Ógnar þjóðin þingræðinu?
Lýðræði getur haft ýmsar takmarkanir. Enski heimspekingurinn og stjórnmálamaðurinn John Stuart Mill varaði okkur við því í frægri bók sinni Frelsinu að misbeita almannavaldi gegn minnihlutahópum. Þetta er rétt grundvallarregla en að mínu mati ekki algild. Það er nú að sannast fyrir augunum á okkur. Hér á landi er sprottinn fram minnihlutahópur, sem telur sig eiga í vök að verjast. Þetta eru sjálfskipaðir verjendur þingræðis. Þeir telja að nú sé vegið að skjólstæðingi sínum, Alþingi. Og hver skyldi vega að þinginu? Það er þjóðin. Ef hún ætli að fara að ráða sínum ráðum sjálf beint og milliliðalaust þá sé þingræðið í hættu. Í einfeldni minni hélt ég að þingræðið væri eins konar "næstbesta lausn". Vegna þess að erfitt væri að spyrja þjóðina um alla hluti, smáa og stóra, í almennri kosningu, hefðu menn dottið ofan á þá lausn að einstaklingarnir kysu fulltrúa, sem þeir treystu til að fara með vilja sinn inn á þing. Þar væru ákvarðanir síðan teknar í þeirra umboði. Auðvitað væri þetta ekki ákjósanlegasta fyrirkomulagið – en miðað við allar aðstæður væri erfitt að finna betri lausn en fulltrúalýðræði. En nú er semsagt sá tími upp runninn að þessi hugsun er komin á hvolf. Samkvæmt hinni nýju kenningu kemur þingið fyrst og síðan þjóðin. Ef þjóðin ætlar upp á dekk þá er valdi þingsins í voða stefnt.
Þá höfum við það.
Ekki var sá ágæti maður Þórarinn Þórarinsson, fyrrum þingmaður Framsóknarflokksins og ritstjóri Tímans á þessari hugsun. Í stórfínu bréfi frá Ólínu hér á síðunni fyrir nokkrum dögum voru rifjuð upp ummæli þessa merka manns um efni þessu skylt. Vitnað var í grein sem Þórarinn skrifaði í desember árið 1992 þegar tekist var á um hvort vísa bæri EES-samningnum til þjóðarinnar. Í þessari grein sem bar heitið “Þjóðin er æðri Alþingi” fjallaði þessi fyrrverandi formaður utanríkismálanefndar um lýðveldisatkvæðagreiðsluna 1944 og tillögur sem fyrir lágu um lýðveldisstofnunina. Tengdi hann þetta umræðu samtímans. Í greininni segir: “Meginefni þessara atkvæðagreiðslna var það að færa æðsta valdið inn í landið. Síðan hefur engin breyting verið gerð á þeirri skipan. Nú liggur hins vegar fyrir Alþingi frumvarp um róttæka breytingu á þessari skipan. Samkvæmt því á að færa umtalsverðan hluta æðsta valdsins úr landi, eða verulegan hluta löggjafarvaldsins og talsverðan hluta framkvæmdarvaldsins og dómsvaldsins. Hér er átt við frumvarpið um Evrópskt efnahagssvæði. Það er tvímælalaust stærsta og örlagaríkasta mál sem hefur legið fyrir Alþingi síðan 1944. Eins og nú horfir getur forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, staðið frammi fyrir þeim vanda innan fárra daga að ákveða hvort hún á að veita því endanlegt samþykki eða vísa því til þjóðarinnar. Þetta er tvímælalaust stærsta ákvörðun sem íslenskur þjóðhöfðingi hefur þurft að taka. En hvers vegna hefur forsetanum verið fært þetta vald? Það er vegna þess að höfundar stjórnarskrárinnar hafa talið að þegar mest á reyndi væri vald þjóðarinnar æðra en vald þingsins og þess vegna ætti forsetinn að hafa vald til þess að skjóta málum til hennar.”
Hvað skyldu varnarsveitir þingræðisins segja við þessu? Það er eins gott að einhverjir standi vaktina fyrir þingræðið. Næsta vígið, sem gæti fallið yrði hugsanlega flokksræðið og síðan foringjaræðið. Þá væri nú fokið í flest skjól!