ÓBEISLAÐUR AF VANAHUGSUN
Skýrslan og sú umræða sem hún hefur vakið veitir innsýn í margbreytileika fjármálakerfisins. Við minnumst þess að í efnahagshruninu fengum við að sjá að heimur fjármálanna er ekki alltaf í samræmi við veruleika raunverulegrar verðmætasköpunar og þessa dagana erum við minnt á fallvaltleikann í þessum heimi í átökunum um slitabú gömlu bankanna, þar sem meðal annars takast á samfélagslegir hagsmunir og hagsmunir spákaupmanna og hrægamma.
Þetta er önnur saga en þó hluti af þeirri stóru mynd þar sem koma saman hinn verðmætaskapandi veruleiki og heimur fjármálakerfis sem að verulegu marki lifir sjálfstæðu lífi. Á þessi skil beindust kastljós fjölmiðlanna þegar Frosti birti skýrslu sína um leiðir til að takmarka sjálfstæði og þar með völd fjármálakerfisins og sveigja það undir almannahag.
Frosti Sigurjónsson segir að bankakerfið sé í rauninni sjálfala, búi til peninga, iðulega úr takti við raunverulega verðmætasköpun í landinu. Vald þeirra megi færa undir Seðlabanka sem starfi með almannahag einan að leiðarljósi. Kerfi sitt kallar Frosti, Þjóðpeningakerfi. Það byggir á því að Seðlabankinn stjórni peningamagni í umferð en útlán viðskiptabankanna verði hins vegar þrengri stakkur sniðunn fyrir vikið. Innlán og útlán þeirra yrðu bundnari sem aftur kæmi í veg fyrir að víxlverkun innlána og útlána yki peningamagnið í umferð án aðkoma Seðlabankans. Viðskiptabankarnir hafi í raun aukið peningamagn í umferð langt umfram það sem hagkerfið þoldi. Þetta hafi leitt til verðbólgu og síðan gengisfellinga með tilheyrandi óstöðugleika, eignabólu og kreppu, sem valdið hafi þjóðinni ómældu tjóni.
Ekki eru allir jafn hrifnir af kerfi Frosta Sigurjónssonar sem mun eiga teorítískar fyrirmyndir frá fyrri tíð. Þannig segir leiðarahöfundur Viðskiptablaðsins að með þessu fyrirkomulagi lægi peningavaldið í höndum aðila nátengdum stjórnmálunum en Frosti væri að mati blaðsins „bláeygur" hvað varðar hvatana sem þarna yrðu til fyrir stjórnmálamenn á meðan einblínt væri „á neikvæð áhrif gírugra bankamanna á peningamagn í umferð."
Spyrja má á móti hvort ekki kunni að skorta nokkuð á lýðræðisvíddina hjá Viðskiptablaðinu. Það er grundvallarmunur á því annars vegar að búa við kerfi sem gefur græðginni lausan tauminn, og hins vegar fyrirkomulag sem er tengt við lýðræði og samfélag. Hið síðara er að sjálfsögðu við sjálf og hagsmunirnir okkar sjálfra. Hið sama verður aldrei sagt um fjármálakerfið sem leitast við að lifa sjálfstæðri tilveru sem einvörðungu þjóni eigendum sínum í krafti einkaeignarréttar. Að eðli til eru hvatarnir því mismunandi.
Gildi hugmynda Frosta Sigurjónssonar er mikið. Þær opna á umræðu sem nær örugglega á eftir að glæðast mjög á komandi árum um hvernig megi skapa fjármálakerfi sem vinnur í þágu samfélagsins í stað þess að nærast á því. Hugmyndir Frosta minna okkur á grundvallaratriði í þeim veruleika sem við hrærumst í auk þess sem maður hlýtur jafnan að gleðjast yfir því að á meðal okkar skuli vera djarfhuga menn, óbeislaðir af vanahugsun.