Fara í efni

NÚ Á AÐ MAKA KRÓKINN FEITT!

Það er fagnaðarefni að utandagskrárumræðan á þinginu á fimmtudag skuli snúast um útvistun í heilbrigðisgeiranum og málefni LSH. Málið er grafalvarlegt og ótrúlegt að öll umræðan skuli endalaust snúast um það að spara þurfi í launakostnaði. Það vekur furðu mína að aldrei eru nefndar tölur í þessu sambandi. Hver er raunverulegur sparnaður þegar upp er staðið? Hvaða þættir eru tíndir til í þetta módel? Er ekki eitthvað að gleymast? Hver trúir því að verktakar úti í bæ geti ritað sjúkraskrár og skilað inn í tiltækt sjúkraskrárkerfi fyrir minni pening en stofnunin sjálf? Ætlar LSH að leggja ,,ritarafyrirtæki" til Sögukerfið og þjónusta það? Eða ætlar umrætt fyrirtæki að leggja út í margra milljóna fjárfestingu, sem kaup á kerfinu felur í sér? Eða verður bara notast við gamla góða word og gamla góða pappírsskráin tekin upp á ný? Það vantar eitthvað í söguna! Hvað segir svo Persónuvernd um málið er þetta löglegt? Tel brýnt að öll spil verði lögð á borðið. Við getum alveg útilokað að nokkur taki verkið að sér af góðmennskunni einni saman, það bara gerist ekki. Það er ljóst, meðan spilin er ekki lögð fram, að nú á að mata krókinn og það feitt. Hvet landsmenn til að vera vakandi og standa vörð um sameiginlega hagsmuni okkar allra. Fylgjumst með umræðunni á fimmtudag. Málið varðar okkur öll.
Rúna R. Hilmarsdóttir