NEISTAR OG RAUTT BORÐ
Þau sem vilja fylgjast með samfélagsumræðunni, innanalands og utan, í stereo ekki bara mono eins og það hét í gamla daga um einrása og tvírása plötuspilara, ættu að hefja rúntinn á Neistum, ljúka síðan yfirferðinni á Rauða borðinu á Samstöðinni á kvöldin klukkan átta.
Á vefmiðlinum neisti.is birtast nefnilega iðulega hinir bestu pistlar um innlend mál og erlend. Þórarinn Hjartarson, Jón Karl Stefánsson og fleiri eru með afbragðs innlegg í umræðuna og af allt öðrum toga en þeim sem matar okkur á áróðri heimsvaldastefnunnar. Sá áróður truflar mig sífellt meira eftir því sem árin líða og gæti þar komið tvennt til: Óþolinmæði að bíða eftir batnandi heimi og síðan gleggri skilningur á gangverki áróðursmennsku alþjóða auðvaldsins. Taldi ég mig þó þekkja þá áróðursvél allvel fyrir.
Við Rauða borðið á hinni nýju Samstöð, sem streymt er á netinu, voru í gærkvöldi hjá Gunnari Smára Egilssyni, Drífa Snædal, forseti ASÍ, Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar og Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur að ræða ástand og horfur.
Við þetta rauða umræðuborð hafa á undanförnum kvöldum komið fram sjónarmið sem allir hafa gott af að kynnast. Þarna mæta gjarnan málsvarar (lág)launafólks og öryrkja en í umræðunni við Rauða borðið þykir mér yfirleitt halla á auðvaldið. Ekki er það verra því hallinn í heiminum er á hinn veginn og fer versnandi.