Fara í efni

NEFNDUM ÓSKAÐ VELFARNAÐAR

Hriflan
Hriflan

Loksins litu starfsnefndir ríkisstjórnarinnar um framkvæmd kosningaloforða stjórnarflokkanna dagsins ljós, annars vegar nefnd um afnám verðtryggingar og hins vegar um lækkun höfuðstóls lána. Þessar nefndir eiga ekki að velta vöngum yfir hvort heldur hvernig eigi að framkvæma kosningaloforðin.

Ógæfa okkar var að setja ekki bankana og fjármálakerfið - þar með talda lífeyrissjóðina , sem telja sig engar samfélagslegar skyldur hafa - undir neyðarlög í kjölfar hrunsins þar sem þeim hefði verið gert að taka þátt í almennri skuldaniðurfærslu. Staðreyndin er sú að verðtryggingin varð þess valdandi að lánveitendum var veitt vörn á kostnað lántakenda en eðilelgt hefði verið að þeir deildu með sér byrðunum af verðbólguskotinu sem fylgdi hruninu.

Þetta var ekki gert og taldi ég í lok árs 2010 fullreynt að fara þessa leið því fyrir henni hafði ekki reynst vilji af hálfu þeirra sem réðu för. Bankar og lífeyrissjóðir hótuðu málaferlum og innan stjórnmála - og stjórnkerfisins voru efasemdir og andstaða við þessa leið.

Í kosningunum sl. vor kvað Framsóknarflokkurinn rangt að leiðin væri ekki enn fær og lofaði að hún yrði farin ef flokkurinn fengi brautargengi í kosningunum og hann kæmist til valda. Inn á þetta gekkst Sjálfstæðisflokkurinn.

Nú er komið að efndum. Ég óska nýskipaðri nefnd velfarnaðar við framkvæmd þessa verkefnis. Sama gildir um nefndina sem á að kortleggja leiðina að afnámi verðtryggingar. Í hruninu voru allar efnahagsstærðir færðar niður, kaupmáttur launa, tekjur og þar með útgjaldageta ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja. Aðeins fjármagnið var tryggt en hefði að sjálfsögðu þurft að rýrna eins og aðrar stærðir.