Ofsóknir Tyrkja á hendur Armenum og Kúrdum
Sæll Ögmundur.
Ég hef frá barnæsku heyrt um þjóðarmorð Tyrkja á Kúrdum og Armenum. Það kallast í dag glæpir gegn mannkyni. Eru Davíð og Halldór búnir að samþykkja aðför tyrkja nú að Kúrdum. Þá væri rétt að kæra þá fyrir glæpi gegn mannkyni (Davíð og Halldór).
Kveðja,G.Sv.
Heill og sæll.
Það er sorglegt til þess að vita að Nató ríkin og þar með íslensk stjórnvöld hafa jafnan horft í gegnum fingur sér gagnvart mannréttindabrotum Tyrkja á Kúrdum.
Kúrdar eiga sér mjög langa sögu á fjöllóttu landsvæði sem nær yfir austur Tyrkland, norður Írak, norðvesturhluta Írans sem og lítinn hluta norður Sýrlands og Armeníu. Með Sévres-samningnum 1920 sem bandamenn og soldán Ottómansveldisins undirrituðu, var sjálfstæði Kúrdistan sem og Armeníu viðurkennt, um leið og sjálfstæði Íraks, Sýrlands og þriggja landa Hejaz (Saudi-arabíu). Í kjölfar valdatöku Kemals Atatürk í Tyrklandi og aukins hernaðarmáttar landsins var samningurinn þó aldrei staðfestur og við tók Lausanne-samningurinn (1923) þar sem ekki var minnst á Armeníu né Kúrdistan.
Tyrknesk lög hafa bannað tilvist kúrdiskra samtaka, útgáfustarfsemi, skóla og tungumáls frá 1920 fram til 1991. Kúrdar hafa mótmælt þessari nauðungaraðlögun að tyrknesku samfélagi með uppreisnum með reglulegu millibili. Einn öflugasti mótspyrnuhópurinn er PKK sem stofnaður var 1974 sem hafði yfir að ráða 10-15 þúsund manna kjarnaher undir vopnum og milli 60-70 þúsund manna lausahers. Hefur gengið á með vígum og hermdarverkum á báða bóga þar sem tugþúsundir hafa fallið.
Þjóðfrelsishugmyndir 19. aldar höfðu áhrif í Armeníu og naut svæðið einnig góðs af auknu frjálsræði innan Tyrkjaveldis, þannig að Armenía fékk viðurkennda sérstaka stjórnarskrá 1863 innan Ottómanveldisins. Rússar og Tyrkir lentu hins vegar í styrjöld 1877 og tók hluti Armena þátt í stríðinu gegn Tyrkjum. Í kjölfarið lenti Armenía í auknum hremmingum af beggja hálfu, auk þess sem Kúrdar tóku þátt í ofsóknum á hendur þeim. Stærstu hörmungarnar gengu þó yfir þjóðina í heimstyrjöldinni fyrri og á næstu árum þar á eftir. Tyrkneska ríkisstjórnin ákvað 1915 að flytja armensku þjóðina nauðungarflutningum til Sýrlands og Mesapótamíu (Íraks). Áætlað hefur verið að þjóðin hafi þá talið um 1.750 þúsund íbúa og með hrannvígum Tyrkja og á nauðungargöngu frá heimkynnum sínum hafi allt frá 600 þúsund til ein og hálf milljón Armena týnt lífi í því sem kallað hefur verið fyrsta þjóðarmorð tuttugustu aldar. Í Sovetríkjunum áttu Armenar ekki alltaf sæla daga og öllum hugmyndum um sjálfstæði var haldið niðri. Árið 1991 eftir fall Sovétríkjanna fengu Armenar sjálfstæði.
http://search.eb.com/ (slóð inn á Encyclopeadia Britannica)
Kveðja,Ögmundur