NORÐMENN SÓTTIR HEIM
Ég er staddur í Oslo að sækja ráðstefnu sem tengist fræðimanninum og aktívistanum Asbjörn Wahl. Segi nánar frá henni síðar. En í Osló hef ég þegar heimsótt tvo norska höfðingja í dag:
Björgulf Froyn, verkalýðsmann, beintengdur ofan í rótina, trúnaðarmaður strætisvagnastjóra, frmakvæmdastjóri NFS, samtaka norrænu verkalýðshreyfingarinnar um nokkurra ára skeið, þingmaður Sosíaldemókrata, foringi þeirra á Oslósvæðinu og mikill vinur minn. Stórklár maður!
Síðan átti ég hádegisfund með Kaare Willoch og Ingjerd Schou. Ingjerd er þingmaður Höyre, og ein af fulltrúum norska þingsins á Evrópuráðsþinginu þar sem ég kynntist henni. Hún kom á þessum fundi með Kaare Willoch að minni beiðni.
Hvers vegna? Ástæðan er margþætt. Í fyrsta lagi er Kaare Willoch sá stjórnmálamaður norrænn sem mér þótti mest um þegar ég var fréttaritari Ríkisútvarpsins (Sjónvarps) á á Norðurlöndum á árunum 1986-8. Ekki svo að skilja að ég væri honum sammála í pólitík, alls ekki, heldur vegna þess hve vinsamlegur og þægilegur hann var í samskiptum. Það er nokkuð sem ég mat mikils og gleymi ekki. Auk þess tel ég Kaare Willoch mann sem verðskuldar að vera kallaður "statesman".
Síðan er hitt. Eftir að Kaare hætti á þingi hélt hann áfram sínu pólitíska ströggli og gerðist nú talsmaður náttúrunnar og tók auk þess upp á sína arma mannréttindamál sem honum þótti verðug. Nefni ég þar málefni Palestínumanna. Þar hefur hann verið ötull og virðingarverður baráttumsaður fyrir mannréttindum.
Ég átti góða fundi og skemmtilega með þeim Kaare Willoch og síðar um daginn með Björgulf Fröyn. Svona getur lífði verið skemmtilegt.