NEYTENDUR, NOTENDUR OG NEITENDUR
Biritst í helgarblaði Morgunblaðsins 04/05.03.23.
Öll viljum við láta gera vel við okkur sem neytendur. Og þegar gengið er á hlut neytandans þykir eðlilegt að lög og reglur séu endurskoðuð til að fyrirbyggja að hann sé hlunnfarinn og svo eru náttúrlega neytendasamtök honum til varnar. Allt er þetta gott og blessað og við öll um það sammála að almennt beri að virða rétt neytenda.
En svo er það hin hliðin. Hún er oftast líka til og hér snýr hún að veitandanum. Hvar liggur réttur þeirra sem veita neytandanum þjónustu, selja honum vöru eða sjá honum fyrir tilteknum gæðum? Varla getur réttur neytandans verið einhliða réttur?
Og nú gerist málið flóknara því að í markaðsþjóðfélagi er veitandinn sjaldnast einn síns liðs. Þegar til dæmis er gist á hóteli þá eru þar þau sem matbúa og þrífa vistarverurnar og annast ýmis viðvik fyrir hótelgestina og einhvers staðar eru eigendur og stjórnendur hótelsins þarna líka. Fjárhagslegur ávinningur af rekstrinum skiptist síðan milli allra þessara aðila. Í þeim skiptum hafa eigendur tögl og hagldir. Launafólkið er í veikari stöðu og því veikari sem það er lægra sett, nema það geti nýtt mátt sinn í sameiningu, samtakamáttinn. Hann er þess vegna eitur í beinum þeirra sem ráða.
Ástæðan fyrir verkföllum Eflingar er augljós. Fólkið sem vinnur lægst launuðu störfin, hvort sem er á hótelum eða í öðrum rekstri, telur á sér brotið kjaralega. Og það sem meira er, í ljósi þess sem aðrir raka til sín, sé um misnotkun að ræða.
Ögn nánar um þetta. Varla opnar maður á spjallþátt í útvarpi eða sjónvarpi að þar séu ekki samankomnir ákafir talsmenn þess að byggja fleiri hótel fyrir enn fleiri og aftur fleiri gesti og sem allra fyrst þurfi fyrir vikið enn fleira fólk til landsins að skúra, þrífa og þjónusta. Og svo gefi auga leið að fyrir allt þetta þjónustufólk þurfi í einum grænum hvelli nokkur þúsund íbúðir, að sjálfsögðu eins ódýrar og mögulegt sé í samræmi við þau kjör sem fólkinu séu ætluð. Varla eigi ófaglært aðkomufólk að taka ávinninginn af “ferðamannalandinu” til sín; það hafi aldrei staðið til.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur sagt í viðtölum að það hljóti að hafa sínar afleiðingar þegar safnað sé til landsins öreiga fólki víðs vegar að til þess að hægt sé að arðræna það hér. Þessa misnotkun á fólki verði að stöðva. Þarna er með öðrum orðum neitandinn kominn til sögunnar. Því fleiri slíkir þeim mun betra, leyfi ég mér að segja.
Um þetta snýst þá slagurinn. Efling segir gráðuga fjárfesta, sem hér séu allt að gleypa, vilja hafa svigrúm til þess að nota fátækt aðkomufólk sjálfum sér til ávinnings. Þeir eigi svo aftur hauka í horni í stjórnkerfi landsins og stofnanaveldinu.
Mikið rétt. Þar hefur þetta heyrst orðað þannig að ekki megi laska “orðspor Íslands” með frekari verkföllum. Þess vegna þurfi að endurskoða vinnulöggjöfina hið bráðasta.
Ég læt hugann reika til ársins 1996. Þá var einnig sagt að vinnulöggjöfin væri orðin úrelt og þyrfti bráðrar endurskoðunar við. Eftirfarandi var að finna í ályktun framkvæmdastjórnar samtaka atvinnurekenda skömmu áður en endurskoðað frumvarp um stéttarfélög og vinnudeilur var kynnt á Alþingi: ,,Loks kann að vera tímabært að kveða skýrt á um rétt starfsmanna einstakra fyrirtækja og stjórnenda þeirra til að semja sjálfir um kaup og kjör án milligöngu samtaka atvinnurekenda og launþega. Einkaréttur stéttarfélaga til gerðar kjarasamninga verði þannig takmarkaður.“
Ekki gekk frumvarp þáverandi ríkisstjórnar þó eins langt og atvinnurekendur helst hefðu viljað. En fyrst ekki tókst að koma verkalýðshreyfingunni fyrir kattarnef í þessari atrennu skyldi valinn næstbesti kosturinn, nefnilega að freista þess að miðstýra kjarasamningum með aðkomu “aðila vinnumarkaðar” en þannig að engin þau frávik yrðu leyfð sem sprengdu þann ramma sem gróðaöflin í þjóðfélaginu gætu sætt sig við.
Svo leið og beið. Til urðu fyrirtæki sem vildu engin verkalýðsfélög og hafa sum hver komist upp með það. Samhliða því hefur misrétti á vinnumarkaði og í þjóðfélaginu almennt aukist og sér ekki fyrir endann á. Þar eru stjórnvöld ekki saklaus. Í vetur voru til dæmis samþykkt lög á Aþingi sem munu hafa réttindi af leigubílstjórum og nú heyrast þær raddir í ríkisstjórn og á þingi, að koma verði í veg fyrir að það endurtaki sig að fólk sem varla getur framfleytt sér af vinnu sinni, beiti verkföllum til að brjóta upp þann ramma sem “aðilar” ætla þeim að halda sig innan.
Ekki veit ég hverju barátta láglaunafólks kemur til með að skila að þessu sinni í launaumslagið. En árangurinn er þegar augljós; nefnilega sá að þegar fólk virkjar samtakamáttinn þá tekur sjálfsvirðingin flugið.
Hún er hættuleg öllum þeim sem nota fólk sjálfum sér til framdráttar.
Það eru þeir sem skaða orðspor Íslands. Hvernig væri að löggjafinn hætti að þjóna þeim?