Fara í efni

NETIÐ ER ENGIN ALLSHERJAR-LAUSN!

Eins og ég hef skilið orð Píratana í framboðsham þá er internetið lausnin, eða öllu heldur sá fólksfjöldi sem veitir stjórnvöldum aðhald með upplýsingar að vopni. Því meiri upplýsingar sem komast á netið þeim mun nær komumst við því samfélagi sem við viljum byggja. En nú var ég aðrenna yfir fréttir af eftirmála sprenginganna í Boston sem vakti mig til umhugsunar um hvort þetta væri alveg einhlítt.
Mér skilst af fjölmiðlaumræðu að netsamfélagið hafi tekið sig saman og rannsakað fyrirliggjandi myndir sem teknar voru af öllum þeim fjölda manna sem voru með myndavélar á vettvangi glæpsins. Aðferðin heitir víst „crowd-sourcing" og þykir fín til að nýta upplýsingar sem almenningur býr yfir, sama hvort um er að ræða sakamálarannsókn eða stjórnarskrármyndun. Netnotendur urðu virkir þátttakendur í rannsókninni og höfðu þá vísbendingu sem lögregla hafði birt að sprengjurnar hefðu verið í bakpoka. Raunin sýndi að við leitina var ekki bara leitað eftir bakpoka heldur einnig eftir öðru því sem netnotendum þótti grunsamlegt. Þar réði kynþáttur mestu. Svo voru umræður um þá sem lágu undir grun. Einn vakti grunsemd netspjallara fyrir þær sakir að á ljósmyndi mátti greina að hann reyndi að sýnast ekki grunsamlegur - annar sagði að hann virtist sú manngerð sem væri líkleg til að fremja slíkan glæp.
Lögreglan þarna úti kommenteraði á þetta og sagði að netsamfélag/-miðlar væri gagnlegt þegar fylgja ætti raunverulegri vísbendingu eftir. Þá gætu þær fréttir borist hratt og víða. En á fyrri stigum er hættan sú að fjöldi manna er bendlaður við alvarlegan glæp fyrir engar sakir. Það er eitthvað múgæsingarelement í þessu sem maður tengir ekki endilega við mannlegt og siðað samfélag. Þetta er svipað og að kommentakerfi DV ætti að ráða lögreglu og saksókn. Heimsyndin, eins og einhver skrifaði, er sú að framfarir felist í að í stað fjölmiðla fáum við Twitter og í stað lögreglu fáum við Anonymous. Ef ég skil píratana rétt þá er þetta lausnin. Þó ég notið netið er ég ekki viss um að þar sé að finna þá innviði sem geti leyst öll samfélagsmál.
Kjósandi í Reykjavík