingi hefur líka sjálft síðasta orðið um það hvernig þessum málum er skipað. Þingið getur sett lög, sem setja valdi þeirra, sem eiga fyrirtæki og peninga, sambærilegar skorður og settar eru valdi stjórnmálamanna með stjórnarskrá og öðrum lögum."

Taumlaus kapítalismi

Eins og áður segir ætla ég ekki að víkja að hugleiðingum forsetans heldur fyrst og fremst Morgunblaðsins. Gæti verið að Morgunblaðið sé farið að sjá ljósið, afleiðingarnar af þeim taumlausa kapítalisma sem hér ríður nú húsum hvert sem litið er? Kannski er það vegna þess að nú brennur á eigin skinni. En leiðarinn er umhugsunarverður. Spyrja má hvort ekki megi yfirfæra það ástand sem leiðarahöfundur greinir í heimi fjölmiðlanna yfir á mennta- og heilbrigðiskerfið, næstu bitana sem "hinir nýju valdsmenn í íslenzku samfélagi" sem Morgunblaðið nefnir svo, vilja nú einkavæða og gleypa með húð og hári.

Við þekkjum  afstöðu Morgunblaðsins til einkavæðingar. Boðorðið er að markaðsvæða – síðan reisa markaðnum skorður. Þetta er sama formúla og vestanhafs. Hvergi í heiminum er ríkjandi eins ströng löggjöf gegn hringamyndun og í Bandaríkjunum. Þar ræður engu að síður fjármagnið lögum og lofum í samfélaginu. Hinir eiginlegu “valdsmenn” í bandarísku þjóðfélagi eru handhafar auðsins.

Hér á síðunni brýnir Helgi Guðmundsson stjórnarandstöðuna enn varðandi fjölmiðlana. Helgi var mjög gagnrýninn á stjórnarandstöðuna þegar fjölmiðlalögin voru til umfjöllunar á sínum tíma á Alþingi og taldi okkur stjórnarandstöðuþingmenn vera skammsýna. Hann spyr um afstöðu til lagasetningar á sviði fjölmiðlunar með hliðsjón af samþjöppun í þeim geira og vaxandi peningavaldi í samfélaginu: "Sér stjórnarandstaðan eitthvað athugavert við það hvernig komið er?", spyr Hágé.

Ég hef áður gert rækilega grein fyrir afstöðu minni til þessa. Ég vil fá að vita afdráttarlaust hvort standi til að starfrækja hér Ríkisútvarp eða markaðsvætt hlutafélag eins og mér skilst hinn nýi þulur á fréttastofu Sjónvarps hvetji til, við mikinn fögnuð í Valhöll. Ef þetta yrði ofan á, hvað þá? Gæti það gerst að gegn 365 Daga samsteypunni yrði mynduð ný samsteypa Símans, Morgunblaðsins og RÚV hf.? 

Alþingi getur sjálfu sér um kennt – segir Morgunblaðið

Ekki þætti mér þetta sérlega eftirsóknarvert. Jafnvel þótt samsteypurnar yrðu tvær, þá yrði það peningavaldið – hinir nýju valdsmenn – sem öllu réðu.  Á Íslandi hefur peningavaldið stóreflst á allra síðustu árum. Fjölmiðlasamsteypur eru bara ein grein af þessum mikla auðvaldsmeið, samþjöppuðu peningaveldi sem vill sölsa allt samfélagið undir sig, fjölmiðlana, fjármálastofnanir, rafmagnið og veitukerfið, heilbrigðis- og menntakerfið.

Það er til fær leið til að komast hjá hringamyndun. Og hún er þessi: Hætt verði að einkavæða. Grunnþjónustu í samfélaginu verði haldið í samfélagslegri eign og lúti lýðræðislegri stjórn.

Alþingi þarf að hugleiða vel og rækilega ábendingar Morgunblaðsins sem vitnað er til að framan: "Alþingi sjálft hefur að sumu leyti skapað hinar nýju aðstæður ... með því að samþykkja margvíslega löggjöf, sem dregur úr völdum og áhrifum stjórnmálamanna en færir fjármálamönnum meiri áhrif og völd.

Er ekki mál að linni?