Fara í efni

NÝHUGSUN Í FJÁRMÁLAHEIMINUM

Royal Bank of Scotland
Royal Bank of Scotland

Breskir skattgreiðendur hafa látið £45.5 milljarða sterlingspunda af hendi rakna til Royal Bank of Scotland frá árinu 2008 en þá ákvað breska ríkisstjórnin að forða bankanum frá gjaldþroti.

Fjármálaráðherra Breta hefur að undanförnu haft á orði að tímabært sé nú orðið að koma bankanum að nýju í einkahendur. Ekki eru þó allir sammála því. Þeim fer fjölgandi sem vilja gera uppskurð á fjármálakerfunum. Í því sambandi hefur m.a. verið rætt um að stofna banka á vegum sveitarfélaga eða í tengslum við þau og einnig hefur verið rætt um kosti sparisjóðakerfis. Sú hugmynd hefur komið fram (sjá hér: http://www.neweconomics.org/publications/entry/reforming-rbs ) að kljúfa RBS upp í smáar staðbundnar einingar í stað þess að skila bankanum í hendur einkaaðilum sem því stórbákni sem hann var og er.

Rökin fyrir því að kljúfa bankann upp eru meðal annars þau að með meiri áherslu á staðbundin sjónarmið muni byggðarlög styrkjast og smárekstur einnig en reynslan sýni að minni bankar séu opnari fyrir lánveitingum til smárra og meðalstórra fyrirtækja en stórir bankar almennt eru. Þá sé líklegt að aukin dreifstýring í fjármálakerfinu geri það stöðugra en kerfi byggt á stórum en fáum stofnunum.