Fara í efni

NORRÆN ÞÖGN SAMA OG NORRÆNT SAMÞYKKI


Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hefur svarað nokkrum Íslendingum sem nýlega sendu honum fyrirspurn um aðkomu sjóðsins að málefnum Íslands.
Í bréfi sínu segir Strauss-Kahn sitthvað sem hlýtur að vekja furðu. Hann segir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi aldrei haft skoðanir á því hvort einkavæða ætti bankakerfið á Íslandi (þetta er rangt því það er beinlínis tekið fram í skilmálum sem Íslendingar voru látnir undirgangast að það beri að gera!) og ekki tekið afstöðu til Icesave deilunnar (líka rangt)!

Norðurlöndin gegn Íslandi

Norðurlönd hafi hins vegar reist kröfur á hendur Íslendingum um samþykki við Icesave, segir Strauss Kahn og það hafi verið afstaða þeirra sem valdið hafi töfum á afgreiðslu AGS á áætlun fyrir Ísland.
Strauss-Kahn talar einsog aðrir, um "aðstoð" við Ísland þegar í reynd er um það að ræða að "hjálp" sjóðsins er í því fólgin að hætta að bregða fyrir okkur fæti; hætta að skipa þjóðum heims að loka fyrir lánalínur til Íslands þar til við höfum staðið við "skuldbindingar" okkar gagnvart Bretum og Hollendingum.
Það er vissulega engin nýlunda á þessari síðu að fjallað sé um þátttöku Norðurlandanna í aðförinni að Íslandi. En nú er það sjálfur framkvæmdastjóri AGS sem skellir skuldinni á þau í bréfi sem gert hefur verið opinbert. Skyldu ríkisstjórninr Norðurlandanna láta þessu ósvarað? Þögn þeirra hljótum við að túlka sem samþykki.

Blóðið hætt að renna í Íslendingum?

Getur það verið að þetta komi ekki til með að hafa nein áhrif á samskipti okkar við "frændþjóðirnar" á Norðurlöndum?
Geðleysi? Það þykir mér. Ég neita því ekki að eitthvað hafa kólnað mínar tilfinningar og hrifning á norrænu samstarfi. Það eru aðeins Færeyingar sem vaxið hafa í áliti.
En óheilindin hljóta að verða okkur til umhugsunar: Af hálfu Norðurlandanna. Af hálfu Evrópusambandsins. Af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Að ógleymdum óheilindum ríkisstjórna Bretlands og Hollands.

Bréf Strauss-Khans:

https://postur.bsrb.is/exchweb/bin/redir.asp?URL=http://www.imf.org/external/np/vc/2009/111209.htm