Nýpóleruð, fátækleg hugsun
Sæll Ögmundur. Ég var ein af fjölmörgum sem hlustuðu á Össur Skarphéðinsson, formann Samfylkingarinnar, halda ræðu s.l. föstudag. Það sem mér þótti athyglisverðast var að formaðurinn ætlar að setja einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar á dagskrá flokks síns. Ég leit í kringum mig undir þessum hluta ræðu formannsins og það voru sannarlega fleiri en ég sem klóruðu sér undrandi í höfðinu. Seint verður sagt um aðstoðarmenn Össurar að þeir séu ráðagóðir. Lánleysi hans virðist ótrúlegt og heilbrigðisútspilið nú sýnist mér verða jafn alvarlegt fyrir flokk og formann. Verður sennilega upphaf dauðastríðs formannsins því með hægribeygjunni fer hann sennilega með flokkinn niðrí klassískt fimmtungs Alþýðuflokksfylgi. Fyrir áratug reyndi sá sami Össur og nú leggur til markaðsvæðingu í heilbrigðisþjónustunni að auka og efla kostnaðarvitund sjúklinga með því að beita sér fyrir stór auknum þjónustugjöldum í heilbrigðisþjónustunni og innheimta þannig sjúklingaskatta af þeim sem höllum fæti standa. Þrátt fyrir þá hörðu gagnrýni sem fram kom á þessa stefnu á sínum tíma virðist til dæmis háskólasamfélagið ekki hafa lagt sig eftir því að kanna alvarlegar afleiðingar þjónustugjaldanna. Námskeið um þær alvarlegu félagslegu afleiðingar eru til dæmis ekki ofarlega á námskeiðslista eftirmenntunarstofnunar HÍ, sem lætur sig þó heilbrigðismálin miklu varða. Rekstrarformið er bæði körlum og konum ofarlegar i huga á þeim bæ. Það hefur komið fram í rannsóknum á sviði heilbrigðisvísinda að áhrif aðgerða af því tagi sem gripið var til fyrir áratug kom venjulega fram á 8 til 12 árum. Þær koma þannig fram að þeir sem standa höllum fæti fjárhagslega draga bæði úr læknisheimsóknum sínum og lyfjaneyslu. Þetta hefur gerst utan Íslands og þetta hefur líka gerst á Íslandi þótt forysta Samfylkingarinnar hafi ekki kynnt sér þær rannsóknaniðurstöður. Á öðrum sviðum hafa þjónustugjöldin og einkareksturinn orðið til þess að búa til hina nýju fátækt sem svo er nefnt, þ.e. fátækt barnmargra miðstéttafjölskyldna á meðallaunum. Gegn þessari stefnu hafa til dæmis þínir menn í borginni ekki unnið Ögmundur og bera því nokkra ábyrgð á nýfátæktinni í Reykjavík. Það er merkilegt að jafnaðarmannaleiðtoginn skuli sjálfur egna fyrir sig flokkspólitíska dauðagildru með einkavæðingarútspili. Enn merkilegra að hin nýpóleraða forysta skuli ekki átta sig á afleiðingum aðgerða Alþýðuflokksins í heilbrigðismálum 1991 til 1995 og hinni nýju fátækt í Reykjavík, þ.e. afleiðingum stefnunnar sem R-listinn hefur haldið fram með því að koma á og hækka þjónustugjöld í grunnskólum, tónlistarskólum og víðar. Ég dreg þetta fram hér Ögmundur vegna þess að mér hefur stundum þótt koma fram í skrifum þínum samúð með sjónarmiðum Össurar Skarphéðinssonar. Þurfa ekki launamenn að hafa varann á þegar hann er annars vegar drengurinn? Þarft þú ekki Ögmundur að endurskoða afstöðu þín til Össurar, eða draga fram beint að pólitískt líf hans byggist á því að vera réttur og sléttur talsmaður – ekki fólksins sem kosið hefur Samfylkinguna heldur stórlega ofmetins varaformanns?
Ólína
Sæl Ólína.
Þakka þér fyrir bréfið. Þú víkur þar að mörgu, ma.a R-listanum í Reykjavík og gjörðum "minna manna" þar á bæ á liðnum árum. Eins og þú veist þá hef ég ekki skrifað upp á allt sem þar hefur verið framkvæmt í áranna rás og látið það í ljós opinberlega. Hins vegar hefur R-listinn einnig gert margt ágætt og er það reyndar mín trú að hann sé hægt og sígandi að rétta kúrsinn hvað félagshygguviðhorf snertir. Það mun hins vegar kosta mikla vinnu af hálfu félagslega sinnaðs fólks að halda honum við efnið með því að styðja við bakið á þeim sem raunverulega er alvara að reka félagslega pólitík í borginni. Sem betur fer eru þeir þó margir. Þú segist hafa kennt hjá mér "samúð með sjónarmiðum Össurar Skarphéðinssonar". Ekki gleyma að það er ástæða fyrir því að við Össur erum ekki í sama stjórnmálaflokknum. Eigum við ekki að umorða þetta og tala frekar um velvild í garð einstaklingsins Össurar Skarphéðinssonar. Hvað málefnin snertir höfum við vissulega oft átt samleið og gætum átt ef hann gerðist ekki hægri sækinn til augnanna eins og mér virðsist vera að henda hann núna. Varnaðarorð þín eru í tíma töluð Ólína. Haf þökk fyrir.
Ögmundur