Fara í efni

NÝ NÁLGUN Á NÝJU ÁRI

Ný nálgun
Ný nálgun

Þá er árið 2017 gengið í garð en árið 2016 liðið í aldanna skaut.  

Nú er um að gera að taka nýju ári vel og strengja sem allra flest göfug áramótaheit um góðan ásetning í lífi og starfi!

Enda þótt við berumst öll með tímans þunga niði og ráðum takmarkað um framvinduna í hinu stóra samhengi, þá erum við engu að síður gerendur í eigin lífi og getum reynt að gera úr því það sem við teljum helst  vera eftirsóknarvert. Með því móti getum við einnig haft áhrif í hinu stærra samhengi, í það minnsta gárað hina miklu elfi.

Hjá mér hafa orðið þau þáttaskil að vinnustaður minn er ekki lengur Alþingishúsið þótt viðfangsefnin sem ég glímdi við þar, pólitísk úrlausnarefni, hverfi ekki svo glatt á braut, enda er sá maður nánast dauður sem er áhugalaus um umhverfi sitt. Og dauður er ég ekki enn.

Skilningur minn á stjórnmálum er sá að þau snúist um tíðarandann, hvernig samfélagið hugsar og þá hvað stjórnmálamönnum leyfist. Um miðja tuttugustu öldina hefðu harðsvíraðir hægri menn aldrei komist upp með það sem þeir hafa illu heilli komið í verk á undanförnum árum og áratugum. Tíðarandinn hefði ekki leyft það!

Viðfangsefni vinstri manna - og þar verð ég áfram á báti - er að fá hinn pólitíska pendúl aftur yfir á félagshyggjuvænginn. Það skiptir máli fyrir jöfnuð og réttlæti að þjóðfélagið hugsi í anda samvinnu og jafnaðar.

Þannig lít ég á stjórnmálabaráttuna frá mínum eign bæjardyrum, hvort sem ég er innan þings eða utan, og mun ég að sjálfsögðu reyna eftir föngum að leggja lið pólitískri baráttu á þessum forsendum. Slagurinn verður um tíðarandann, framvegis sem hingað til.

Hjá mér verður inntakið því óbreytt en umgjörðin önnur.