Fara í efni

ÓBILGIRNI GETUR LEITT TIL EINANGRUNAR

Sæll Ögmundur
Umfjöllun þín um málþing VG um samband ríkis og kirkju vekur óneitanlega margar spurningar. Þótt ég hafi ekki verið staddur á þinginu fannst mér ég fá góða innsýn í umræðuna. Það áhugaverða var í rauninni ekki spurningin um aðskilnað ríkis og kirkju heldur hitt hvernig fjölmenningarsamfélagið bregst við fólki af mismunandi trúarhópum. Þar fannst mér frásögn þín af erindi Hönnu Raganrsdóttur, lektors við Kennaraháskólann einkar athyglisverð. Ég átta mig á hvað þú ert að fara þegar þú tekur þá nálgun að "fólkið" eigi að laga sig að stofnunum samfélagsins, fremur en að stofnanir samfélagsins lagi sig að fólkinu þegar trúarbrögðin eru annars vegar. Viðfangsefnið sé síðan að tryggja opnar, fræðandi stofnanir sem starfi á jafnræðisgrunni. Í rauninni er ég hjartanlega sammála þessari grundvallarsýn. En geturðu ekki verið sammála mér að Hanna hafi mikið til síns máls þegar hún varar við þeirri spennu sem þetta geti skapað innan fjölskyldna innflytjenda og jafnvel leitt til einangrunar þeirra í jafnvel enn strangtrúaðra umhverfi en þú ert að reyna að forðast að verði til innan veggja skólans?
Grímur 107

Sæll Grímur
Ég er sammála þér og Hönnu Ragnarsdóttur að þessu leyti. Þegar þér er ógnað, eða öllu heldur þegar þér finnst þér vera ógnað, eins og iðulega gerist þegar umhverfið virðir lífsgildi þín að vettugi, býst þú til varnar, dregur þig jafnvel inn í skel. Þetta eru einfaldlega mannleg viðbrögð.
Að lokinni ráðstefnunni átti ég orðastað við Hönnu og benti hún þá á ýmsa athyglisverða þætti sem hún hefði, tímans vegna, ekki komið að. Hún sagði t.d. að við mættum ekki gleyma því að skólinn væri sá vettvangur sem við gætum náð til allra. Þannig væri það orðið að innflytjendur væru iðulega innan um aðra innflytjendur á vinnustað sínum. Þetta þýddi að vinnustaðurinn væri ekki sá snertiflötur mismunandi menningarheima sem skólinn væri. Hún lagði áherslu á að fara mætti margar leiðir til að brúa bilið á milli innflytjenda og skólans og þar væri áhugavert að líta til reynslu annarra þjóða.
Undir þetta tek ég og einnig hitt að í skólanum þurfum við að vanda okkur í þessum efnum. Þess vegna eigum við að gaumgæfa rannsóknir á borð við þá sem Hanna Ragnarsdóttir greindi okkur frá á málþingi VG og að sjálfsögðu eigum við að taka mark á ráðleggingum hennar.
Kveðja,
Ögmundur