Fara í efni

NÚ ER ÞAÐ FJAÐRÁRGLJÚFUR

Áfram er haldið að markaðsvæða náttúruperlur Íslands. Nýir eigendur Kersins í Grímsnesi hafa fest kaup á hinu friðlýsta Fjaðrárgljúfri skammt frá Kirkjubæjarklaustri. Fyrir tveimur árum, í júní árið 2022, lét ríkið undir höfuð leggjast að kaupa gljúfrið eins og eðlilegt hefði verið og gera ætti með allar friðlýstar náttúruperlur.

Þá hafði nokkrum tugum milljóna verið varið til að bæta aðstöðu þar, gera stíga, útsýnispall og salerni. Þetta fé kom úr almannasjóðum eins og eðlilegt var en nú er meiningin að fjármagna framhaldið með aðgangseyri/bílastæðagjöldum.

Svo er spurningin með hagnaðinn, hvert fer hann? Samkvæmt lögum á hann ekki að fara út af svæðinu. Slíkt er allt brotið enda tíðkast orðið lögbrotin í skjóli ríkisstjórnarinnar.

Svona heldur þessi raunasaga áfram. Stig af stigi er Ísland selt og náttúruauðlindirnar gerðar að féþúfu fjárfesta. Alltaf er viðkvæðið það sama, auðvelda eigi aðgengi að náttúrudjásnum Íslands! Varla blönkum landsmönnum sem fyrir fáeinum árum fengu að kíkja ókeypis niður í Kerið svo dæmi sé tekið en þurfa nú að borga fyrir. Efnafólkið mun að sjálfsögðu getað skoðað eins og það lystir. Til sanns vegar má færa að það setji engan mann á hausinn að borga fyrir að skoða Kerið eða þess vegna Fjaðrárgljúfur. En þegar posavélarnar verða komnar á loft við alla áfangastaði vandast málið. Það gefur auga leið fyrir utan það hvað þetta er óendanlega hvimleitt. Þannig er bílastæðaiðnaðurinn þegar orðinn ærið íþyngjandi.

Mikið hefði verið gott að hafa hér ríkisstjórn sem hefði staðið sína vakt gagnvart ágengum peningaöflum og þá fyrir hönd okkar sem köllumst almenningur þessa lands. Þvert á móti þjónar ríkisstjórnin þessum öflum. Þetta kom til umræðu á Bylgjunni í dag: https://www.visir.is/k/510a8c79-6897-4277-a2d7-3abb5902b5b0-1728580328844/natturuperlur-landsins-a-aldrei-ad-markadsvaeda

https://vb.is/frettir/arctic-adventures-kaupir-fjadrargljufur/

Nýlega var það vatnið:

https://www.ogmundur.is/is/greinar/stodvum-audlindaranid-enn-er-thad-vatnid

-----------------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.