ÓBOÐLEG BLAÐAMENNSKA
Birtist í DV 16.08.10.
„Óboðleg stjórnmál" er heiti á grein sem Jóhann Hauksson skrifar í DV í síðustu viku. Yfir greininni er mynd af undirrituðum. Þar segir m.a. : „Gera má ráð fyrir því að stjórnarflokkarnir þrír, Samfylkingin, Steingrímsflokkurinn og Ögmundarflokkurinn, séu sammála um að náttúruauðlindir skuli vera í þjóðareign. En þar lýkur samstöðunni. Ágreiningur vaknar þegar kemur að útlendingum. Menn hafa staðið agndofa gagnvart einangrunarhneigðum og þjóðernisofstopa Ögmundar Jónassonar í grein hans í Morgunblaðinu 6. ágúst síðastliðinn. Fæstir átta sig á því forstokkaða hatri sem hann reynir þar að rækta í garð útlendinga. Þeir eru álitnir þjófar og erindrekar samviskulausra kapítalista sem að mati Ögmundar eiga og reka AGS og Evrópusambandið."
Beðið um sanngirni
Ég veit eiginlega ekki hvernig á að bregðast við svona skrifum; hvort yfirleitt eigi að taka mann sem svona skrifar alvarlega. Það gera það þó hugsanlega einhverjir lesendur DV. Sjálfur gerði ég það fyrr á tíð og sjálft Blaðamannafélag Íslands hefur útnefnt Jóhann sem fréttamann ársins. Það var þá. Núna sýnist mér Jóhann vera í einhverju allt öðru en fréttamennsku. Hann leyfir sér að ljúga upp á mig skoðunum; segir mig rækta hatur í garð útlendinga! Hann vísar sérstaklega til blaðagreinar sem ég skrifaði í Morgunblaðið 6. ágúst sl. í þessu sambandi. Þeir sem áhuga hafa á að lesa þá grein geta fundið hana á heimasíðu minni: ogmundur.is. Þar og annars staðar má finna ótal greinar sem ég hef skrifað um stefnur og strauma í alþjóðamálum, hvernig farið er vel með sumt fólk og annað ekki, hvernig fjármagnsöfl og stórveldi hafa leikið fátækt og varnarlaust fólk og ríki. Þetta varðar Jóhann Hauksson ekkert um. Hann bara fullyrðir og fordæmir. Ég treysti því að hver og einn dæmi fyrir sig á mælikvarða réttsýni og sanngirni.
Hvað varðar eignarhald á auðlindum Íslands hef ég varað við einkavæðingu þeirra og sagt að ekki sé munur á innlendu og erlendu eignarhaldi einkaaðila nema að því leyti að fjárstreymi arðgreiðslna úr landi sé meira ef eignarhaldið er erlent. Það komi niður á íslensku hagkerfi. Skyldi það kannski bera vott um hatur á útlendingum að vísa til þessarar staðreyndar?
Eitt í dag, annað á morgun?
En bíðum við, Jóhann Hauksson lætur ekki staðar numið við meint útlendingahatur mitt. Undir millifyrirsögninni, „Ruglingur og ósamkvæmni", gerir hann því skóna, að ég og aðrir þingmenn VG - vísar einhverra hluta vegna aðeins til okkar nokkurra með nöfnum - hefðum sýnt einkavæðingu HS orku fullkomið tómlæti þegar hún var að eiga sér stað, heimild fengin fyrir sölu á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja á fjárlögum fyrir árið 2007. Þetta hafi verið gert án nokkurra athugasemda og er þar komin skýringin á millifyrirsögninni um að ekkert sé að marka okkur. „Þetta eru vitanlega ekki boðleg stjórnmál," segir verðlaunahafi blaðamanna með vandlætingu.
Hvað skyldi nú vera rétt í þessu? Haustið 2006 var margt að gerast í orkugeiranum. Til umræðu voru frumvörp um breytingu á lögum um Landsvirkjun í kjölfar þess að ríkið hafði keypt hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrar í Landsvirkjun. Í tengslum við þetta voru breytingar á nokkrum lögum á orkusviði, þar á meðal var stofnað hlutafélag um Orkubú Vestfjarða og Hitaveitu Suðurnesja. Um þetta spunnust miklar og harðar umræður á Alþingi þar sem þungamiðjan í málflutningi mínum voru varnaðarorð gegn bæði markaðsvæðingu og einkavæðingu. Þegar hér var komið sögu var þó fyrst og fremst verið að skáka til eignarhlutum innan opinbera kerfisins og í því samhengi ber að skoða heimildarákvæði um sölu ríkisins á hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja á fjárlögum fyrir árið 2007. Mig grunaði þó að annað héngi á spýtunni og krafðist svara.
Umræður á Alþingi
Í ræðu á þingi 20. nóvember 2006 spurði ég ráðherra þáverandi ríkisstjórnar: „Hvert er förinni heitið, hæstv. ráðherra? Hver er framtíðarsýnin? Hvað sjá menn í kortunum? Verða hér eitt, tvö eða þrjú orkufyrirtæki? Nú er verið að gera Rarik og Orkubú Vestfjarða að dótturfyrirtækjum. Fylgir Norðurorka í kjölfarið? Sameinast Orkuveitan og Hitaveita Suðurnesja? Verður þetta allt að einu fyrirtæki? Hver er framtíðarsýn? Hvert erum við að stefna? Til hvers er leikurinn gerður?"
Ég rakti í smáatriðum hvernig fjármálamenn vomuðu nú yfir þessum geira og nefndi nöfn í því sambandi og hlaut ámæli fyrir. Sagan kennir hins vegar að varnaðarorðin voru á rökum reist! Stjórnarþingmaður sagði við þessa umræðu: „En hv. þm. Ögmundur Jónasson og fleiri halda áfram að hamra á orðinu einkavæðing. Það er sambærileg aðferð og var þekkt í Þýskalandi að hamast nógu oft þangað til að almenningur væri farinn að trúa. En menn fara þar beinlínis með rangt mál í þeim efnum. Líklega vísvitandi. Verst af öllu þykir mér þegar hv. þingmenn saka þá sem standa að þessu frumvarpi um óheiðarleika. Það kom fram hér m.a. í andsvörum sem hv. þm. Ögmundur Jónasson og hv. þm. Össur Skarphéðinsson áttu sín á milli. Þar notuðu þeir afskaplega ógeðfelld orð þar sem þeir væna m.a. heilan stjórnmálaflokk og flutningsmenn þessa frumvarps um óheiðarleika. Þeir halda því fram að verið sé að blekkja, fara á bak við, undirlægjuháttur, svik og blekkingar."
Þetta voru viðbrögð við tilvísunum mínum í skjalfestar yfirlýsingar fjármálamanna um að þeir beindu nú sjónum sínum að orkugeiranum. Það mætti ekki gerast að þeir fengju hann í hendur og varaði ég við því að í kjölfar hlutafélagavæðingar væri eignarhald oftar en ekki fært til einkaaðila. Reynslan erlendis frá kenndi að markaðsvæðing skilaði sér ekki til neytenda og hvað einkavæðinguna áhrærir þá færði ég fram ítarleg rök fyrir því að besta fyrirkomulagið væri að hafa eiganrhaldið alfarið á hendi hins opinbera: „Ætlum við virkilega að taka raforkugeirann, vatnið og aðra þætti almannaþjónustunnar og hrinda út á markaðstorgið þannig að einstaklingar, eins og sá sem ég vísaði til hér geti haft þjónustuna að féþúfu? Þetta eru staðreyndir lífsins. Ég vísa í tölur og staðreyndir sem einkenna orðið íslenskt samfélag. Það eru fjármálamenn sem ráða orðið lögum og lofum. Síðan búum við við ríkisstjórn sem ætlar að halda áfram á þessari braut. Hún er nú að taka hinn verðmæta raforkugeira, rífa hann frá þjóðinni og henda út á markaðstorgið. Finnst mönnum þetta saklaust? Þurfa stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar sem standa fyrir þessu ekki að gera betur grein fyrir máli sínu?"
Vill fáræði og heraga!
Það gerðu þeir ekki. Sögðu ósatt um fyrirætlanir sínar; að lagabreytingarnar væru einvörðungu gerðar til að færa til eignarhald innan hins opinbera. Af minni hálfu voru sett fram rök og upplýsingar um reynsluna erlendis frá. Vitnað í skýrslur og rannsóknir. Þegar þáverandi ríkisstjórn síðan nýtti sér heimildrákvæði til sölu á hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja vorið 2007, með því að selja hann einkaaðilum þvert á það sem sagt hafði verið, mótmælti ég því hástöfum opinberlega. Allt þetta leyfir Jóhann Hauksson sér að kalla „tómlæti", og „ósamkvæmni"- og „óboðleg stjórnmál" heitir það þegar þessi mál eru núna rædd á nákvæmlega sömu forsendum og áður, nema hvað við erum nú reynslunni ríkari!
Á þessum tíma var því miður allt of lítið um að hlustað væri á rök. Það var einræðið sem gilti, heraginn. Eftir slíkum heraga kallar Jóhann Hauksson í DV. Segir gagnrýna umræðu trufla ríkisstjórnina. Inn í slíkt mynstur sýnist mér að hann sjálfur smellpassi. En þá á starfsheitið að vera eitthvað annað en fréttamaður. Fréttafulltrúi?