Fara í efni

NAUÐSYNLEGT AÐ RÆÐA OPNUM HUGA

Sæll Ögmundur og þakka vangaveltur þínar um úrslit kosninga. Ég sé ekki betur en þú bregðist við ákalli stuðningsmanna félagshyggjuflokka um að leiðtogarnir fari yfir stöðu mála og leiti skýringa á afhroðinu. Það er mikilvægt að það sé gert með opnum huga en ekki einvörðungu til að viðhalda því hugmyndakerfi sem kom mönnum í ógöngur til að byrja með.
Ég vil þó bæta einu hráefni í uppskriftina sem ég tel vera uppistöðuna í þessu en þú virðist ekki sjá, e.t.v. vegna nálægðar þinnar við viðfangsefnið. Þar vísa ég til þess sem kalla mætti stjórnunarstíl í einkafyrirtækjum en í tilviki ríkisstjórna er sennilega nærtækara að tala um stjórnarhætti, eða viðhorfið til valds og hvernig valdhafar svara til ábyrgðar gagnvart borgurum.
Tvíeykið sem stýrði stjórnarsamstarfinu virtust ekki bæta hvort annað upp að því leyti að þau voru bæði elítistar með tilhneigingu til sjálfsupphafningar. Þau sáu hlutverk sitt í ljóma og vanræktu að stofna til samtals við sitt bakland. Þau vanræktu að miðla sýn sinni og hvert stefndi til almennings og sennilega til pólitískra samherja einnig.
Eftir því sem sagan segir var samráð viðhaft í þröngum hring og þaðan spýttust út tillögur sem fólki var sagt að væri því fyrir bestu. Trekk í trekk var svarað með þeim tóni að færustu sérfræðingar hefðu skoðað þetta. Almenningur yrði bara að trúa því að leiðtogarnir hefðu meiri upplýsingar og dýpri skilning. Hann ætti að vera þakklátir fyrir að leiðsagnar sem er rómuð um alla heimsbyggðina.
Efasemdarmönnum var bent á að fréttatilkynningar AGS og erlenda fjölmiðlaumfjöllun til staðfestingar. Fyrir þá örfáu sem ekki hrifust af því var beitt hótunum um að Ísland yrði fátækt og einangrað, n.k. Norður-Kórea Norður-Atlantshafsins. Niðurstaðan virðist sanna að fáir hrifust af hrifningarorðunum og enn færi af hótunum.
Þeir sem kusu þetta fólk síðast gerðu allt til að komast hjá að gera það aftur, m.a.s. kjósa Framsóknarflokkinn. Þetta er kannski of stórkarlaleg lýsing til að setja fram án þess að nefna dæmi um þennan samskiptastíl í samskiptum leiðtoganna og almennings. Icesave er það augljósasta. Sjóvá er líka ágætt dæmi. Þar var milljörðum varið til að endurreisa einkafyrirtæki á sama tíma og hvert stöðugildi hjúkrunarfræðings þótti bruðl.
Svarið var að við valkostamat sérfæðinga hefði komið í ljós að þó milljarðarnir væru margir kostaði meira að gera þetta ekki.
Almenningur fékk engan rökstuðning, enga tilfinningu fyrir að þetta væri hluti af stærra plani eða hluti af skynsamlegri hugsun. Átti bara að trúa. Ekki hugsa. Stóra spurningin er ekki hvað gerðist. Það er nokkuð ljóst. Spurningin er hvernig gat það viðgengist heilt kjörtímabil? Alveg upp að því marki að allt var glatað og engin leið tilbaka.
Var alsælutilfinningin við að halda um stjórnartaumana svo sterk að enginn horfði fram á veginn. Enginn horfði út um gluggann heldur. Þegar á leið hefur það orðið erfiðara og erfiðara að horfast í augu við raunveruleikann. Einangrun valdhafanna og þeirra útvöldu eykst enn meira. Gagnrýni verður enn alvarlegri og verður þögguð af meiri hörku. Þetta líkist byrgishugsunarhætti þar sem baráttan fer fram bakvið luktar dyr í þröngum hópi.
Allir viðstaddir eru sammála um göfugan tilgang baráttunnar, en þeir eru ekki í talsambandi við neinn fyrir utan. Í tilviki fráfarandi ríkisstjórnar er ljóst að báðir flokkar hristu af sér alla sem höfðu mótbárur og báðir gengu klofnir til kosninga.
Aðeins þrengsti mögulegi kjarni var drottinhollur eftir þrjú og hálft ár. Þá var of seint að gera nokkuð. Félagshyggjuöflin í landinu fengu einstakt tækifæri til að móta samfélagið og stjórnmálin, en fannst ásættanlegt að líta á það eins og flugeldasýningu þar sem við fáum einn skæran blossa.
Svo hverfur allt í reyk og almenningur fær ekkert út úr því nema prikið í hausinn og íhaldið í stjórn. Í grunninn vegna þess að við kunnum ekki að fara með valdið - hvorki til að beita því né heldur til að beita leiðtogana nauðsynlegu aðhaldi. Við féllum öll á þessu prófi.
H.P.