NORSKUR KRATI BUGTAR SIG Í WASHINGTON
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 09/10.09.24.
Í byrjun árs, nánar tiltekið hinn 31. janúar, fengu þau hjá Heritage Foundation í Washington mikinn aufúsugest í heimsókn. Þetta var Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATÓ.
Til upplýsingar skal þess getið að Heritage Foundation er hægri sinnuð hugmyndaveita sem stofnuð var fyrir hálfri öld, árið 1973, að sögn til að standa vörð um bandarísk gildi, frelsi og lýðræði og efla BNA í hvívetna heima og heiman. Og trú hugsjónum sínum vilja þau hjá Heritage halda útgjöldum hins opinbera í skefjum, nema þá til hermála, þar megi gjarnan gefa í.
Og það var einmitt þarna sem Stoltenberg sló í gegn. Áður en hann fór í erindi sínu í saumana á fjárstreymi til vopnaframleiðslu þræddi hann allar heimsálfur, ræddi stríð og frið, ógnir og tækifæri, hvar þyrfti að verjast og hvar mætti sækja fram. Í þessari yfirferð vísaði framkvæmdastjóri NATÓ í átök og hættusvæði og tilnefndi ógnvalda og allt hið illa sem hinn frjálsi friðelskandi heimur stæði frammi fyrir. Einhverra hluta vegna var Gaza svæðið ekki að finna í þessari yfirferð né var minnst á hernaðarofsóknir á hendur Kúrdum í landamærahéruðum Tyrklands og barátta gegn ásælnum nýlenduöflum í Afríku var aldrei nefnd. En hvað um það, meginþemað hjá framkvæmdastjóranum var sem áður segir vopnavæðing NATÓ-ríkja.
Gefum Jens Stoltenberg orðið í ávarpi sínu til Heritage hugveitunnar:
”Árum saman hafa Bandaríkin gagnrýnt bandalagsþjóðir sínar í NATÓ fyrir að verja ekki nægu fé til varnarmála. Það er réttmæt gagnrýni. Og fyrir þetta vil ég hrósa leiðtogum Bandaríkjanna. En nú hefur orðið breyting á. Öll bandalagsríkin hafa aukið útgjöld til varnarmála. Aukningin nemur 450 milljörðum Bandaríkjadala.
Samherjarnir í NATÓ hafa skuldbundið sig til að verja að minnsta kosti 2% af landsframleiðslu til varnarmála og margir þeirra eru þegar komnir yfir þetta hlutfall. Til dæmis ætla Pólverjar að verja meira en 4% þjóðarframleiðslunnar til varnarmála í ár, meira en nokkur önnur NATÓ þjóð.
Því meiri peningar, þeim mun öflugri verður hergagnaiðnaðurinn. NATÓ skapar þannig markað fyrir hergagnaiðnaðinn.
Ef litið er til tveggja undangenginna ára þá hafa NATÓ ríki samþykkt að kaupa hergögn fyrir 120 milljarða Bandaríkjadala frá bandarískum framleiðendum. Þar með eru taldar þúsundir flugskeyta til Bretlands, Finnlands og Litháen, mörg hundruð Abrams skriðdrekar til Póllands og Rúmeníu og mörg hundruð F-35 orrustuþotur til hinna ýmsu NATÓ ríkja í Evrópu – samanlagt 600 talsins fyrir árið 2030.
Frá Arizona til Virginíu, frá Florida til Washington ríkis eru bandarísk störf háð sölu inn á evrópskan og kanadískan varnarmálamarkað. Það sem þið framleiðið færir fólki öryggi. Og það sem bandamenn ykkar kaupa styrkir bandaríska viðskiptahagsmuni. Svo að NATÓ er gulls ígildi fyrir Bandaríkin.”
Orðalagið er gamalkunnugt, hernaðarútgjöld heita varnarútgjöld og hermálaráðuneytið Pentagon heitir að sjálfsögðu Varnarmálaráðuneytið eins og það hét í Víetnamstríðinu, í innrásunum í Írak, Afganistan og Líbíu. Bandaríkin eiga með öðrum orðum í stöðugri varnarbaráttu.
Það sem er umhugsunarvert er að hér er vitnað í orð fyrrum formanns norskra jafnaðarmanna og forsætisráðherra Noregs. Stuðningur norrænna krata við NATÓ er ekki nýr af nálinni en nýtilkominn er jafn afdráttarlaus stuðningur við hergagnaiðnaðinn og þarna birtist; þann sama hergagnaiðnað og Eisenhower, þáverandi forseti Bandaríkjanna, varaði við um miðja síðustu öld, sagði að mætti aldrei verða leiðandi afl, því að réðu hagsmunir hans ferðinni yrði stöðugur ófriður.
Það hafa reynst orð að sönnu.
----
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.