Fara í efni

NÚ ER LAG!

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 30.11.14.
Þegar vísitala launa var tekin af með lögum í júní 1983 hófst mikil umræða í þjóðfélaginu um hvort réttmætt væri að halda verðtryggingu á lánum. Ekki að undra því verðbólga á þessum tíma fór yfir 100% á meðan launin stóðu í stað. Ef þau hefðu áfram fylgt verðbólgunni hefði lántakandinn lítið sagt. Þá hefði sparifjáreigandinn verið einn um að emja því innistæðan hans hefði í einu vetfangi að engu orðið. Þetta var samhengi umræðunnar á þessum tíma.
Auðvitað sáu flestir ranglætið sem þarna varð og var kallað misgengi lána og launa.

Tveir menn eru mér sérstaklega eftirminnilegir úr þessari umræðu, Jóhannes Nordal, þáverandi seðlabankastjóri annars vegar, og hins vegar stofnandi Kaupþings, Pétur H. Blöndal. Báðir vörðu vísitölubindingu lána en með ströngum fyrirvörum: Vextir yrðu að vera lágir. Ef ég man rétt töluðu þeir um 2%. Lánveitendur skeyttu því engu og keyrðu upp vexti ofan á verðtrygginguna.
 
Samtök lántakenda tóku undir með þeim sem töluðu fyrir lágum nafnvöxtum og gagnrýndu harðlega háan fjármagnskostnað, og líkt og Hagsmunasamtök heimilanna í kjölfar hruns krafðist Sigtúnshópurinn endurgreiðslu á hluta misgengisins. Hópurinn krafðist þess sem nú er réttilega kallað "leiðrétting" lána.
Ekki krafðist Sigtúnshópurinn afnáms vísitölubindingar lána, einfaldlega vegna þess að við útreikninga kom í ljós að vísitölubundin lán báru lægri raunvexti en óvísitölubundin lán. Þar fyrir utan voru afborganir af vísitölubundnum lánum auðveldari fyrir tekjulágt fólk í upphafi lánstímans því hluti fjármagnskostnaðarins færðist aftur í tímann. Lánið varð tekjulágu fólki þess vegna auðveldara viðfangs en um leið dýrara þegar upp var staðið því vextir lögðust ofan á fjármagnskostnað sem frestað var að greiða af. Fólk fékk með öðrum orðum að finna að það getur verið dýrt að vera fátækur!

Svo leið tíminn. Á Íslandi varð hrun. Flestar þjóðir komast í gegnum hrun með því að færa niður allar efnahagsstæðir, Það gerðist líka hér á landi. Ríkissjóður, sveitarfélög, launafólk og fyrirtæki fengu að finna fyrir hruninu. En hjá okkur stóð ein stærð óhögguð, vísitölubundið fjármagn. Vísitalan ver nefnilega peninga lánveitenda til síðasta blóðdropa.

Við hrunið kom fram réttmæt krafa Hagsmunasamtaka heimilanna um að lánveitendur og lántakendur deildu með sér gríðarlegu verðbólguskoti og þar með misgengi lána og launa sem þá varð. Fjármálakerfið brást við með óbilgirni og hortugheitum sem fyrr.

Þess vegna fagna nú margir niðurstöðu Efta dómstólsins. Þar segir að verðtryggingin sé lögleg, en að upplýsingagjöf til þeirra sem tóku vísitölubundin lán hafi ekki verið sem skyldi. Hvað þetta þýðir veit hins vegar enginn!

Í mínum huga eru forsendur uppplýsingagjafarinnar ekki hið ámælisverða heldur sjálf vísitölubindingin. Hún er lántakendum dýr og hrunsamfélagi varasöm. Nú er verðbólga lág og lag að koma verðtryggingu út úr heiminum með lögum.

Vísitala lána er ógagnsæ. Breytilegir vextir eru sýnilegir og um þá má deila. Það á síður við um það sem er vélrænt.

Vísitölubundið fjármálakerfið er byrjað að fitna sem minnir á fyrri tíð. Það er vísbending um ranglæti.