Nýtt fasteignamat ógnar fjárhag heimilanna
Birtist í Mbl
Þær hækkanir sem nú hafa verið kynntar á fasteignamati eru í mörgum tilfellum óheyrilegar. Eðlilegt er að spurt sé hvað valdi. Fasteignamat ræðst af verðbreytingum á fasteignamarkaði. Fasteignir hafa verið að hækka mikið í verði undangengin ár og þ.a.l. rýkur fasteignamatið upp úr öllu valdi. Um leið hækka skattstofnar ríkis og sveitarfélaga. Árið 1999 nam þessi hækkun á fasteignamati íbúðarhúsnæðis í Reykjavík 17% og árið 2000 nam hún 15%. Það sem gerist síðan í ofanálag er að Fasteignamat ríkisins ræðst í endurmat á fasteignastofninum og hefur það haft í för með sér verulegar breytingar fyrir marga.
Heljarstökk.
Í stað þess að endurmeta skattstofninn jafnt og þétt og í áföngum er nú tekið heljarstökk. Það stökk er tekið í aðdraganda sveitarstjórnakosninganna á komandi ári. Vonandi er hugarburður að samhengi kunni að vera þar á milli. Mestar eru þessar hækkanir í Reykjavík og er ljóst að fyrir margar reykvískar fjölskyldur mun nýja fasteignamatið hafa alvarlegar fjárhagslegar afleiðingar í för með sér. Þar má nefna stórhækkun fasteignagjalda og skerðingu vaxtabóta. Í mörgum tilvikum hækkar eignaskattur og bitnar það sérstaklega illa á eldra fólki í eigin húsnæði. Eldra fólk hefur í mörgum tilvikum litla sem enga möguleika til að afla tekna til að rísa undir þessum viðbótarálögum. Eignaskattur hefur verið þessu fólki mörgu nær ofviða og er hætt við því að við breytingarnar nú hrekist það úr húsnæði sínu.
Dæmin tala.
Lítum á dæmi af fjölskyldu, sem hefur 2.800.000 í fjölskyldutekjur og býr í íbúð sem metin er á 10 milljónir. Hún skuldar 4 milljónir í íbúðinni og á þ.a.l. 6 milljónir króna hreina eign. Hún fær nú vaxtabætur sem nema 106 þúsund krónum á ári. 15% hækkun fasteignamats veldur því að vaxtabæturnar rýrna um 56.000 kr. og verða því aðeins 50.000 krónur. Við 30% hækkun fasteignamats þurrkast vaxtabæturnar alveg út. Að auki hækka fasteignagjöld í fyrra tilvikinu um 8.000 kr. eða þar um bil og í því seinna um 16.000 krónur. Að auki er á það að líta að við hækkunina í seinna tilvikinu er hrein eign fjölskyldunnar nú komin ríflega einni milljón króna yfir fríeignamörkin sem eru 7.865.000 króna. Þ.a.l. mun þessi fjölskylda þurfa að greiða 13.600 kr. í eignaskatt.
Tökum annað dæmi af ellilífeyrisþega sem býr einn. Gefum okkur að hann búi í sams konar íbúð og fjölskyldan. Hann er búinn að losa sig við sínar skuldir eftir langan vinnudag. Hann verður að sjálfsögðu ekki fyrir skerðingu á vaxtabótum því þeirra naut hann ekki fyrir. Við 15% hækkun fasteignamatsins hækka fasteignagjöldin um 8.000 kr. og 16.000 kr. í seinna tilvikinu. Þessi einstaklingur býr við lægra fríeignamark en fjölskyldan, eða 3.932.000 krónum. Við 15% hækkun fasteignamats fer greiddur eignaskattur þessa manns úr 72.810 kr. í 90.810 kr. og við 30% hækkun í 108.810 krónur. Álögur á þennan einstakling eru með þessu auknar í fyrra dæminu um 26.000 kr, og í hinu síðara um 52.000 krónur. Það munar um minna.
Tillögur um úrbætur.
Hvað er til ráða? Í fyrsta lagi eru þetta fráleit vinnubrögð og ætti ríkisstjórnin að beita sér fyrir að endurskoðun fasteignamats komi ekki í bakið á fólki með þessum hætti. Hitt þarf einnig að hafa í huga að þótt vandséð sé hvernig meta eigi fasteignir á annan hátt en með tilvísun til fasteignaverðs, þá er það engu að síður svo að húsnæði er heimili fólks. Aðstæður á markaði mega aldrei ógna öryggi heimilisins. Það er hlutverk stjórnvalda að sjá til þess. Óeðlilegt hlýtur því að teljast að miklar verðbreytingar á húsnæðismarkaði, eins og á undanförnum misserum, setji eins stórt strik í fjölskyldubókhaldið og við verðum nú vitni að.
Úrbætur í húsnæðismálum almennt myndu tryggja jafnvægi á húsnæðismarkaðinum, en það er forsenda stöðugleika. Um þetta snýst málið fyrst og síðast. Að auki þarf að taka skattalöggjöfina til endurskoðunar og hvernig henni er beitt. Þar þarf að hafa tvennt sérstaklega að leiðarljósi. Í fyrsta lagi þarf að tryggja að roskið fólk verði ekki hrakið úr íbúðum sínum vegna óheyrilegrar skattheimtu á íbúðarhúsnæði. Sérstakar ívilnanir í skattlagningu á íbúðarhúsnæði aldraðra kæmu hér til álita að mínum dómi. Hitt er einnig brýnt að forða tekjuminni fjölskyldum frá að verða fórnarlömb þenslu á húsnæðismarkaði. Það kallar á gagngert endurmat á skattlagningu íbúðarhúsnæðis og vaxtabótakerfinu.