NÝ FRAMTÍÐ - ÁN NATO
Birtist í DV 30.09.14.
Í síðustu viku mælti ég fyrir þingsályktunartillögu á Alþingi um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Norður-Atlantshafsbandalaginu, NATO. Allir þingmenn Vinstri grænna ásamt einum þingmanni Pírata standa að tillögunni þar sem lagt er til að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram á næsta ári.
Í greinargerð með tillögunni er rakin saga NATO-aðildar Íslands og hvernig hún klauf þjóðina í herðar niður í nær hálfa öld. Allt þetta rakti ég einnig í umræðunni á þingi og minnti á hve óvæginn og hatrammur þessi slagur var.
Breytt heimsmynd
Með þessari tillögu er gerð tilraun til að stíga út úr þessari fortíð og meta öryggishagsmuni hagsmuni Íslands í ljósi breyttrar heimsmyndar.
Einmitt þetta var hugmyndin að baki því að sett var á laggirnar þverpólitísk nefnd í byrjun árs 2012 um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Nefndin skilaði frá sér skýrslu síðastliðið vor. Þar kom fram að samstaða var með nefndarmönnum að forgangsverkefni í þjóðaröryggisstefnu Íslands eigi að snúa að borgaralegum verkefnum svo sem umhverfisvá, netógn og náttúruhamförum. Þá þurfi að huga að skipulagðri glæpastarfsemi, fjármála- og efnahagsöryggi, matvælaöryggi og heilbrigðisöryggi, en ólíklegast sé hins vegar að Íslandi steðji hætta af hernaði eða hryðjuverkum.
Með þetta í huga er eðlilegt að skoða NATO-aðild Íslands, sem meðal annars felur í sér aðild að hernaðaraðgerðum bandalagsins um víðan heim og þá hvort kröftum Íslands væri ekki betur varið í borgaraleg verkefni á borð við þau sem samstaða náðist um í nefndinni í stað þess verja hundruðum milljóna til reksturs hernaðarbandalags.
Herlaus framtíð
Í fyrrnefndri nefnd um þjóðaröryggismál var bókað af hálfu Vinstri grænna að „áherslan á aðild að Atlantshafsbandalaginu og þátttöku m.a. í loftrýmiseftirliti rími illa við þá breiðu nálgun á þjóðaröryggisstefnu sem að öðru leyti er samstaða um. Það er skýr stefna VG að Ísland sé herlaust land og standi utan hernaðarbandalaga en efli frekar þátttöku sína í stofnunum Sameinuðu þjóðanna þar sem öll ríki eiga aðild, svo og í stofnunum eða samtökum eins og Norðurlandaráði, Evrópuráðinu og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu."
Um breytt eðli NATO á undangengnum hálfum öðrum áratug má hafa mörg orð þótt ekki gerist svigrúm til þess í stuttri blaðagrein. En hugleiðum hvort það samræmist góðu siðgæði að telja það sér til tekna að vera herlaus og óvopnuð þjóð en taka síðan þátt í því að senda annarra þjóða unglinga í stríðsrekstur. Siðlegra þætti mér af okkar hálfu - ef við á annað borð ætlum að vera innan NATO - að við hreinlega hervæddumst og værum að því leytinu sjálfum okkur samkvæm þegar við berjum stríðsbumburnar. En viljum við það? Ég held að almennt vilji Íslendingar feta aðrar slóðir og friðsamlegri inn í framtíðina.
Rökrétt að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu
Utanríkisráðherra hefur lýst yfir vilja til að ná þverpólitískri samstöðu um þjóðaröryggisstefnu Íslands. Í ljósi þess má spyrja hvort ekki sé rökrétt að vísa þeim hluta tillagna nefndarinnar til þjóðarinnar sem snýr að veru Íslands í NATO og marka þess í stað stefnu um borgaraleg þjóðaröryggismál sem ætla má að náist breiðari samstaða um.