Fara í efni

NEYÐARÓP FRÁ FRAMSÓKNARFLOKKNUM

Birtist í Morgunblaðinu 06.11.05.
Fimmtudaginn 3. nóvember skrifar Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni Neyðaróp frá RÚV. Ég fæ ekki betur séð en Hjálmar Árnason sé með þessari grein að undirbúa svik Framsóknarflokksins við eigin samþykktir um að Ríkisútvarpið verði ekki gert að hlutafélagi. Látum nú vera að Framsóknarflokkurinn svíki eigin fyrirheit. Það hefur því miður gerst áður – meira að segja alltof oft. Það er verra ef flokkurinn hyggst reyna að gera þetta á fölskum forsendum; að nú þurfi að hlutafélagavæða til að svara ákalli „starfsmanna og stuðningsmanna RÚV“ sem  krefjist „tafarlausra aðgerða.“

Framsókn hefur hindrað hlutafélagavæðingu RÚV

Hjálmar fikrar sig varlega að niðurstöðunni: Fyrir það fyrsta staðhæfir hann að allir flokkar séu sammála um að selja ekki Ríkisútvarpið. Ekki er ég viss um að landsfundir Sjálfstæðisflokksins skrifi upp á þetta. Þannig ályktaði landsfundur flokksins í mars árið 2003 um fyrstu skrefin í markaðsvæðingu RÚV: „Skylduáskrift að fjölmiðlum verði afnumin nú þegar. Íslenskir neytendur eiga sjálfir að ráða hvort og hvaða fjölmiðla þeir kaupa. Endurskoða skal hlutverk ríkisins á þessum markaði.“  Í tengslum við þennan sama landsfund Sjálfstæðisflokksins var eftirfarandi haft eftir  þáverandi menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins í fréttum Útvarps 23.03.03.:  Tómas Ingi Olrich, menntamálaráðherra segir Sjálfstæðisflokkinn vilja afnema skylduáskrift að Ríkisútvarpinu náist samkomulag um að breyta rekstrarfyrirkomulagi stofnunarinnar. Flokkurinn vilji gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi en Framsóknarflokkurinn hafi hindrað það.“ Þess má einnig geta að 37. þing SUS ályktaði eftirfarandi : „SUS telur mikilvægt að hafist verði handa við að undirbúa einkavæðingu á Íslandspósti, Landsvirkjun, Rafmagnsveitu Ríkisins, orkuveitum sveitarfélaga, Ríkisútvarpinu og að Rás 2 verði seld þegar í stað.“  Einnig ber að hafa í huga að nokkrir sjálfstæðismenn hafa lagt fram lagafrumvörp á liðnum misserum um einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Þannig fer því  fjarri að sátt sé um það að RÚV verði í almannaeign. Við erum mörg sem ekki viljum undir neinum kringumstæðum teppaleggja fyrir einkavæðingarsinnana með því að gera RÚV að hlutafélagi. Þegar ég segi við, þá veit ég að margir kjósendur Framsóknarflokksins taka það til sín, enda samþykktir flokksins í þessa veru.
En hvað með það sem Hjálmar kallar „ákall starfsmanna og stuðningsmanna RÚV“ um tafarlausar aðgerðir? Hagsmunasamtök starfsmanna í Ríkisútvarpinu, sem leitað hafa til heildasamtakanna BSRB og BHM í þessu efni hafa mjög eindregið varað við hlutafélagavæðingu. Þegar Hjálmar vísar í stuðningsmenn RÚV er væntanlega átt við Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins. Í fyrstu grein samþykkta þeirra samtaka segir að barist skuli gegn því að Ríkisútvarpið verði gert að hlutafélagi.

Hægt að breyta án hlutafélagavæðingar

Þetta lætur þingflokksformaður Framsóknar ekki á sig fá en segir að menn hafi „eðlilega bent á að hvort RÚV verði sameignarfélag, sjálfseignarstofnun eða hlutafélag þá breyti það í sjálfu sér litlu hvað varðar stofnunina sem almenningseign ef fyrir liggur pólitískur vilji um að halda RÚV í eigu ríkisins.“  Hvaða menn hafa bent á þetta? Ekki hagsmunasamtök starfsmanna, ekki Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins og ekki Framsóknarflokkurinn þar til nú að þingflokksformaðurinn rekur upp þetta neyðaróp sitt. Væri ekki betra og heiðarlegra að koma hreint fram Hjálmar og viðurkenna að til standi að svíkja gefin fyrirheit eina ferðina enn?
Á stjórnkerfi Ríkisútvarpsins þarf að gera ýmsar breytingar til úrbóta. Fram hafa komið sannfærandi tillögur í því efni án þess að orðið verði við kröfu markaðssinna um að færa Ríkisútvarpið upp á færiband til einkavæðingar. Væri ekki rétt að skoða þær?