NÁ VARNAÐARORÐ ÞINGMANNA FRAMSÓKNARFLOKKSINS TIL RÚV?
Engin fjölmiðlalög nema sátt verði milli flokkanna. Þetta er haft eftir þingmönnum Framsóknarflokksins í fjölmiðlum í dag. Þingmennirnir eru mjög samhljóma í yfirlýsingum sínum hvað þetta snertir. Magnús Stefánsson starfandi þingflokksformaður talar skýrt á forsíðu Fréttablaðsins: þetta frumvarp verður ekki að lögum nema pólitísk samstaða sé um málið. Sú þverpólitíska samstaða þarf að ná alveg í gegn. Málið verður ekki klárað öðruvísi í vor." Og Ísólfur Gylfi Pálmason tekur í sama streng: " Við þurfum að velta þessum hlutum fyrir okkur eins vel og mögulegt er og alls ekki ana að neinu."
Gott og vel. Ég er fyrir mitt leyti sammála því að um fjölmiðlalög þurfi að ríkja breið samstaða. En gildir hið sama ekki um Ríkisútvarpið? Þarf ekki að ríkja breið samstaða um þá stofnun og þann lagaramma sem henni er búinn? Öll þjóðin hefur sterkar tilfinningar til Ríkisútvarpsins og stendur engan veginn á sama hvað um hana verður. Ljóst er að með lagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er framtíð Ríkisútvarpsins stefnt í mikla tvísýnu og er hætt við því að sú sátt, sem ríkt hefur um þessa merku stofnun alla tíð, verði rofin nái frumvarpið fram að ganga. Það má ekki gerast. Ég heiti á þingmenn stjórnarmeirihlutans að taka varnaðarorð Ísólfs Gylfa Pálmasonar einnig til umhugsunar varðandi Ríkisútvarpið. Það á "alls ekki að ana að neinu."
Þingmenn stjórnarmeirihlutans væru menn að meiri ef þeir nú brytu odd af oflæti sínu og féllust á að leggja hið umdeilda frumvarp um RÚV hf á hilluna og freista þess að ná sátt um framtíð þeirrar merku stofnunar.