Fara í efni

NÚ VERÐUM VIÐ AÐ HLUSTA


Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum og þá einnig hér á þessari heimasíðu, flutti Allyson Pollock, prófessor við háskólann í Edinborg í Skotlandi, afar lærdómsríka fyrirlestra í Íslandsheimsókn sinni undir síðustu mánaðamót. Umhugsunarverðast við fyrirlestra þessarar bresku fræðikonu er tengingin við það sem er að gerast hér á landi. Áform Guðlaugs Þórs, heilbrigðisráðherra og samherja hans (atburðaráðsinni er ekki bara stýrt úr heilbrigðisráðuneytinu) rímar nákvæmlega við það sem Bretar framkvæmdu, fyrst undir verkstjórn Íhaldsflokksins og síðar Nýja Verkamannaflokksins ( sem reyndist jafnvel harðdrægari í einkavæðingu en sjálft Íhaldið).  Þess vegna segi ég: Hlustum á frásagnir af reynslu annarra áður en við samþykkjum stefnu sem flest bendir til að sé óhagkvæm og beinlínis til ills.
Hér er slóð á frásögn af fyrirlestri Allyson Pollocks í Speglinum og útskrift af frásögninni ( því að stuttum tíma liðnum fellur nettengingin út, nokkuð sem RÚV ohf. ætti ekki að láta gerast):

http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4387957/1

RÁS EITT - SPEGILLINN
28. maí 2008. Umsjónarmaður: Friðrik Páll Jónsson

Gunnar Gunnarsson (GG) ræðir við Allyson Pollock (AP), prófessor við Edinborgarháskóla

Gunnar Gunnarsson:
„Fjölbreytt rekstrarform heilbrigðisþjónustu", það var yfirskrift ráðstefnu sem Háskólinn á Bifröst gekkst fyrir í dag. Einkarekstur eða markaðsvæðing heilbrigðiskerfisins, það eru hugtök eða hugsun sem nú er komin á kreik í kringum rekstur sjúkrahúsa og heilsugæslunnar hér á landi. Dr. Allyson Pollock, prófessor við Edinborgarháskóla, hefur rannsakað breytingar sem urðu á breska heilbrigðiskerfinu frá árinu 1991, þegar stjórn íhaldsmanna undir forystu Johns Major hóf að einkavæða heilbrigðiskerfið í skrefum. Allyson Pollock hefur gefið út bók um einkavæðingu kerfisins en hún er mjög gagnrýnin á stefnu Verkamannaflokksins sem tók við einkavæðingarmerkinu af Íhaldsflokknum og hefur jafnvel gengið lengra fram í þeim efnum en Íhaldsflokkurinn ætlaði sér. Allyson Pollock segir að Bretar horfi nú á umfangsmeiri þjóðfélagsbreytingar en fólk almennt geri sér grein fyrir. Hún segir að verið sé að markaðsvæða innra stoðkerfi samfélagsins og að í markaðsvæðingunni sé ævinlega sagt að það skipti ekki máli hvort það sé einkafyrirtæki eða fyrirtæki í almenningseigu sem annist þjónustuna. En það sé alrangt. Pollock hefur kynnt sér markaðsvædd heilbrigðiskerfi í mörgum löndum. Hún segir að í fátækari löndunum hafi einkavæðingin í raun eyðilagt heilsugæsluna frá sjónarmiði fjöldans.

AP:     Ég held að íslensk stjórnvöld undirbúi nú nýja löggjöf sem miðar að stofnun innri markaðar heilbrigðiskerfisins. Það verður þá sett á laggirnar stofnun sem kaupir af einkafyrirtækjum fyrir hið opinbera. Þeir sem nota heilbrigðiskerfið verða þá kaupendur, sem kaupa lyf, meðferð og lækningu af einkafyrirtækjum. Þetta er það sem Englendingar gerðu árið 1991. En sú breyting að skipta kerfinu í kaupendur og seljendur reyndist verða hin fyrsta af mörgum meiriháttar. Í raun sneru Englendingar þá baki við almannaþjónustu í heilbrigðismálum. Breytinguna notaði svo ríkisstjórnin sem stökkpall inn í frekari einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar. Fyrirkomulagið er nú í vaxandi mæli þannig að ríkið borgar en fjölþjóðleg fjárfestingarfyrirtæki annast framkvæmdina. Læknarnir og hjúkrunarfræðingarnir eru jafnframt ráðnir til starfa hjá þessum fyrirtækjum, ekki sjúkrahúsunum. Nú er hinn fjölþjóðlegi markaður í heilsugæslunni orðinn að staðreynd í Englandi. Heilsugæslan hefur þannig orðið að féþúfu alþjóðlegu fjárfestingarfyrirtækjanna sem ráða starfsmennina, hafa keypt byggingarnar af ríkinu sem leigir nú sín gömlu sjúkrahús af fyrirtækjunum. Þetta er gert með margvíslegum hætti, sem oft verður býsna flókinn. Einstakar deildir eða sérfræðigreinar eru markaðsvæddar, þjónusta þeirra keypt, t.d. einstaka skurðstofur, röntgen (svo dæmi sé tekið) en líka geðlækningar, umönnun af ýmsu tagi, meðhöndlun fíkla. Hægt og hægt flyst starfsemi einstakra eininga úr almannaþjónustunni, þar sem aldrei er hugsað um fjárhagslegan gróða, yfir á markaðinn, þar sem að reksturinn á að skila eigendum hagnaði. Afleiðingin er sú að nýir kostnaðarliðir skjóta upp kollinum. Það eru ýmsir liðir sem aldrei bólaði á áður en ríkið borgar. Einn helsti kostnaðarliðurinn er vegna stjórnsýslunnar, vegna þess að þegar starfið er komið út á markaðinn þarf að skrifa reikninga. Það þarf að verðleggja alla hluti. Þar bætast kringum 20 eða 30% ofan á allan kostnað hjá fyrirtækjum í almannaeigu en líka stjórnunarkostnaður en hann nemur ekki nema kringum 8%. Við stjórnunarkostnaðinn bætist sá hagnaður sem hluthafar krefjast. Og ofan á það bætist svo allur kostnaðurinn vegna markaðsvæðingar, kostnaður sem er sprottinn af auglýsingum. Samkeppni er dýr.

GG:     Segir Allyson Pollock. Hún segir að útkoman verði svo sú, að þeir sem að eigi að njóta góðs af heilbrigðiskerfinu, sjúklingarnir, almenningur¸ fái minna en áður var fyrir sína skattpeninga. „Þetta er niðurskurður hvað sjúklinga varðar en er dýrara fyrir ríkið," segir hún. „Á skömmum tíma dregst þjónustan eða umönnunin saman í dýrara kerfi. Og þetta eru ekki einhverjar kenningar um þær breytingar sem gætu orðið. Svona er breska heilsugæslan núna." Allyson Pollock segir það ekki ljóst hvers vegna heilbrigðisþjónustan í Bretlandi hafi verið markaðsvædd. Valfrelsi sjúklinga hafi þó verið nefnt og samkeppni á þessum markaði. „En staðreyndin er sú að áður en kerfið var markaðsvætt gat fólk valið sér sjúkrahús og það gat valið sér lækna. Það er liðin tíð. Heilsugæslukostnaðurinn í Bretlandi hefur vaxið, sjúkrarúmum hefur fækkað um 10% og fleira og fleira af fólki er vísað út á einkamarkaðinn." Allyson Pollock er svartsýn fyrir hönd heilbrigðisþjónustunnar í Englandi. Í Skotlandi sneru menn af markaðsvæðingarbrautinni árið 2003 með löggjöf. Í Wales ætla menn að fara að dæmi Skota.

AP:     Well, England is now into a very catastrophic state, because it is bringing in for-profit providers. But what is very interesting is that Scotland and Wales have turned their back on the market and they have, actually, in Scotland, they have reversed the internal market, the legislation which brought in the market structures, they've reversed that in 2003 and Wales is now drawing up proposals to do exactly the same thing.

Friðrik Páll Jónsson:

Gunnar Gunnarsson tók þennan pistil saman og ræddi við Allyson Pollock, prófessor frá Edinborg. Prófessorinn mun segja frá heilbrigðisþjónustunni í Englandi á ráðstefnu á vegum BSRB sem hefst kl. 8.30 í fyrramálið.