Fara í efni

NYTSAMUR SAKLEYSINGI?

Mér finnst að þú ættir að átta þig á að ekki eru allir viðhlæjendur vinir og þeir sem dásama þig sem hæst eru ekki endilega að því vegna þess að þeir styðja þinn málstað. Jóhann Haukson skrifar eftirfarandi. Ég er ekki sammála öllu sem sem hann segir, en Ögmundur, þú þekkir örugglega orðatiltækið nytsamir sakleysingjar. Því miður er ég ekki frá því að það eigi við þig og Liljurnar. "Sennilega er ríkisstjórnin búin að vera. Ég sé feigðarmerkin. Ég finn á mér að ekki verður aftur snúið. Sundrung íslenskra vinstrimanna er saga valdstjórnar Sjálfstæðisflokksins 80% lýðveldistímans. Sjálfstæðisflokkurinn kemst von bráðar til valda á ný. Á blöðum sögunnar mun standa að Ögmundur Jónasson hafi látið persónulegan metnað bitna á þjóðinni á örlagastundu. Sjálfstæðisflokkurinn vill í stjórn. Hann hefur hagsmuni að verja. Nýja forystan í Sjálfstæðisflokknum þarf nauðsynlega á því að halda að komast til valda. Bjarni og Illugi verða að komast í valdastóla til að kveða niður orðróminn um að forysta flokksins sé nú í Hádegismóum. Þeir þurfa að þynna út niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis í þágu Flokksins. Mun nefndin standa í lappirnar ef Sjálfstæðisflokkurinn verður kominn til valda áður en skýrslan kemur út? Falli samstjórn VG og Samfylkingar teljast það svik við alþýðu þessa lands. Þessir flokkar munu þá ekki starfa saman næstu fjögur kjörtímabil. Stærsta tækifæri þeirra á lýðveldistímanum að eilífu glatað. Í VG eru flautaþyrlar sem hafa engan skilning á þýðingu valdsins. Þeir hafa ekki viljann til valdsins. Bara tuða um eitthvað annað en íslenskan veruleika. Í Samfylkingunni er þegjandaleg uppgjöf, forystan lyftir aldrei litlafingri til að verja helstu baráttumál sín. Þess vegna sekkur þjóðin í sálrænt andóf gegn fjötrum kreppunnar. Kennir Icesave um, kennir AGS um, kennir ESB um og hverfur í hyldýpi sjálfsvorkunnar og þjóðernisrembu. Andófsliðið í VG bognar fyrst og ber við að það hafi allsherjarlausnir á öllum vanda þjóðarinnar. Sjálfstæðismenn svara kalli um að setjast í valdastóla um leið og Jóhanna gefur þeim merki. Skiptir engu máli hvað þeir segja innan flokksins sem ekki telja tímabært að setjast í ríkisstjórn. Það er vegna þess að þeir kunna leikreglurnar. Þeir sömdu þær sjálfir. Þeir þurfa líka að fá tækifæri til að verja sína menn í viðskiptalífinu. Flokkurinn vinnur fyrir þá. Það má ekki skattleggja þá. Alþýðan á að bera byrðar kreppunnar. Þeir samþykkja Icesave á kortéri og málið gleymist á þremur vikum. Þeir samþykkja stefnuna í átt að ESB. Þeir eru til í að taka á gjaldeyrismálunum. Þeir sömdu sjálfir um veru AGS hér á landi. Einhverjir verða að stjórna. Valdið er alltaf í höndum einhverra meðan valdalaus Ögmundur lofsyngur lýðræði fjöldans. Valdið fer í hendur Sjálfstæðisflokksins á ný vegna þess að Samfylkingin mun bjóða flokknum samstarf. Það hefur ekkert með hugsjónir um norrænt velferðarþjóðfélag að ræða heldur ábyrgðartilfinningu fyrir því að ljúka málum, snúa ekki við í miðri á. Allt orkar tvímælis þá gert er segja menn á þeim bæ en snúa ekki við á þótt dauflega berjist Össur og Jóhanna fyrir málstað sínum. Sagan mun dæma Ögmund hart. Afbrýðisemi hans í garð Steingríms J. Sigfússonar byggist á því að Ögmundur vill völd og áhrif. En fékk ekki. Og færir því Sjálfstæðisflokknum völdin. Mér þykir fyrir því að þurfa að segja það sem hér er sagt um Ögmund. En svona er veruleikinn. Veruleikinn og sannleikurinn á Íslandi verður áfram um sinn á skilmálum flokksins sem stjórnað hefur landinu 80% lýðveldistímans. Flokksins sem mun skilgreina fyrir íslenskri alþýðu hverjum hrunið er að kenna. Íslensk stjórnmál vinstra megin við miðju eru barnaleg, frumstæð og sjálfhverf. Því miður."
Frímann Benediktsson