Fara í efni

MYNDMÁLIÐ LÍFGAR UPP Á

Sæll Ögmundur.
Ég hef ekki getað annað en rekið augun í þessar myndasamsetningar hjá þér, þær lífga skemmtilega upp á tilveruna og þessa hefðbundnu stjórnmálaumræðu sem oft er frekar íþyngjandi á köflum. En svona fyrir mig sem leikmann er möguleiki að ég geti gert þetta með mína tölvukunnáttu og hvaða forrit eru notuð við þessar myndasmíðar?
Kær kveðja,
Stefán 

Sæll Stefán og þakka þér fyrir bréfið. Ekki er ég góður kennari eða leiðbeinandi í þessum fræðum enda fæ ég aðstoð við myndgerðina. Stundum kemur það sér vel að eiga góða vini. Allt á síðunni, einnig myndirnar, er hins vegar á mína ábyrgð. En forritið sem mest er notað er Photoshop. Ýmis önnur, td. Photostudio, munu líka vera notadrjúg og þægileg fyrir þá sem eru að þreifa fyrir sér í þessum efnum. En það er rétt hjá þér að myndskreyting af þessu tagi þykir lífga uppá - það hef ég margoft fengið að heyra - stundum geta myndir í bland við texta líka fangað augnablik betur en nokkur orð. Í því tilfelli sem mest hefur verið rætt að undanförnu - þar sem Guðlaugur þór  heilbrigðisráðherra og Sarkozy Frakklandsforseti lögðu saman - annar búkinn og hinn höfuðið - í  mynd með Gaddafi Líbíuforseta, hafði sá síðastnefndi í þann mund sem þetta var gert, lýst yfir vilja til að einkavæða samfélagsþjónustuna í sínu landi, nokkuð sem hér er á döfinni undir verkstjórn heilbrigðisráðherrans. Þeir sem hafa auga fyrir hinu skoplega tóku þessu vel.
Kv.
Ögmundur