Fara í efni

NÝJAR ÁHERSLUR Í SAMGÖNGUMÁLUM

MBL  - Logo
MBL - Logo

Bistist í Morgunblaðinu 17.07.12.
Undir þinglok voru samþykktar á Alþingi samgönguáætlanir til skamms og langs tíma, fjögurra ára verkefnaáætlun og tólf ára stefnumarkandi áætlun. Þetta er fyrsta stefnumarkandi áætlunin sem samþykkt er á Alþingi frá árinu 2003 og stórum áfanga er því náð í mörkun stefnu fyrir allar greinar samgangna til 2022.

Lýðræðislegt og faglegt ferli

Þessar áætlanir eru að mínu mati mjög vandaðar enda hefur fjöldi fólks komið að samningu þeirra með beinum eða óbeinum hætti. Þar nefni ég Samgönguráð með aðkomu allra helstu samgöngustofnana landsins og að sjálfsögðu sérfræðinga innanríkisráðuneytisins, fjölda félagasamataka og einstaklinga á fundum og ráðstefnum sem efnt var til í mótunarferlinu. Síðast en ekki síst ber að nefna sveitarfélögin og landshlutasamtök sveitarfélaga sem komu rækilega að málum. Að sjálfsögðu byggðist útfærslan á stefnumótun ríkisstjórnarinnar.

Samráðsferli var mun umfangsmeira en áður hefur tíðkast. Var meðal annars efnt til funda árið 2009 með fulltrúum sveitarstjórna og atvinnulífs í öllum landshlutum þar sem framtíðarstefna í samgöngumálum á landi, í lofti og á sjó var umræðuefnið. Rúmlega hundrað manns sátu samgönguþing í maí 2011 þar sem stefnudrög voru kynnt og landshlutasamtök sveitarfélaga voru í kjölfarið hvött til að senda innanríkisráðuneytinu áherslur sínar í samgöngumálum. Í samgönguáætlun má víða sjá vísanir í þetta opna samráð sem hafði umtalsverð áhrif á stefnuna sem þar er sett fram.

Endahnútinn á þetta ferli batt svo að sjálfsögðu Alþingi undir verkstjórn umhverfis- og samgöngunefndar. Ástæða er til að vekja athygli á þessu opna, lýðræðislega og faglega ferli.

Breyttar áherslur

Ljóst er að áherslubreyting hefur orðið í vinnulagi að því leyti að ekki er lengur hafður sá háttur á að þingmenn komi að stefnumótun í aðdraganda samgönguáætlunar á forsendum kjördæma sinna en þá breytingu tel ég vera mjög til góðs. Þetta á við um formið. Hitt urðu menn að sjálfsögðu varir við að þegar til kastanna kom voru margir þingmenn bundnari við sitt kjördæmi í hugsun en að líta til landsins alls.

Öryggi og almenningssamgöngur

Hagkvæmni, öryggi og umhverfismál eru lykilatriði í nýjum samgönguáætlunum. Meðal helstu áherslna samgönguáætlananna er stórátak í almenningssamgöngum, annars vegar í almenningssamgöngum sem eru nú skipulagðar til þess að þjóna íbúum í hverjum landshluta fyrir sig sem koma í stað ríkisstyrktra sérleyfa og hins vegar í almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu sem hingað til hafa ekki notið beinna ríkisframlaga. Stórátakið felst meðal annars í tíu ára tilraunaverkefni um eflingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannabyggðum sem hrint verður af stað í haust í kjölfar tímamótasamnings við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Með því er brotið blað í almenningssamgöngum bæði hvað varðar höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina. Þá verður stóraukið fjárframlag frá ríkinu í gerð hjólreiðastíga á höfuðborgarsvæðinu. Áfram verður unnið að því að stytta ferðatíma landsmanna til næsta atvinnu- og þjónustukjarna og áhersla er lögð á að bæta samgöngur þar sem þær eru hvað lakastar, svo sem á sunnanverðum Vestfjörðum. Aukið öryggi er áherslumál sem fyrr og meta á áhrif þess að taka formlega upp svokallaða »núllsýn« í umferðaröryggismálum og bera hana saman við aðrar leiðir sem þær þjóðir hafa farið er fremst standa í öryggismálum.

Samgönguáætlanirnar byggjast á raunframlagi til 2015 en síðan auknum hagvexti og auknu framlagi í samræmi við hagvaxtarspár. Var reynt að raða framkvæmdum mjög strangt inn í þennan fjárhagsramma sem gerði ráð fyrir að jarðgangaframkvæmdir gætu ekki hafist á ný fyrr en á öðru tímabili áætlunarinnar 2015-2018. Það sem hins vegar breyttist á síðari stigum var fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem byggist meðal annars á nýju veiðigjaldi.

Aukið fjármagn - auknar framkvæmdir

Hlutur samgöngukerfisins í fjárfestingaráætlun er samkvæmt þessu tveir og hálfur milljarður króna á ári næstu tíu árin umfram það sem áður var ráð fyrir gert. Þetta þýðir að við ráðgerum að hefja gangagerð fyrr en ella hefði orðið; Norðfjarðargöng árið 2013 og Dýrafjarðargöng á öðru tímabili eða kringum 2015 þannig að þeim verði lokið árið 2018.

Öðrum stórframkvæmdum verður einnig flýtt. Má þar nefna framkvæmdir við Hornafjarðarfljót sem flýtt verður um eitt ár, gerð nýrrar brúar yfir Ölfusá ofan við Selfoss sem yrði flýtt um þrjú til fjögur ár, Axarvegi verði flýtt um ár og framkvæmdir við nýjan veg um Dynjandisheiði komist inn á tímabilið 2015 til 2018. Bætt verður 400 milljónum króna við 500 milljóna framlag til tengivega. Af umfangsminni framkvæmdum sem flýtt verður má nefna endurgerð á kafla Skagastrandarvegar, árlega 100 milljóna króna fjárveitingu til breikkunar brúa, endurgerð Uxahryggjavegar með bundnu slitlagi og framkvæmdum vegarkaflans milli Þórshafnar og Vopnafjarðar verður einnig flýtt.

Þá bætum við í framlög til almenningssamgangna sem alls munu nema um 2,2 milljörðum króna á tíu ára tímabili. Munar þar mestu um milljarð til almenningssamgangna en einnig voru á yfirstandandi ári gerðir samningar við landshlutasamtök sveitarfélaga um einkaleyfi á að reka almenningssamgöngur á sínu svæði og fá til sín það fé sem Vegagerðin nýtti áður í samninga um sérleyfi.

Framtíðarlausn í Landeyjahöfn

Ráðist verður í að finna framtíðarlausn á fyrirkomulagi samgangna milli Vestmannaeyja og lands. Þar er horft til heildarlausnar með sérsmíðaðri og hentugri ferju og endurbótum á Landeyjahöfn sem eru byggðar á rækilegum rannsóknum á þeim vanda sem skapaðist við öskugosin í Eyjafjallajökli. Brýnt er að smíði nýrrar ferju hefjist sem fyrst og eru samgönguyfirvöld og Vestmannaeyjabær einhuga um að hrinda málinu í framkvæmd. Verður einn milljarður veittur árið 2013 og 1.300 milljónir árið 2014 til smíði ferju og aðgerða í Landeyjahöfn.

Rannsóknir

Þrátt fyrir aðhald í fjárfestingum í samgönguverkefnum er í samgönguáætlun gert ráð fyrir margs konar undirbúnings-, rannsóknar- og úttektarverkefnum. Ég hef minnst á núllsýn en nefni einnig stefnumótun í flugi og almenningssamgöngum, nýjar leiðir í fjáröflun til samgönguverkefna og eignastýringarkerfi samgöngumannvirkja sem ætlað er að hjálpa til við að varðveita fjárfestinguna og skilvirkni samgöngukerfis landsins svo nokkuð sé nefnt.