MÝRARLJÓS MORGUNBLAÐSINS
Miðvikudaginn 19. maí rifjar leiðarahöfundur Morgunblaðsins upp gamlan misskilning sinn en því miður virðist það gert af ásetningi. Yfirskriftin er Villuljós í Verkamannaflokknum og fjallar um nýframkomna en oft endurtekna gagnrýni Blairs, fyrrum forsætisráðherra Breta og formanns Verkamannaflokksins, á vinstri arm flokksins og þá sérstaklega á Corbyn, um skeið leiðtoga hans: “Þingkosningarnar í desember 2019 sýndu glöggt hvað breskum almenningi þótti um Corbyn, en þá beið Verkamannaflokkurinn sitt stærsta afhroð frá árinu 1935.”
Hér er vísað til gengis í kosningum, ekki hvernig þingsæti raðast, og þar með afstöðu almennings. Tölur tala allt öðru máli:
Undir forystu þeirra Blairs, Browns, Milibands og Corbyns frá 2005 var gengi Verkamannaflokksins mest í tíð Corbyns í atkvæðum talið:
9,552,436 2005 Blair
8,609,527 2010 Brown
9,347,273 2015 Miliband
12,878,460 2017 Corbyn
10,269,076 2019 Corbyn
Þá segir leiðarahöfundur að Blair hafi verið borinn lítt sæmandi sökum og útilokaður frá umræðu í flokknum eins og gerist þar á bæ “örli á því að einhver sé með kusk á hvítflibbanum.” Á Blair líti sumir “sem “stríðsglæpamann”, fyrir að hafa ekki viljað unna morðóðum einræðisherra þess að eiga gereyðingarvopn.”
Það er rétt að Saddam Hussein var morðóður eins og reyndar ýmsir sem þykja vel stofuhæfir á Íslandi! En gereyðingarvopnum bjó hann hins vegar ekki yfir og ásakanir í garð Blairs voru ekki þessar heldur hitt að hafa, ásamt Bush Bandaríkjaforseta og samstarfsliði þeirra beggja, logið því að heimsbyggðinni að Írakar byggju yfir gereyðingarvopnum, sett landið í viðskiptabann sem leiddi af sér gríðarlegar hörmungar og mannfelli og síðan ráðist inn í landið, meðal annars með stuðningi Íslands, á grundvelli lyga þeirra félaga Blairs og Bush.
Síðan endurómar leiðarahöfundur Morgunblaðsins fyrra ranghermi um meint gyðingahatur í breska Verkamannaflokknum sem mér þykja ómakleg og villandi. Að öllu þessu vék ég að í pistli hér á síðunni eitt skiptið sem leiðari Morgunblaðsins var skrifaður í sama dúr og nú (sjá slóð að neðan).
Í breska Verkamannaflokknum hafa margir eflaust farið villur vegar eins og vill gerast í samfélögum stórum og smáum, þar með talið stjórnmálaflokkum. En fyrst og fremst er svo að sjá að það sé leiðarahöfundur Morgunblaðsins sem þennan miðvikudag fyrir tæpri viku hafi látið glepjast af villuljósi, hann greinilega úti í mýri og lýsingin eftir því.
https://www.ogmundur.is/is/greinar/afhrod-corbyns