Fara í efni

OG FJÖLMIÐLARNIR DANSA MEÐ

Vopnaleit
Vopnaleit

Fjölmiðlamenn greina alvarlegir í bragði frá fréttum um að plat-sprengjur hafi komist í gegnum vopnaleit á Keflavíkurflugvelli en þar með er sú hætta fyrir hendi að flugvöllurinn verði skilgreindur „óhreinn". Svo miklu uppnámi hefur þetta valdið að stórkostlegar tafir hafa orðið með miklum biðröðum á meðan leitarmenn gramsa af meiri kostgæfni en nokkru sinni fyrr  í snyrtivöruöskjum og rakdóti , gera ungbarnapela upptæka og skipa farþegum að henda sjampóflöskum.

Það munu hafa verið erlendir sérfræðingar sem stóðu fyrir þessari könnun en það eru að sjálfsögðu íslenskir skattborgarar sem kosta viðbótarnámskeið fyrir leitarfólkið, eflaust fjölgun þess og hugsanlega nákvæmari búnað.

Þessi nákvæmnisleit er runnin undan rifjum bandarískra stjórnvalda eftir að Tvíburaturnarnir í NewYork og fleiri byggingar voru sprengdarí september 2001 en þá var hert á öllum alþjóðlegum eftirlitsreglum að kröfu Bush-stjórnarinnar í Bandaríkjunum  og auk þess sett sérstök lög þar í landi  til að réttlæta „stríðið gegn hryðjuverkum". Um þetta fjallaði ég nýlega í ör-pistli í helgarblaði Morgunblaðsins: https://www.ogmundur.is/is/greinar/aefing-i-jafnadargedi

Nú er eftirlitsiðnaðurinn enn að sækja í sig veðrið og innan Evrópusambandsins er það rætt í fullri alvöru að fara að fylgjast með ferðalögum almennings og skiptast á upplýsingum um ferðir okkar. Þetta hefur komið til umræðu á þingi Evrópuráðsins og hef ég tekið þátt í þeirri umræðu og varað við þessari þróun.  
Þetta verður að stöðva!
Um þetta er fjallað á hinni ágætu vefsíðu turisti.is: http://turisti.is/innblastur/2037-vilja-fa-meiri-upplysingar-um-flugfarthega

Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að rándýr vopnaleit á flugvöllum hafi nokkru sinni komið í veg fyrir hryðjuverk. Samt láta yfirvöldin um heim allan hafa sig í að taka tannkremstúbur af flugfarþegum og skipa þeim að fara úr skóm og taka af sér buxnabeltin.
Og fjölmiðlarnir dansa með.