ÓAFGREITT Á MILLI STJÓRNARFLOKKA
Ég er eindreginn stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar Samt er ég einn af þeim sem hef úr fjarlægð gagnrýnt eitt og annað í fari núverandi ríkisstjórnar. Þar sem ég hef kosið VG árum saman geri ég mestar kröfur til þess flokks. Samt ekki meiri en þær sem sanngjarnar eru að mínu mati. Þar sem ég hafði haldið uppi slíkri gagnrýni á flokkinn, að ég gat ekki samvisku minnar haldið því áfram öðru vísi en að ganga í flokkinn. Ég sé á öllu að VG hefur erft allann umræðukúltúr Alþýðubandalagsins gamla. Þ.e.a.s. tilfinningaríka umræðuhefð. Ég verð að játa, að ég geri mestar kröfur til gömlu félaganna úr AB og til Ögmundar Jónassonar.
Ég hef verið óánægður með Ögmund, ekki vegna sjónarmiða hans heldur vegna þess hvernig hann opinberar æði oft sín sjónarmið í fjölmiðla þegar þau eru öðruvísi en sú leið sem ríkisstjórnin kýs að fara. En einnig vegna þess að Ögmundur eins og hann segir orðrétt: „Alla mína tíð í pólitík og verkalýðshreyfingu hef ég átt auðvelt með að miðla málum og komast að samkomulagi".
Öll þessi erfiðu mál lágu fyrir áður enn til kosninganna kom, svo ég nefni: Icesave, kaup Magma Energy á HS orku, stefnan um fyrningu kvótans, stefnan um eignarhald á vatni, stefnan um markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins, Skattamálin , utanríkismálin, ESB og AGS.
En þegar aðili eins og ég fylgist með úr fjarlægð, virðist vera sem þessi mál öll hafi verið óafgreidd milli flokkanna áður en þessi ríkisstjórn er mynduð. En ekki bara það, þessi mál eru einnig óafgreidd innan VG. Það er rétt sem Ögmundur segir að það eru „alltaf takmörk á því hve langt menn vilja ganga í málamiðlunum þegar grundvallaratriði eru annars vegar. Þetta er eflaust einstkalingsbundið". Þetta er hárrétt, en þær málamiðlanir eiga að hafa átt sér stað áður enn farið er á stað í stjórnarsamstarfi því mikið er í húfi. Jafnvel þótt flokkurinn þurfi að gera málamiðlanir við Samfylkinguna verður niðurstaðan alltaf betri en ef hægriflokkarnir ráða för. Ég efast ekkert um það, að Ögmundur áttar sig á þeirri staðreynd, að allar þessar málamiðlanir eru jafnerfiðar fyrir aðra félaga í VG.
Kristbjörn Árnason
Þakka bréfið Kristbjörn. Til þess að málalmiðlanir séu gerðar þarf umræða að fara fram. Orð eru til alls fyrst. Ég hef hvatt til umæðru um þau mál sem á okkur brenna. Það hef ég gert frá því á áttunda áratugnum. Oft höfum við haft árangur þótt það sé ekki fyrr en nú að hinn pólitíski pendúll sé að byrja að snúast tilbaka inn á félagshyggjuvænginn eftir áralangan frostavetur frjálshyggjunnar.
Núna ríður á að við höldum auðlindum okkar. Við erum á ögurstundu. Til þess að þetta megi takst þarf þjóðfélagið að loga í opinni umræðu og er ég sannast sagna orðinn hundleiður á þessum tepruskap gagnvart henni.
Kv.
Ögmundur