NÁIÐ SAMSTARF UM VAFASAMAN MÁLSTAÐ
Í byrjun vikunnar var haldinn aðalfundur Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins. Fundurinn var prýðilegur, flutt voru fróðleg og skemmtileg erindi og fram fór umræða um málefni sem tengjast Ríkisútvarpinu, þá ekki síst um framtíð þess. Enda tilefni til, því eins og kunnugt er hefur ríkisstjórnin eina ferðina enn ákveðið að reyna að keyra í gegnum Alþingi frumvarp um að gera RÚV að hlutafélagi. Þarna voru saman komnir hollvinir Ríkisútvarpsins. Á fundinum var enginn sem studdi frumvarp ríkisstjórnarinnar um hlutafélagavæðingu. Það segir sína sögu.
Allflestir sem ég heyri í – jafnvel eindregnir sjálfstæðismenn – eru þessum áformum andvígir. Þeir segja hins vegar að það sé ríkisstjórninni mikið metnaðar- og kappsmál að fá frumvarpið samþykkt. Framsókn er að venju eins og hundur í bandi íhaldsins, var á móti frumvarpinu en núna meðmælt einkavæðingu – eða þannig.
Um daginn birtust þau, menntamálaráðherrann og útvarpsstjórinn, á fréttamannafundi í samræmdu áróðursátaki með samning um að auka vægi íslenskunnar í dagskrá Sjónvarps. Þetta er prýðilegt en kemur hlutafélagavæðingu stofnunarinnar ekkert við. Það er hægur vandinn - ef vilji er á annað borð fyrir hendi - að gera svona samning á milli ríkis og ríkisstofnunar á sama hátt og Danmarks Radio hefur gert hliðstæðan samning við danska ríkið. Ekki er DR hlutafélag!
Þetta eru blekkingar af verstu sort. Illt er að forsvarsmenn Ríkisútvarpsins skuli taka þátt í þessum áróðursbrögðum frjálshyggjunnar í ríkisstjórn. En forsvarsmenn RÚV ganga lengra. Nýlega var vakin athygli á vafasömum vinnubrögðum af hálfu forsvarsmanna RÚV þegar þeir reyndu að bregða upp glansmynd af ágæti einkavæðingar með misvísandi frásögn og túlkun á skoðanakönnun, sjá HÉR.
Ég óttast að hið nána samstarf menntamálaráðherra og útvarpsstjóra í þessu ferli gefi þeim falska mynd: Á meðan þau tvö og já-fólkið í kringum þau eru himinlifandi og ölvuð af sjálfsefjun eru aðrir fullir efasemda eða beinlínis andvígir þessum ráðagerðum. Hinir síðarnefndu, þeir sem andvígir eru að gera RÚV að hlutafélagi, eru án efa miklu stærri hópur í þjóðfélaginu.
Nú er spurningin þessi: Á lítill meirihluti á Alþingi að ráða eða hinn stóri meirihluti úti í samfélaginu? Við erum nýlega búin að fara í gegnum Kárahnjúka-ferlið. Þar var hið sama uppi á teningnum. Vilja menn endurtaka þann leik? Væri ekki nær að láta Ríkisútvarpið í friði og efla þjóðarsáttina um þessa merku stofnun í stað þess að grafa undan henni og skapa óvissu um framtíð hennar?