Fara í efni

NÚ ÞARF MARGT SKOÐUNAR VIÐ

Komdu sæll Ögmundur.
Ég sé að þú ert þeirrar skoðunar að fara þurfi alvarlega yfir þær staðreyndarvillur sem forsetinn benti á, sem fram komu í skýrslunni um forsetaembættið. Ég kann mjög vel við tilburði þína að verja þá sem liggja undir höggi, en forsetinn sér um sig. Mér finnst óþarfi að þú verjir hann. Hann hefur sýnt það að hann þarf enga skjaldborg. Embættisfærslur hans í hruninu eru óþolandi og þar fórst þú fremstur í flokki og gagnrýndir. Þegar það var ekki vinsælt. Haltu þér við það. Djúp lýðræðisannfæring Ólafs Ragnars var ekki ástæða fyrir höfnun Icesave samnings. Hann var að bjarga eigin skinni. Hann gerði það reyndar vel, en það breytir því ekki að embættisfærslur hans sem forseta þurfa raunverulegrar skoðunar við. Nú hefur Þorgerður Katrín sagt af sér embætti vegna starfa eiginmanns síns. Það er gott og rétt að hún víki. Þó hefði verið réttast að hún segði af sér vegna veru sinnar í hrunstjórninni. Og sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins á þessum tíma. En hún segir af sér vegna starfa eiginmanns. Hvernig er það, er ekki eiginmaður Álfheiðar Ingadóttur, Sigurmar K.Albertsson að verja Lýsingu? Gegn fólkinu í landinu? Hvernig maka þau hjónin krókinn á hruninu? Þarf þetta ekki skoðunar við? bestu kveðjur ,
Óháður kjósandi